Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Jón Bjarki uppfyllti ósk afa síns: „Ekkert vit í að endurtaka leikinn“

„Á svona stundum þurfti ég að vega og meta í hvaða hlutverki ég væri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var eitthvað gríðarlegt mikilvægi falið í því að reyna að fanga, þó ekki væri nema brotabrot af veröld þeirra, áður en það yrði um seinan,“ segir Jón Bjarki Magnússon, sem dag nokkurn fékk þá hugmynd um að fylgja afa sínum og ömmu og skrásetja tilveru þeirra með myndbrotum. Hann fann sig knúinn til að útbúa verkefni sem myndi festa á mynd þau augnablik sem aldrei yrðu endurtekin. Hægt og rólega fór myndefnið að safnast saman og útkoman varð að Hálfum Álfi, heimildarmynd sem tekin verður til sýninga í vikunni.

Í samtali við Mannlíf segir Jón Bjarki það hafa tekið strembið ferli að útbúa svona mynd, svo gott sem án fjármagns, og hafi einnig verið gríðarleg áskorun að finna jafnvægi milli hlutverka kvikmyndagerðarmanns og aðstandanda. Að sögn kvikmyndagerðarmannsins voru jarðarförin lengi afa hans mikið hjartans mál og krafðist hann þess af Jóni Bjarka að hún yrði fest á upptöku.

„Afi var 98 ára og amma 95 þegar tökur hófust og verkefnið allt því eins konar kapphlaup við tímann.“ segir hann. Þá var dauðinn þarna á sveimi á meðan ferlinu stóð og bauð það upp á mikla óvissu að stunda heimildamyndagerð í nálægð hans.

„Afi veiktist til dæmis heiftarlega á meðan á ferlinu stóð og var lagður inn á spítala nær dauða en lífi. Ég var staddur í Vínarborg þegar þetta gerðist og var kominn til Íslands nokkrum dögum síðar. Það reyndi oft verulega á að gera þessa mynd og á svona stundum þurfti ég að vega og meta í hvaða hlutverki ég væri, segir Jón Bjarki og bætir við:

„Í þessu tilviki lagði ég myndavélina á hilluna til þess að vera til staðar fyrir hann.“

Þá rifjar Jón Bjarki upp annað atvik úr tökum þegar amma hans brast í skyndilega söng en þá var hún að þylja Svarkinn eftir Grím Thomsen. „Þarna var þessi gamla kona, sem hafði framan af verið svolítið feimin fyrir framan myndavélina, skyndilega farin að syngja af lífs og sálarkröftum fyrir framan mig, eitthvað sem ég hafði aldrei áður séð hana gera,“ segir Jón Bjarki.

- Auglýsing -

„Ég þurfti að hafa mig allan við til að ná þessu augnabliki á filmu og var hreint ekki viss um hvernig hefði til tekist. Ég bað hana því um að gera þetta aftur svo ég gæti undirbúið skotið betur en þá fór hún að hlæja, virtist hissa á því að vera farin að syngja með þessum hætti fyrir barnabarnið. Henni þótti ekkert vit í að endurtaka leikinn. Mómentið var farið og þessi taka yrði því að duga.“

Dyr að nýjum víddum

Jón Bjarki útskrifaðist með BA í ritlist úr Háskóla Íslands árið 2012 og hefur starfað í blaðamennsku í yfir áratug. Síðustu ár hefur heimildamyndagerðin hins vegar átt hug hans allan og vonast hann til þess geta lagt áfram rækt við hana. Vegurinn að þeirri braut fór þó smám saman að myndast um haustið 2016 þegar hann hóf meistaranám í sjónrænni mannfræði við Freie Universitat í Berlín.

„Ég hafði lengi haft áhuga á heimildamyndagerð en vissi ekki hvert fyrsta skrefið í þá átt ætti að vera, auk þess sem mér þótti forvitnilegt að kynnast aðferðum mannfræðinnar betur. Námið hentaði mér vel og opnaði dyr að víddum sem ég hafði lengi vitað að væru þarna en þekkti vart leiðirnar um. Það má segja að maður hafi þarna fengið í hendurnar ákveðinn verkfærakassa sem reynslan kennir manni síðan að nota,“ segir Jón Bjarki.

- Auglýsing -

Þessi áhersla mannfræðinnar á að dvelja lengi með þeim sem fjallað er um, að kynnast lífi þeirra innan frá ef svo má segja, og að leyfa efninu að spretta frá þeim er eitthvað sem mér finnst skipta sífellt meira máli þegar kemur að þess konar heimildamyndagerð sem ég hef mestan áhuga á. Maður reynir sitt besta til þess að þýða það sem annars er falið yfir á form sem aðrir geta skilið.“

Þegar allt breyttist

Hálfan Álf framleiðir Jón Bjarki ásamt unnustu sinni Hlín Ólafsdóttur, sem semur einnig tónlistina fyrir verkið. Myndin var valin inn á kvikmyndahátíðina Skjaldborg en hátíðinni var frestað fram á sumar vegna kórónuveirunnar.

„Í kjölfar andláts afa beið amma auðvitað spennt eftir því að geta vonandi fylgt myndinni eftir í bíó, mögulega á Skjaldborgarhátíðina þá um vorið, svo framarlega sem við kæmumst inn. Hún var orðinn verulega spennt fyrir þessari hugmynd og ætlaði sér sko aldeilis vestur á Patreksfjörð ef þetta gengi eftir, þrátt fyrir að vera þá orðin 99 ára gömul.

Eftir að hátíðinni var frestað fram á sumar og gamla konan féll frá í byrjun maí breyttist auðvitað allt, svo hún náði því miður ekki heldur að sjá myndina á hvíta tjaldinu,“ segir Jón Bjarki.

Féllu frá með skömmu bili

Afi og amma Jóns Bjarka, þau Trausti Breiðfjörð Magnússon og Hulda Jónsdóttir, féllu frá með skömmu bili, hann í mars 2019 og hún í maí 2020. Kvikmyndagerðarmaðurinn segir Hálfan Álf fjalla að hluta til um það að fylgja afa hans eftir ofan í gröfina, en hvorugt þeirra náði að sjá lokaútkomu myndarinnar. Þó hafi þau fengið að sjá svokallað grófklipp og lýsir leikstjórinn þeirri upplifun sem afar mikilvægri og súrsætri.

„Afi var fluttur inn á Hrafnistu þegar við náuðum loks að sýna þeim myndina, en við fengum að setja upp sérstaka sýningu fyrir íbúa heimilisins sem og ömmu gömlu, í sameiginlegu stofurými á deildinni hans afa. Þetta var falleg stund þar sem við jöpluðum á poppi og sötruðum á límonaði á meðan ræman leið í gegn við góðar viðtökur viðstaddra. Þau gömlu voru bæði hæstánægð með afraksturinn þó þau hafi kvartað svolítið yfir því hve illa þau sáu á sjónvarpið og hve lítið þau heyrðu á stundum,“ segir Jón Bjarki.

„Það er vissulega sárt að þau hafi ekki fengið tækifæri til þess að sjá sig á hvíta tjaldinu, enda voru þau að einhverju leyti fædd í þetta hlutverk. Að sama skapi er verulega ánægjulegt að mér hafi þó tekist að draga ríkulega persónuleika þeirra fram með þessum hætti áður en það var um seinan. Þó að þau eigi þess ekki lengur kost að vera á meðal áhorfendanna í bíósalnum þá eru þau samt sem áður einhvern veginn ennþá yfir og allt um kring þegar kemur að verkinu sjálf. Ég vona og trúi að þau séu stolt af þeirri mynd sem okkur tókst að skapa í sameiningu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -