Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Glacial vatnsfyrirtækisins, ferðast þessa dagana með einu goðsagnakenndustu hljómsveit allra tíma, Rolling Stones. Birtir Jón mynd úr einkaþotu þeirra á Facebook síðu sinni.
Fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag, að fyrr í sumar hafi Icelandic Glacial og Rolling Stones endurnýjað samstarf sitt og er það fjórða árið í röð sem samstarf hefur verið þeirra á milli. Gengur það út á að lágmarka kolefnisspor af tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum, sem nú er stendur yfir. Kalla karlarnir tónleikaferðalagið „No Filter“.
Icelandic Glacial sér hljómsveitinni og starfsmönnum hennar fyrir íslensku vatni í glerflöskum sem og flokkunartunnum.
„Við erum gríðarlega stolt og ánægð með þetta farsæla samstarf og verðuga verkefni með hljómsveitinni. Frá upphafi hefur fyrirtækið okkar lagt metnað í umhverfismál og haft það að leiðarljósi að starfsemi okkar sé kolefnishlutlaus, Umhverfismálin eru partur af því hver við erum,“ hafði Viðskiptablaðið eftir Jóni Ólafssyni í sumar þegar hann var að skrifa undir endurnýjun samstarfsins.