Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Jón Bjarki fjórum sinnum þurft að aflýsa frumsýningu álfamyndar: „Þetta er orðinn algjör brandari“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta hefur verið þyrnum stráður leiðangur,“ segir Jón Bjarki Magnússon en heimildamynd hans, Hálfur Álfur átti að vera frumsýnd í gærkvöldi.

Frumsýning myndarinnar átti að fara fram um verslunarmannahelgina í fyrra en var frestað vegna Covid. Síðan þá er búið að skipuleggja frumsýningar ítrekað en alltaf hafa kvikmyndahúsin skellt í lás korter í sýningu. „Þetta er orðinn algjör brandari,“ bætir hann við hlæjandi.

Hættur að efast

Hann telur að langlíklegast að álög séu á myndinni. „Ég er ekki svona álfamaður, bý í Þýskalandi og verð alveg ferlega pirraður þegar Þjóðverjar spyrja mig um hvort ég trúi ekki á álfa út af því að ég sé Íslendingur. En núna er ég farinn að líta málið öðrum augum og er alveg opinn fyrir því að álfar hafi lagt álög á myndina. Ég hlýt að hafa ögrað þeim eitthvað með gerð myndarinnar. Ég er orðinn opinn fyrir öllum kenningum því þetta hefur verið með algjörum ólíkindum.“

Myndin var einnig skipulögð til sýningar á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum víða um heim sem vorum færðar á Netið. „Flestir hafa lent í einum, kannski tveimur, viðburðum sem þurfti að fresta en myndin mín er komin með langa sögu frestana.“ Myndin er ennfremur tilnefnd til Edduverðlauna sem besta heimildamyndin.

- Auglýsing -

Náðum stund við hvíta tjaldið

Jóni Bjarka var gerð þessarar myndar hjartans mál og vissulega finnst honum það sárt að koma henni ekki í sýningar. „En þetta er ekki í mínum höndum lengur, ég gerði mitt og nú verður hún að fljúga sína leið sjálf. Maður verður bara að sleppa tremmanum og taka þessu af æðruleysi.“

Myndin var upphaflega lokaverkefni Jóns Bjarka í MA námi hans í sjónrænni mannfræði í Berlín. Hún stækkaði síðan í heila heimildarmynd. Það náðist að sýna myndina á Skjaldborgarhátíðinni í Bíó Paradís í fyrra, í eitt skipti, þar sem hún fékk dómnefndarverðlaun, en strax í kjölfarið kom til hópsmit og þar með lokað fyrir fleiri sýningar.

- Auglýsing -

Jón Bjarki og kona hans, Hlín, sem einnig er framleiðandi myndarinnar náðu þó að halda hátíðarsýningu á miðvikudag með aðstandendum myndarinnar og fjölskyldum sínum. „Það var yndisleg stund að fá að njóta þess loksins að sjá myndina á kvikmyndatjaldi með sínum nánustu. Það var okkur mjög mikilvægt og slær aðeins á svekkelsið við að enn sé búið að fresta.”

Skipulagði jarðarförina

Myndin fylgir eftir afa og ömmu Jóns Bjarka, Trausta Breiðfjörð Magnússyni og Huldu Jónsdóttur, síðustu árin við undirbúning tveggja stórra viðburða. „Afi var önnum kafinn við að undirbúa annars vegar jarðarförina sína og hins vegar hundrað ára afmælið. Hann vildi samt halda afmælið áður en hann héldi jarðarförina“, segir Jón Bjarki. „Hann var búinn að kaupa kistuna, velja tónlistina, prestinn og kominn með grafreit norður á Ströndum. Hann átti líka fullan kassa af sterku víni, viskí og koníaki, sem átti að bera fram í erfidrykkjunni!”

Afi Trausti átti það til að bresta í söng.

Jóni Bjarka finnst mikilvægt að fólk í dag nái tengslum við kynslóðina sem er að hverfa núna. „Yfirleitt er gamalt fólk alltaf spurt um fortíðina en mér fannst mikilvægt að ná þeim í núinu. Þessu daglega lífi í kjallaranum við Austurbrún.“

Jón Bjarki vildi ekki mynda þau sem afa og ömmu heldur sem einstaklinga. „Þau vöndust smám saman myndavélinni og héldu áfram sínu daglega lífi.“

Rifust eins og hundur og köttur

Jón Bjarki segir þau hafa verið gríðarlega ólík. „Þau rifust eins og hundur og köttur í 70 ár. Kannski var það dýnamíkin í hjónabandi þeirra. Afi var mjög opinn, mikill sprelligosi, og átti til að bresta í söng án fyrirvara, sem gerði ömmu brjálaða. Hún var rólegri, meiri bókakona og fór með heilu ljóðabálkana.

Eitt af því sem þau gátu endalaust rifist um voru hvort væri mikilvægara, steinar eða bækur. Afi var steinamaður og harður á því að þeir skiptu meira máli en bókarskræður en þá rauk amma upp.“

Svo komu álfarnir…

Það er rétt fyrir aldarafmælið að Trausti ákvað að breyta um nafn og heita Álfur. „Þá vissi ég ekki hvert amma ætlaði og hótaði að visa honum á dyr ef hann léti af því verða.”

Trausti var fæddur 1918 og ólst upp við sögur og söngva um álfana allt um kring æskuheimilið. „Þeir þóttu eðlilegur partur af hinu daglega lífi. Þegar hann veikist svo vorið 2018 var hann nær dauða en lífi og versnaði af elliglöpum. Þá komu álfarnir enn meira inn. Þeir voru alls staðar, sátu við sjúkrarúmið, komu til hans í draumi, báðu hann um að syngja og sögðu honum sögur.“  Jón Bjarki segir að eftir spítalavistina hafi afi hans aldrei jafnað sig þar til hann lést. „En hann náði að halda upp á 100 ára afmælið.”

Amma Hulda var öllu jarbundnari en afi.

Jón Bjarki segist vera óendanlega þakklátur fyrir að hafa tekist á við þetta verkefni og náð þessum tíma í lífi afa síns og ömmu, tíma með einstaklingum af horfinni öld.

„Þau voru bæði ofsalega spennt fyrir myndinni en því miður náði hvorugt þeirra að sjá hana því amma fellur síðan frá í maí í fyrra. Þau náði þó að sjá skólaútgáfuna af myndinni á litlum skjá á Hrafnistu þar sem Trausti bjó fyrir andlát sitt. Við bjuggum til smá viðburð í tilefni þess. Hún og við öll erum þakklát fyrir það,“ segir Jón Bjarki sem bíður bjartsýnn eftir að myndin hans komist í sýningar. Loksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -