Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Það upplýsir hann í aðsendri grein þar sem lögmanni sínum hafi borist ákæra frá saksóknara. Meint kynferðisbrot á að hafa átt sér stað á heimili ráðherrans fyrrverandi.
Samkvæmt ákærunni er Jóni gefið að hafa „strokið utan klæða upp og niður eftir rassi“ á gestkomandi konu. Á þetta að hafa gerst í augsýn eiginkonu Jóns og annarra gesta. Jón Baldvin segir sakargiftirnir hins vegar vera hreinan uppspuna og lið í herferð gegn sér og Bryndísi Schram konu sinni til að eyðileggja mannorð þeirra.
Jón Baldvin fullyrðir í grein sinni að vitnisburður vitna sé ótrúverðugur. „Þetta er seinasta útspilið í skipulagðri aðför að mannorði mínu og Bryndísar,“ segir Jón Baldvin. Hann greinir einnig frá því að Bryndís gefi út bók á næstu dögum sem fjalli um fjölskylduharmleik þeirra.
Um er að ræða atvik sem átti sér stað á Spáni í júní 2018 á heimili Bryndísar og Jón í Andalúsíu. Að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu hefur Carmen Jóhannsdóttir fullyrt að Jón Baldvin hafi áreitt sig kynferðislega. Hún kærði Jón í mars í fyrra en hann hefur neitað öllum sakargiftum.
Carmen er æskuvinkona Aldísar Schram, dóttur Bryndísar og Jóns, en Aldís hefur lengi haldið því fram að faðir hennar hafi brotið kynferðislega gegn fjölda kvenna, henni þar á meðal. Þau hafa hins vegar sagt dóttur sína veika á geði og taka þurfi frásögnum hennar með það fyrir augum.