„Ég er ekkert á förum,“ segir Jón Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks í suðvesturkjördæmi í samtali við Mannlíf. Jón er í öðru sæti listans á eftir Bjarna Benediktssyni formanni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur gefið út að hún hafi áhuga á að færa sig úr norðvesturkjördæmi og í kjördæmi formannsins og Jóns Gunnarssonar. Þar með sækir hún hugsanlega að Jóni.
Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra þingmenn í kjördæminu. Bryndís Haraldsdóttir er í þriðja sæti og Óli Björn Kárason í því fjórða. Talið er víst að þau gefi öll kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það er því þröngt á þingi og innkoma Þórdísar Kolbrúnar getur kostað einhverja þingsætið.
Jón segist ekkert hafa heyrt um áform Þórdísar annað en það sem standi í Morgunblaðinu í dag. Það breyti í engu áformum hans um áframhaldandi þingsetu.
„Ég hef fengið mikla hvatningu frá mínu fólki um að halda áfram,“ segir Jón. Hann segir óljóst hvernig raðað verði á lista en tími til að halda prófkjör sé naumur. Hann treysti fólki í kjördæminu til að ákveða framhaldið.
„Trúnaðarmenn flokksins taka ákvörðun um það hvort það verður prófkjör eða uppstilling. Ég treysti þeim vel til þess að klára það,“ segir Jón.