Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Jóhanna og Steingrímur þrýstu á Ögmund í Nubomálinu: „En þú veist hver vilji minn er í þessu máli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ögmundur Jónasson var boðaður á fund Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi forsætisráðherra til að ræða kaup kínverska milljarðamæringsins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, sem Ögmundur, þá innanríkisráðherra, var á móti. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra og samflokksmaður Ögmundar var einnig á fundinum. Tilgangurinn var að þrýsta á Ögmund að leyfa söluna.

Ögmundur var að gefa út ævisöguna Rauði þráðurinn þar sem hann fer yfir sýn sína á  málefnin, verkalýðsbaráttuna og pólitíska þróun síðustu ár. Í kaflanum Bankað uppá úr austri og vestri segir Ögmundur meðal annars frá fundi sem Jóhanna Sigurðardóttir boðaði hann á.

Austanbankið

Miðvikudaginn 23. nóvember 2011 óskaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eftir því að ég kæmi til fundar við sig í Stjórnarráðið. Ég varð að sjálfsögðu við þeirri beiðni.

Þegar ég kom til fundarins við Jóhönnu var þar einnig fyrir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Í ljós kom að forsætisráðherra vildi ræða Núbómálið.

Í byrjun vikunnar hafði ég sagt að fyrir vikulok myndi ég taka ákvörðun um það hvort veita ætti Huang Núbo, kínverskum milljarðamæringi, heimild til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, þrjú hundruð ferkílómetra stórjörð á Norð-Austurlandi. Ríkið átti um fjórðung jarðarinnar en einkaaðilar um þrjá fjórðu. Grímsstaðir á Fjöllum eru ein stærsta jörð á landinu, hvorki meira né minna en 0.3% af Íslandi öllu.“

- Auglýsing -

Síðar í kaflanum skrifar hann eftirfarandi texta:

Hvað sem leið vangaveltum varðandi rétt EES borgara til landakaupa þá var það óumdeilt að  Huang Núbó hefði ekki rétt til að festa kaup á íslensku landi því hann hafði ekki ríkisfang innan EES. En þessi regla var ekki óumbreytanleg. Frá henni mátti nefnilega víkja og var heimild ráðherra rúm að því leyti. Og ráðherrann sem fór með þetta vald var innanríkisráðherra. Sem slíkan vildi Jóhanna Sigurðardóttir nú eiga við mig orðastað.

Ég gerði mér ljósa grein fyrir því að forsætisráðherra var því mjög ákveðið fylgjandi að ég veitti þessa undanþágu. Einnig vissi ég að hún var ekki ein um þá afstöðu, á Norð-Austurlandi höfðu sveitarstjórnarmenn hvatt til þess að undanþága yrði veitt og þingmenn einnig tjáð sig í þessa veru. Ég vissi vel hvað klukkan sló.

- Auglýsing -

En hvernig fór fundurinn hjá þremenningunum?

Og þá spurði forsætisráðherra, hver er niðurstaðan? Ég sagði að ég væri að fara yfir málið, sem rétt var, og myndi kynna niðurstöðuna á ríkisstjórnarfundi næstkomandi föstudag. Það nægir mér ekki að vita, sagði forsætisráðherra. Hver verður niðurstaðan, ég er forsætisráðherra landsins, og nú leit hún til Steingríms, við eigum rétt á því að vita hvað þú hyggst fyrir. Steingrímur kinkaði kolli til samþykkis en sagði ekki orð.

Ég sagði að málið væri á mínu forræði og ekki annarra.

En þú veist hver vilji minn er í þessu máli, greip forsætisráðherra fram í.

Lengra varð ekki komist og lauk fundinum.

Össur Skarphéðinsson sagði mér síðar að á þessu augnabliki hefði Jóhanna verið komin að þolmörkum. En á þau mörk átti heldur betur eftir að reyna tveimur dögum síðar.

Upp rann föstudagur með ríkisstjórnarfundi. Landakaupamálið var á dagskrá fundarins.

Í upphafi fundar tók forsætisráðherra orðið áður en gengið var til dagskrár og sagðist óska eftir því að landakaupamálinu yrði frestað fram í næstu viku, hún vildi láta lögfræðinga fara yfir málið fyrir sína hönd.

Nú varð þögn sem ég síðan rauf: Þetta gæti ekki orðið.

Hvers vegna ekki, kváði forsætisráðherra.

Bréfin til málsaðila, þar sem landakaupabeiðninni var hafnað, fóru í póstdreifingu snemma í morgun.

Nú varð þögn.

Djúp þögn.

Yfirþyrmandi þögn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -