Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Jón Baldvin Hannibalsson sýknaður: „Á sama tíma er ég með óbragð í munninum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er auðvitað léttir. Á sama tíma er ég með óbragð í munninum yfir því að þetta skuli yfirleitt hafa þótt vera tilefni til formlegrar kæru. Það er svo fáránlegt. En allavega; réttlætinu var fullnægt að lokum. Þetta er búið að taka þrjú og hálft ár,“ segir Jón Baldvin Hannialsson í viðtali við Mannlíf en Fréttablaðið greindi frá því að hann hafi í morgun verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru fyrir kynferðslega áreitni. Málinu hafði áður verið vísað frá héraðsdómi en Landsréttur úrskurðaði svo í mars að Héraðsdómur Reykjavíkur ætti að taka málið upp aftur.

Ákæran snerist um að ráðherrann og sendiherrann fyrrverandi hafi strokið rass Carmenar Jóhannsdóttur á heimili hans á Spáni árið 2018. „Samskipti mín við Carmen eru engin, ég þekki hana ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir Jón Baldvin við blaðamann Mannlífs.“ Hefur hann aldrei hitt hana? „Hitt hana? Það má vera að ég hafi einhvern tímann séð hana tilsýndar. En ég minnist þess ekki að hafa átt við hana nein orðaskipti um eitt eða neitt. Carmen hefur sjálf lýst því yfir að hún sé í forsvari fyrir hópinn í kringum Aldísi, dóttur mína. Hún hefur viðurkennt það sjálf. Hún lýsti því yfir í viðtali við lögmann minn og afhjúpaði þar með þau ósannindi sín að hún hefði engin samskipti við Aldísi. Nú er alveg upplýst að hún er í forsvari fyrir þann hóp.“

Það má vera að ég hafi einhvern tímann séð hana tilsýndar.

 

Þetta þarfnast skýringa

Jón Baldvin segir að málið hafi vofað yfir sér og fjölskyldu sinni í allan þennan tíma; þrjú og hálft ár. „Ég hafði það sterklega á tilfinningunni eftir að málið kom upp að þetta hafi verið samantekin ráð frá upphafi og sviðsett sem fjandsamleg innrás inn á okkar heimili. Það vildu fáir trúa því og ég skil það vel. Þetta er svo ótrúlegt. Þetta er svo ótrúlegur óheiðarleiki og óheilindi að það er eiginlega eðlilegt að fólki trúi því ekki. Þetta er ósennileg samsæriskenning en hún er nú staðfest. Og hún er rétt. Þetta eru ofsóknir.

Það er ákæruvaldinu til háborinnar skammar og það er hneisa fyrir réttarfarið á Íslandi að ákæruvaldið í þessu tilviki skuli brjóta eigin lög sem kveða á um það að þeir kæra ekki að lokinni rannsókn nema að yfirgnæfandi líkur séu á sakfellinu fyrir refsiverða háttsemi. Allir málavextir í þessu máli frá upphafi vega eftir að yfirheyrslur lágu fyrir voru um það að þarna hafði ekkert saknæmt gerst. Og það gat ekki hafa gerst. Ef dómur dómarans er lesinn þá byggir hann aðallega á því að framburður kæranda, Carmenar, og aðalvitnis ákæruvaldsins, Laufeyar Óskar Arnórsdóttur, móður hennar, ber bara ekki saman í grundvallaratriðum. Hann er ótrúverðugur. Þetta lá fyrir frá upphafi og það var ekkert tilefni til ákæru.

- Auglýsing -

Þetta þarfnast skýringa. Hvernig stendur á því að ákæruvaldið bregður út frá grundvallarreglu sinni sem er lögfest í þessu tilviki? Er það virkilega svo að við eigum að trúa því að sú tilviljun væntanlega að allir þeir sem að málinu koma eru konur ráði för? Handhafar ákæruvaldsins eru varasaksóknarinn, Anna Barbara Andradóttir, varasaksóknari, Dröfn Kjærnested, og  þriðji saksóknarinn, Kolbrún Benediktsdóttir. Svo er það fulltrúi lögreglu, Kristín Einarsdóttir. Eigum við virkilega að trúa því að þær láti undan þrýstingi almenningsálits til að víkja frá grundvallarreglum vegna þeirra staðreyndar að þetta eru allt saman konur? Var það virkilega þeirra ætlan að setja þetta upp sem einhvers konar prófmál í aðförinni að karlaveldinu? Þótti þetta við hæfi þar sem ég átti þá að leika hlutverk hins mikla valdamanns sem var að misnota vald sitt gegn minnimáttar?

Er það virkilega svo að við eigum að trúa því að sú tilviljun væntanlega að allir þeir sem að málinu koma eru konur ráði för?

Þetta er kenningin þó hún sé að vísu alröng. Ég er enginn valdamaður og hef ekki verið það; það er meira en aldarfjórðungur frá því ég yfirgaf pólitík en ég er engu að síður fyrrum ráðherra og sendiherra. Eigum við virkilega að trúa því að réttlætið eigi að vera kynbundið með þessum hætti en ekki taka mið af sannleiksgildi og sönnunarbyrði? Það er ótrúlegt en við höfum enga skýringu. Hvernig stendur á því að þetta gerðist? Voru þetta pólitískar ofsóknir?  Við afhjúpuðum frá upphafi þennan falska málflutning sem stóðst ekki. Mér finnst það vera virðingarvert að dómarinn í þessu máli lét staðreyndir ráða og hann kvað upp sinn dóm með vísan til þess að framburður ákæruvaldsins var allur í skötulíki; hann byggði ekki á staðreyndum heldur ásökunum sem voru úr lausu lofti gripnar.

Ég ætla bara að vona að ákæruvaldið – þeir sem stjórna réttarfari á Íslandi – sjái sig um hönd og láti sér það að kenningu verða að reyna að halda uppi réttarríki á Íslandi sem byggir á trausti almennings og óháðum dómstólum og að ákæruvaldið verði ekki misnotað í pólitískrum tilgangi í tómri vileysu.“

- Auglýsing -

Jón Baldvin Hannibalsson

Með því viðbjóðslegasta

Jón Baldvin var í pólitík í áratugi og voru þá gerðar að honum margar atlögur tengdar starfinu en hann segir að ásakanir um kynferðislega áreitni sé með því viðbjóðslegasta.

„Einu sinni var reynt að bera það á mig að ég hafi látið fjármálaráðuneytið kosta fimmtugsafmælisveislu Bryndísar Schram, konunnar minnar. Það tók 12 ár að kveða það niður í Hæstarétti með því að sanna að þetta væri hreinn tilbúningur og óhróður. Þetta er pólitík.

En þessi mál varðandi kynferðislega áreitni er það viðbjóðslegasta vegna þess að þarna er verið að reyna að eyðileggja orðstír, orðspor og mannorð; ekki bara mitt heldur allrar minnar fjölskyldu og þar með talið Bryndísar. Ég hef þykkan skráp og þoli ýmislegt einmitt vegna minnar pólitísku reynslu en þetta er búið að vera helvíti fyrir konuna mína. Þær mæðgur,  Carmen og Laufey, bjuggu það til að þær hefðu orðið fyrir einhverju áfalli út af einhverju sem ekki gerðist. Sú manneskja sem hefur þolað verst áfall af völdum þessa óhróðurs er auðvitað konan mín. Og það mun ég seint fyrirgefa.

Ég hef þykkan skráp og þoli ýmislegt einmitt vegna minnar pólitísku reynslu en þetta er búið að vera helvíti fyrir konuna mína.

Þegar ég fór út úr pólitík hataði ég engan mann og fyrirgaf allt í ljósi þess að ég veit það ósköp vel af reynslu að pólitík er stríð. Ég erfi ekkert slíkt við nokkurn mann. En ég segi það fullum fetum að ég fyrirlít það fólk sem hefur reynt að færa sér í nyt fjölskylduharmleik okkar, sem eru veikindi elstu dóttur okkar, og gera sér það að féþúfu. Ég lít á það sem níðingsverk og mun aldrei fyrirgefa. Þeir taki það til sín sem eiga það. Þetta hefur náttúrlega spillt ævikvöldinu. Þetta hefur eitrað lífið síðustu árin sem áttu að vera hið friðsæla ævikvöld.“

Hvað hefur Jón Baldvin lært af þessu máli? „Að lengi skal manninn reyna. Að það eru ekki allir viðhlæjendur vinir. Og það reynir á þegar sótt er að manni og reynt að svipta mann mannorðinu. Svo sé ég hverjir snúa við manni baki og hverjir standa með manni. Ég hef kynnst því hverjir eru vinir í raun og ég hef lært hvað heigulsskapurinn er óskaplega ríkur í fari fólks. Þótt fólk viti að um er að ræða ofsókn, sem byggir ekki á staðreyndum, þá var ótti manna við það að verða bendlaður við þetta ráðandi. Heigulsháttur og ótti. Það er dapurlegt. Því að heigulsháttur er með allra vestu ódyggðum. Heigulshátturinn endar eins og reynslan sýnir í samfélagi óttans.“

Hafa vinir snúið baki við hjónunum? „Vissulega en þeir sem eftir standa eru vinir í raun.“

Ég hef kynnst því hverjir eru vinir í raun og ég hef lært hvað heigulsskapurinn er óskaplega ríkur í fari fólks.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -