Bið verður á því að nýr Herjólfur hefji siglingar á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Fara átti fyrstu ferðina í dag en nú er ljóst að það tefst um nokkrar vikur.
Á Facebook síðu Herjófs segir að prófanir á ferjunni hafi farið fram síðustu daga. Eftir „yfirferð og rýnun í alla þætti“ hafi verið ákveðið að fresta innsetningu nýju ferjunnar.
RÚV greinir frá því að komið hafi í ljós að aðbúnaður við höfnina í Vestmannaeyjum henti ekki hinu nýja skipi og hætta er á að það laskist þegar það leggur að bryggju. Svokallaður viðlegukantur mun vera of lágur fyrir nýja skipið.
Haft er eftir Jónasi Snæbjörnssyni, framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar að verið sé að kanna hvort hægt sé að útvega bráðabirgðalausnir með skömmum fyrirfara. Getur viðgerð tekið eina og allt upp í þrjár vikur og hleypur kostnaðurinn á milljónum.