Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Jón Ásgeir hyggur á stórfellda endurkomu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum forstjóri og eigandi Baugs, óskaði á dögunum eftir stjórnarsæti hjá Högum hf. sem hann missti eftir að Baugur Group var lýst gjaldþrota í mars árið 2009.

Eins og kunnugt er tók Arion banki Haga hf. yfir eftir bankahrunið í óþökk fyrrum eiganda þess. Í dag ráða íslenskir lífeyrissjóðir yfir um 40% hlutafjár Haga hf. og samkvæmt heimildum Mannlífs leggjast þeir gegn því að Jón Ásgeir fái að setjast í stjórn fyrirtækisins. Stærstu eigendur Haga hf. eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) með 13,75% hlut og lífeyrissjóðurinn Gild með 12,50% hlut.

Árið 2013 var Jón Ásgeir dæmdur fyrir skattalagabrot er snéri að rekstri Baugs og Gaums og hlaut 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða 62 milljón króna sekt. Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti síðan þann dóm á síðasta ári og þurfti Jón Ásgeir því ekki að greiða sektina og var jafnframt dæmdar tvær milljónir króna í bætur.

Árið 2008 dæmdi Hæstiréttur Jón Ásgeir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna brots á bókhaldslögum. Það þýddi að honum var óheimilt að sitja í stjórn fyrirtækja á Íslandi í þrjú ár, sbr. 66. grein laga um hlutafélög.

Honum er hins vegar heimilt í dag að setjast í stjórn hjá fyrirtækjum hérlendis en hann hefur að mestu haldið sig frá íslensku viðskiptalífi frá bankahruni. Heimildir herma hins vegar að hann ætli sér stóra hluti á íslenskum matvælamarkaði á næstu árum. Þegar hann stofnaði Bónus með föður sínum árið 1989 tókst þeim feðgum að umbylta íslenskum matvælamarkaði. Miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu með tilkomu Costco. Það sést á sameiningu Haga við Olís hf. annars vegar og hins vegar Festa hf. og olíufélagsins N1.

Baugur stærsti viðskiptavinur hinna föllnu banka

Segja má að viðskiptasaga Jóns Ásgeirs hafi hafist árið 1989 þegar hann hætti í Verzlunarskóla Íslands til þess að koma lágvörurversluninni Bónus á laggirnar með föður sínum. Árið 1992 keypti síðan Hagkaup helmingshlut í Bónus og árið eftir varð Baugur Group til.

- Auglýsing -

Í bókinni Ævintýraeyjan segir síðan Ármann Þorvaldsson frá því þegar Jón Ásgeir kom til Kaupþings árið 1998 og keypti afkomendur Pálma Jónssonar út úr Baugi Group. Þá þykir áhugavert að Ármann starfar í dag sem forstjóri Kviku banka sem sumir kalla nýja Kaupþing. Er einmitt talið að Kvika standi að baki Jóni Ásgeiri. Hlutur hans í Högum hf. sé stærri í dag en hluthafalisti félagsins segi til um. 365 miðlar hf. eru skráðir fyrir 2,76% hlut og Kvika banki er skráð fyrir 1,01% hlut.

Kaupþing fjármagnaði einnig mikið af fjárfestingum Baugs Group í Bretlandi í tískufyrirtækjum. Kaupþing og Baugur voru sem dæmi saman hluthafar í félaginu Mosaic Fashion sem átti td. Karen Millen, Warehouse, Oasis, Coast. Mosaic Fashion fór í greiðslustöðvun á sama tíma og Baugur Group.

Ármann Þorvaldsson var einmitt forstjóri Singer & Friedlander í Bretlandi sem Kaupþing stýrði fram að hruni. Við fall íslensku bankanna skuldaði Gaumur ehf. og tengd félög Kaupþingi 103 milljarða króna, Landsbankanum 96 milljarða króna, Glitni 55 milljarða króna, Straumi Burðarás 23 milljarða króna eða tæplega 300 milljarða króna samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þá skuldaði FL Group og tengd félög íslensku bönkunum 165 milljarða króna.

- Auglýsing -

Þá má nefna að félag Baugs sem hét BH Holding skuldaði Landsbankanum 50 milljarða króna við bankahrunið. Verðmætustu eignir BG Holding voru í Bretlandi í verslanakeðjunni Iceland Foods, House of Fraser, Hamleys og fleiri félögum

Árið 2016 greindi Stundin frá því að á grunni hinna svokölluðu Panamaskjala hafi verið hægt að rekja milljarðaslóð Jóns Ásgeir og Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu hans í skattaskjól. Þannig hafi félagið Moon Capital S.A. sem var um tíma helsti hluthafi 365 eftir hrun borgað upp skuldir upp á 2,4 milljarða króna við Glitni. Var greitt með íslenskum ríkistryggðum íbúðabréfum og lagt inn hjá reikning Glitnis í Lúxemborg í júní árið 2010. Þó auðævi Jóns Ásgeirs og Ingibjargar séu töluverð enn í dag verður að telja líklegt að ef Jón Ásgeir ætli sér að koma aftur inn í íslenskt viðskiptalíf verði það að stórum hluta fjármagnað með lánsfé frá íslenskum bönkum. Þar er auðvitað Kvika banki helst nefndur.

Átök um Haga framundan

Fastlega má búast við því að átök verði fram undan um ítök hjá Högum hf. og á það ekki bara við um hluthafafund félagsins sem haldin verður á föstudaginn næstkomandi. Tilnefninganefnd hjá Högum hf. hyggst ekki tilnefna Jón Ásgeir í stjórn. Þeir sem nefndin leggur til eru Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson.

Eiríkur S. Jóhannsson er stjórnarformaður Samherja og líkt og margir þekkja unnu Jón Ásgeir og Þorsteinn Már Baldvinsson, annar af aðaleigendum Samherja náið saman í íslensku viðskiptalífi fyrir bankahrunið. Það hófst þegar þeir stofnuðu Orca hópinn árið 1999 sem fjárfesti í fyrsta bankanum sem íslensk stjórnvöld einkavæddu, Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA). Jón Ásgeir náði yfirtökum á Glitni banka vorið 2007. Í febrúar 2008 vék Þorsteinn M Jónsson sem stjórnarformaður bankans og við tók Þorsteinn Már Baldvinsson.

Samherji hf. fer í dag með 9,26% hlut í Högum hf. og FISK-Seafood ehf. með 4,57% hlut. Þessi félög eignuðust hlut í Högum hf. við sameiningu við Olíuverlzun Íslands (Olís). Samherji og Fisk-Seafood eignuðust 75% hlut í Olís árið 2012 þegar Landsbankinn seldi þeim hlutinn í olíufyrirtækinu.

Heimildir Mannlífs herma að Þorsteinn Már Baldvinsson ætli sér að taka þátt í þeirri innkomu sem Jón Ásgeir hyggur á í íslensku viðskiptalífi á næstunni. Segja má að mannorð þeirra beggja hafi nú verið hreinsað á síðasta ári. Jóns Ásgeirs þegar Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti dóm Hæstaréttar frá árinu 2013 og Þorsteins Más þegar Hæstiréttur ógilti þá stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn hafði lagt á Samherja hf. vegna rannsóknar á meintum gjaldeyrisbrotum sjávarútvegsfyrirtækisins.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -