Ein albesta söngkona okkar Íslendinga, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, tjáði sig um skilnað sem hún gekk í gegnum nýverið og segir að enginn gangi í heilagt hjónaband með það í huga að skilja.
Jóhanna Guðrún var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Normið á vef Vísis.
„Þetta eru stórar breytingar. Ég finn að ég get ekki unnið jafn mikið akkúrat núna. Ég þarf að velja mér verkefni,“ segir hún og bætir við að það erfiðasta við að skilnað sé að börnin séu ekki lengur hjá mömmu og pabba eins og áður.
„Ég viðurkenni það sjálf að ég var mjög fordómafull gagnvart skilnuðum af því að ég á foreldra sem hafa verið saman síðan þau voru fimmtán ára.“
Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson giftust í Garðakirkju fyrir þremur árum, en voru búin að vera par nokkuð lengi.
Jóhanna Guðrún er ein dáðasta söngkona landsins og hefur verið lengi; byrjaði sem barnastjarna og er ein af fáum slíkum sem náði að þróa og þroska feril sinn þannig að úr varð glæsilegur ferill sem sér ekki fyrir endann á. Til dæmis varð hún í öðru sæti Eurovision árið 2009 með laginu Is It True?
Jóhanna Guðrún og fyrrum eiginmaður hennar hafa unnið mikið saman, en Davíð er þrælmagnaður tónlistarmaður og afar fjölhæfur; frábær gítarleikari og útsetjari og þá hefur hann verið kórstjórnandi með miklum glans.
Jóhanna Guðrún og Davíð hafa ekki komið saman fram í þó nokkurn tíma og spilar án efa skilnaðurinn þar inn í. Tíminn mun einn leiða það í ljós hvort fyrrum hjónin muni halda tónlistarsamstarfi sínu áfram.