Jón Heimir Sigurbjörnsson, líklega meðal bestu flautuleikara sem Ísland hefur gefið af sér, er látinn. Hann var 74 ára og lætur eftir sig eiginkonu og uppkomin börn. Útför hans fer fram í dag og er hans því minnst í Morgunblaðinu.
Jón Heimir lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi, 1968 til 2000, og var yfirleitt fyrsti flautuleikari. Hann var menntaður erlendis, lauk prófi frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1968, hjá Geoffrey Gilbert og Douglas Whittaker. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík og var auk þess kennari við tónlistarskólana í Kópavogi og Garðabæ, Tónlistarskóla Sigursveins D. Kristinssonar, hjá Barnaskólum Reykjavíkur ásamt Laugarnes-, Árbæjar- og Breiðholtsskóla.
Jón H. B. Snorrason, frændi hans og saksóknari hjá ríkissaksóknara, segir hann hafa verið gífurlega hæfileikaríkan og ekki einungis hvað varðar tónlist. „Hann þótti hæfileikaríkur og sérstaklega efnilegur skíðamaður. Ég kom því á framfæri þegar kynningarmynd frá íþróttahreyfingunni var sýnd í Skógaskóla á sjöunda áratugn um að afreksskíðamaðurinn í myndinni sem renndi sér svo fimlega í bröttum brekkum Siglufjarðar væri nafni minn og náfrændi. Ég hef alltaf haft ástæðu til þess að vera stoltur af frænda mínum,“ segir Jón.
Hann segir að þrátt fyrir þetta hafi Jón Heimir ekki verið grobbinn eða montinn. „Þessi hæfileikaríki maður var hæverskur og hlédrægur en sem listamaður gerði hann vægðarlausar kröfur til sjálfs sín. Það hefur efalaust tekið sinn toll af honum frænda mínum. Jón Heimir var öðlingur, traustur og góður vinur vina sinna,“ segir Jón.