Aðstandendur Jóhannesar gáfu Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta andlátstilkynninguna.
Jóhannes Björn Ludviksson (30.11.1949-13.03.2022), rithöfundur og samfélagsrýnir, varð bráðkvaddur á heimili sínu í New York, að morgni sunnudagsins 13.mars. Foreldrar hans voru Jónína Jóhannesdóttir frá Kálfsárkoti í Ólafsfirði og Lúðvík Eggertsson fasteignasali frá Klukkulandi í Dýrafirði. Þau skildu þegar Jóhannes Björn var barn að aldri og ólst hann upp hjá móður á meðal fimm systkina og uppeldissystur að Hverfisgötu 32, í miðborg Reykjavíkur.
Jóhannes Björn eignaðist soninn Róbert með Þóru Ásbjörnsdóttur. Róbert bjó hluta æsku- og unglingsára sinna hjá föður sínum og eftirlifandi eiginkonu hans, Beth Sue Rose, í New York.
Jóhannes Björn heillaðist af list skákborðsins ungur að árum og varð Reykjavíkurmeistari, 16 ára gamall. Hann var einn efnilegasti skákmaður sinnar kynslóðar og tefldi á Evrópumóti unglinga í Amsterdam árið 1969. Jóhannes Björn lét til sín taka af miklum krafti á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum allt til dánardægurs, en bók hans “Falið vald” hefur verið lýst sem “einni umtöluðustu þjóðmálarýni seinni áratuga”.