Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Jón Kr. ætlar að eiga látlausan afmælisdag: „Þekki ekki Bíldudal fyrir sama Bíldudal og ég þekkti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Afmælisbarn dagsins er stórsöngvarinn frá Bíldudal, Jón Kr. Ólafsson. Er hann 82 ára í dag þó ekki beri hann aldurinn með sér.

Jón Kr. sló í gegn í hljómsveitinni Falcon, árið 1962. Starfaði hljómsveitin næstu sjö árin en þekktasta lag þeirra er stórslagarinn Ég er frjáls. Árið 1983 gaf svo SG-hljómplötur út LP-plötuna Ljúfþýtt lag þar sem Jón Kr. söng þekkt einsöngslög við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Í gegnum árin hefur afmælisbarnið sungið inn á þónokkrar hljómplötur og komið víða fram við góðar undirtektir.

Þann 17. júní árið 2000, opnaði Jón Kr. safnið Melódíur minninganna, heima hjá sér á Bíldudal en þar er að finna margar af gersemum tónlistarsögu Íslands. Enn þann dag í dag, rekur Jón Kr. safnið en árið 2021, gaf hann Rokksafni Íslands part af Melódíu minninganna við hátíðlega athöfn.

Mannlíf heyrði í afmælisbarninu í tilefni dagsins og lá forvitni á að vita hvort og þá hvernig hann ætlaði að fagna deginum.

„Ég segi nú bara eins og vinur minn Raggi Bjarna heitinn, þú ert nice!“ svaraði Jón Kr. þegar blaðamaður Mannlífs hringdi í hann og sagði honum að hann væri afmælisbarn dagsins. Svo svaraði hann spurningunni og reyndar gott betur: „Nei, ég ætla ekki að fagna deginum, ég á bara einn hérna vin heima á Bíldudal, karlinn minn og það er ein kunningjakona mín í Reykjavík búin að hringja í dag en það er góð vinkona mín sem hringir annað slagið hingað vestur og athugar hvort allt sé í lagi með mig. Svo á ég nú reyndar annan kunningja í Reykjavík sem hringir oft í mig en hef ekki heyrt í honum síðan á fimmtudag en er svona að láta mér detta það í hug að hann hringi í dag. Þó ég vildi fá mér, að gamni mínu í lítið hvítvínsglas, þá geri ég það ekki, því ég á ekkert slíkt og ég veit ekki með hverjum ég ætti að fá mér það hér á Bíldudal. Ég botna bara ekki í því, skilurðu. Þannig að ætli ég verði ekki að láta þennan dag líða, eins og svo sem alla aðra daga, eins fyrirhafnarlaust og ég get. Ég er nú búinn að reka hér tónlistarsafn á Bíldudal í 23 ár og á nú 60 ára söngferil, sem er enginn smá tími, en það er enginn að spá í það á Bíldudal í dag. Ég verð að segja alveg eins og er, ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig, þá þekki ég ekki Bíldudal fyrir sama Bíldudal og ég þekkti. Það eina sem ég virkilega þekki á Bíldudal í dag, sjáðu til, það eru fjöllin. Þau breytast ekki.“

Vill Jón Kr., sem ekki er þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum, meina að nú snúist allt á Bíldudal um laxeldi og kalkþörunga. „Ég hitti útlending í baðhúsinu hér sem ég gat reyndar lítið talað við en hann spurði mig strax um lax. Bíddu við, það er bara talað um laxeldi og kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal í dag. Það er eins og það hafi ekkert skeð á Bíldudal áður. Bíldudalur var hér með helling af vinnu og var hér með frægustu niðursuðuverksmiðju þjóðarinnar sem var vígð 1939. Svo var hér hellings tónlistarlíf og svo var hér öflugt leikfélag. Núna er þetta allt dautt. Þetta er allt dautt. Það er ekkert að ske, það er ekki einu sinni kvenfélag hérna.“

- Auglýsing -

Þetta þótti blaðamanni Mannlífs leitt að heyra en spurði Jón Kr. hvort hann væri enn að koma fram og syngja, verandi eins hress og hann hljómaði í símanum.

„Veistu drengur minn, raunverulega er ég hættur og er það ekkert skrítið enda þetta fullorðinn, ekki það að vinur minn Raggi Bjarna hætti aldrei. En ég get sagt þér að ég var með kunningja mínum á tónleikum í Jónshúsi í Kaupmannahöfn síðastliðinn 17. júní. Ég söng reyndar bara þrjú lög en það gekk vel. Og var rosalega gaman. Þetta eru þriðju tónleikarnir sem ég held úti í Kaupmannahöfn og geri aðrir betur, ég hugsa að það hafi ekki allir gert það, svona af alþýðufólki.“

Mannlíf óskar hinum síunga Jóni Kr. innilega til hamingju með afmælið og vonar að einhver laumi á hvítvínsflösku handa honum og félagsskap á Bíldudal!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -