Mánudagur 25. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

Jón Óðinn fékk til sín mikið af fólki sem leið illa: „Kerfið uppteknara af refsingu en hjálp”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég held að þessi Covidfaraldur hafi sýnt okkur rækilega hvaða störf skipta máli. Það þarf nýjan samfélagssáttmála þar sem vinna með fólk eru metin hærra en þeirra sem braska með peninga,” segir Jón Óðinn Waage fyrrverandi lögreglumaður og júdóþjálfari til 32 ára.

Jón Óðinn hefur getið sér nafn fyrir afar hnittna og skemmtilega pistla sem skjóta föstum skotum og er hann óhræddur við að segja sínar skoðanir. Hann hefur verið búsettur í Svíþjóð síðan haustið 2015.

„Ég var einn af þeim sem fór illa út úr Hruninu. Ég eignaðist hús árið 2006 og tók 65% lán. Mín 35% hurfu svo á næstu þremur árum og hjónabandið líka. Síðar tók ég ég saman við aðra konu sem var að koma úr alveg eins pakka.”

Þau þraukuðu í fjögur ár með fimm börn á grunnskólaaldri. Lífið var hvert leiguhúsnæðið á fætur öðru. „Árið 2015 vorum við búin að fá nóg af þessu. Konan mín er kennari og gullsmiður og hafði menntað sig í Svíþjóð. Svo það lá eðlilega við að við flyttum þangað.”

Jón Óðinn starfar í dag í grunnskóla. „Ég sé um hóp af krökkum sem allir eru búnir að gefast upp á. Þetta eru frábærir krakkar en þau passa bara ekki inn í skólakerfið sem miskunnarlaust hefur níðst á þeim.

Ég byrjaði til dæmis með einn þrettán ára gutta sem var sagður hættulegur. Í dag er hann 18 ára og einn af mínum bestu vinum. Á þessum fimm árum sem ég hef unnið við þetta, hef ég unnið með í kringum þrjátíu einstaklingum sem öll hafa kennt mér meira en ég þeim.”

- Auglýsing -

Sem júdóþjálfari á Íslandi fékk Jón Óðinn til sín mikið af einstaklingum sem ekki leið vel. „Mér fannst kerfið oft uppteknara af refsingu heldur en hjálp. Og því miður er ég að upplifa svipaða hluti hér í Svíþjóð.”

Aðspurður um mesta muninn á að búa í Svíþjóð og á Íslandi segir Jón Óðinn það ekki vera spuningu. „Það er efnahagurinn. Hér lækka lánin við hverja afborgun. Ég hef reynt að útskýra verðtryggingu fyrir Svíum en þeir eiga erfitt með að skilja hana og trúa mér tæplega. Það er líka flest ódýrara hér.” Jón Óðinn segir að öðru leiti ekki mikin mun á þessum samfélögum. „Fólk er almennt ólíkt og ef maður kemur vel fram við aðra fær maður yfirleitt það sama til baka.

Mín kenning er sú að það hafi orðið stórt siðrof á Íslandi í kringum 2002 og landið sé að fást við afleiðingar þess núna. Afleiðingarnar birtast yfirleitt í því hvað samfélagsumræðan er orðin illrætt og svæsin. Það er sárt að fylgjast með því.”

- Auglýsing -

Jón Óðinn telur að Covid faraldurinn hafi sýnt fólki rækilega hvaða störf skipti máli. „Fólk þarf að hætta að láta ómerkilega tækifærissinna og hagsmunapotara etja almenningi gegn hvor öðrum.” Hann segir að þar sé hann að vísa til stjónmálamanna og talsmanna hinna ýmsu samtaka. „Það er ekkert að því að ganga vel í viðskiptum og reyndar nauðsynlegt fyrir hvert samfélag. En það þarf að vera með raunverulegri framlegð og samfélagslegri ábyrgð.”

Sjálfur er Jón Óðinn nýstiginn upp úr Covid. Hann tók veikindin út heima hjá sér af hörkunni af íslenskum sið. „Þetta var þriggja vikna orkuleysi, hjartaverkur, höfuðverkur og öndunarerfiðleikar. Það kom þó eitthvað út úr þessu þar sem allt bragðaðist eins og mold svo ég lagði helling af.”

Hvað telur Jón Óðinn að við þurfum að gera til að skapa betra og réttlátara samfélag? „Ég trúi því í einlægni að lykilorðið að betri heimi sé samkennd. Við þurfum öll, hvert og eitt, að líta inn á við og finna til samkenndar. Ef við gerum það komum við betur fram við hvort annað og verðum öll bæði glaðari og hamingjusamari. Voða væmið, en samt satt,” segir Jón Óðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -