Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Jólin voru mikill sukktími

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í einlægi viðtali við Mannlíf segir Franz Gunnarsson að eiginlega engin orð ná yfir þann mun sem sé á líðaninni eftir að hann tók til í lífi sínu og hætti að drekka.

„Það verða fimm ár núna í janúar síðan ég setti tappann í flöskuna,“ segir Franz stoltur. „Ég hafði alltaf haldið að ég gæti bara hætt að drekka og dópa þegar ég vildi, til dæmis var ég sannfærður um það þegar sambýliskona mín varð ófrísk að ég myndi hætta þegar barnið kæmi í heiminn. Það gat ég auðvitað ekki og tæpu ári eftir að sonur okkar fæddist fór hún frá mér. Þá versnaði ástandið á mér enn, og áður en ég lét segjast og fór í meðferð var ég farinn að velta því fyrir mér að binda enda á líf mitt. Fannst það hlyti að vera besta lausnin fyrir alla. Sem betur fer á ég góða vini og með þeirra hvatningu og hjálp tókst mér að ná áttum og leita mér hjálpar.“

Eins og gefur að skilja var mikil vinna óunnin þegar Franz kom úr meðferðinni og hann segir það hafa tekið töluverðan tíma fyrir barnsmóður sína að treysta sér.

„…það kemur enginn úr sex vikna meðferð með hausinn í fullkomnu lagi.“

„Ég skil það vel,“ segir hann. „Og auðvitað tekur tíma að ná bata, það kemur enginn úr sex vikna meðferð með hausinn í fullkomnu lagi, það er margra ára vinna að taka á öllu sem maður hefur gert sjálfum sér og öðrum. En eftir að ég ræddi við hana, gekkst við því sem ég hafði brotið gegn henni og baðst afsökunar hafa samskipti okkar lagast mikið og í dag erum við ágætis vinir og deilum forræði yfir syni okkar. Það er eitt af því besta sem hefur fylgt edrúmennskunni hjá mér.“

Bleika skýið er ekki bara klisja

Margir sem hætta í neyslu verða yfirmáta aktífir í alls kyns líkamsrækt og Franz segist ekki hafa verið nein undantekning frá þeirri reglu.

Franz Gunnarsson hætti að drekka fyrir tæpum fimm árum og er því að upplifa sín fjórðu jól edrú.

„Já, já, ég fór alveg á kaf í það,“ segir hann og hlær. „Fékk mér einkaþjálfara og var í ræktinni flesta daga alveg á fullu. Með tímanum hef ég nú dregið mikið úr því, þótt ég stundi auðvitað líkamsrækt enn þá, en eina íþróttagrein hef ég haldið áfram að stunda mjög mikið og það er sundið. Það gefur mér svo mikið að synda og ég reyni að gera það flesta daga.“

- Auglýsing -

Franz segir erfitt að lýsa þeim mun sem orðið hafi á lífi hans og lífssýn á þessum fimm árum án þess að detta í klisjur og væmni. Það sé einfaldlega allt mun auðveldara og betra. Klisjan um bleika skýið sé ekki út í hött, bara það að horfa á fallegt sólarlag geti fyllt hann fögnuði, svo dæmi sé tekið. Og þegar talið berst að jólunum og hvernig þau hafi breyst fer hann á flug.

„Jólin voru alltaf mikill sukktími,“ segir hann. „Ég hef alltaf borðað hjá mömmu og pabba á aðfangadagskvöld en þegar maður var í neyslu reyndi maður að komast þaðan sem fyrst og fara að „skemmta sér“. Nú erum við sonur minn að koma okkur upp okkar eigin jólahefðum. Förum alltaf á tvö jólaböll saman, sem honum finnst óskaplega skemmtilegt, og reynum að njóta jólanna eins og við mögulega getum. Maður er aftur farinn að hlakka til jólanna eins og barn og að upplifa þau í gegnum hann setur algjörlega kirsuberið á toppinn.“

Lestu viðtalið við Franz í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

- Auglýsing -

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -