Jón Sigurpálsson myndlistarmaður og menningarfrumkvöðull á Ísafirði er látinn, 68 ára að aldri. Aðstandendur hans sendu tilkynningu um andlátið.
Jón fæddist í Reykjavík 2. ágúst 1954. Hann stundaði nám við Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistar- og handíðaskóla Íslands áður en hann hélt til Hollands árið 1978. Þar stundaði hann myndlistarnám við De Vrije Academie í Haag og í Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam.
Jón varð safnastjóri Byggðasafns Vestfjarða og Listasafns Ísafjarðar árið 1984. Hann byggði upp Byggðasafnið í Neðstakaupstað á Ísafirði, eina heillegustu samstæðu húsa frá 18. öld á Íslandi, og hafði umsjón með húsunum þar. Hann hafði forgöngu um að Edinborgarhúsið á Ísafirði yrði gert upp og hafið til vegs og virðingar á nýjan leik sem Menningarhús Ísafjarðar. Hann var einn af stofnendum gallerísins Slunkaríkis og endurbyggði hið fornfræga kúabú Vilmundar Jónssonar landlæknis í Tungudal, þar sem hann bjó til dauðadags. Jón beitti sér fyrir ýmsum uppbyggingarverkefnum á Vestfjörðum, til dæmis í Ósvör í Bolungarvík, Hrafnseyri við Arnarfjörð og Litla-Bæ í Skötufirði. Þá barðist hann fyrir því að fyrsta varðskip Íslendinga, María Júlía, yrði varðveitt, og var einn af forsvarsmönnum Hollvinafélagsins Maríu Júlíu.
Þótt Jón hefði ærinn starfa við safnastjórn stundaði hann ávallt list sína meðfram starfinu, ekki síst við gerð skúlptúra. Hann hélt fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis og má sjá verk hans víða um landið og erlendis. Hann sat í stjórn Myndhöggvarafélags Reykjavíkur og í stjórn Myndlistarfélags Ísafjarðar alla tíð. Hann var bæjarlistamaður Ísafjarðar, hlaut viðurkenningu Sambands ísl. sjóminjasafna 2016 og var kjörinn heiðursfélagi í Félagi ísl. safna og safnamanna 2021. Þá er ógetið tónlistaráhuga hans, en hann lærði um skeið á kontrabassa sem kom sér vel þegar vinahópurinn stofnaði hljómsveitina Diabolus in Musica.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Margrét Gunnarsdóttir, píanóleikari. Börn þeirra, Gunnar og Rannveig, eru bæði myndlistarmenn.