Bakarinn Jóhannes Felixson virðist vera að mála sig útúr þeim erfiðleikum sem að honum steðja þessa dagana. Fyrst missti hann bakarískeðju sína nýlega í gjaldþrot og í gær fór glæsihús hans í Garðabænum á uppboð.
„Er þetta fokking lífið? Koma svo,“ spyr Jói Fel undir einni af myndunum sínum sem hann sýnir og auglýsir til sölu á Twitter. Hann hefur nú þegar selt einhverjar myndir og fær mörg hrós fyrir verk sín af þeim sem tjá sig undir færslur bakarans.
Það er skammt stórra högga á milli hjá bakaranum Jóhannesi Felixsyni, eða Jóa Fel. Bakarískeðja hans var úrskurðuð gjaldþrota 23. september síðastliðinn og í vikunni fór glæsihús bakarans við Markarflöt í Garðabæ á uppboð.
Það var Landsbankinn sem krafðist þess að húsið yrði selt á uppboði en Jói Fel átti sjálfur 60 prósenta eignarhlut í húsinu. Bakarískeðja Jóa Fel var úrskurðuð gjaldþrota í héraðsdómi og Bakarameistarinn hefur nú þegar tekið við rekstri bakaríanna. Eftir að fyrirtækið hafði ekki greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs þrátt fyrir að hafa dregið þau af launaútborgunum til starfsmanna fór LIVe, lífeyrissjóður verslunarmanna, fram á gjaldþrot bakaría Jóa Fel.
Mannlíf náði tali af Jóa Fel rétt áður en keðja hans var úrskurðuð gjaldþrota. Þá var bakarinn í skugga gjaldþrots og vissi ekki hvernig myndi fara fyrir bakaríunum sínum. Jói hefur áður misst bakarí utan höfuðborgarsvæðisins í gjaldþrot. „Ef ég á að segja þér alveg eins og er þá veit ég ekki hver staðan er. Ég bara veit það ekki,“ sagði Jói Fel í samtali við Mannlíf þegar hann er spurður út í stöðuna.
Ljóst er að Jóhannes hefur notað tímann vel á erfiðum síðustu vikum til að mála. Í færslu hans má sjá myndaröð af fallegum lundum og þar segist bakarinn nú þegar hafa selt tvær myndir af fjórum í röðinni. Undir lundamyndirnar ritar Gerður nokkur hrós sitt. „Vá, geggjað flott,“ segir Gerður.
„Trufluð mynd,“ segir Sólveig nokkur við mynd Jóa af stæltri konu við æfingar þar sem hún býður Covid-faraldrinum augljóslega byrgin. María er Sólveigu sammála. „Geggjuð mynd,“ segir María.
Næstar í röðinni af þeim myndum sem Jóhannes birtir hjá sér eru annars vegar mynd af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og hins vegar af rokkkónginum Elvis Presley. „Svona er útkoman þegar maður málar kóng og forseta,“ segir Jói Fel um afraksturinn.
Ekki stóð á viðbrögðunum við myndirnar af Guðna og Presly. Margrét nokkur segir ljóst að Jóhannes sé ekki bara goður bakari. „Þér er margt til lista lagt,“ segir Margrét. Hafdís tekur undir lofið og er þeirrar skoðunar að Guðni forseti ætti hreinlega að kaupa myndina af Jóa Fel.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mannlíf fjallar um myndlistarhæfileika bakarans. Jói Fel birti nefnilega mynd af eldra málverki hjá sér á Facebook, verkinu Ástin við tjörnina, þar sem hrósin hrúguðust einnig inn hjá bakaranum.
Við vinnslu fréttarinnar voru gerðar tilraunir til að ná á Jóa Fel en án árangurs.