Jón Óttar Ólafsson, starfsmaður Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann biður Helga Seljan fréttamann afsökunar á ítrekuðum SMS-sendingum síðustu vikur. Hann segir skilaboðin endurspegla dómgreindarbrest af sinni hálfu og vonast til þess að hegðun sín skaði ekki Samherja og starfsfólk fyrirtækisins.
Líkt og Mannlíf fjallaði um í gær er Jón Óttar sagður hafa áreitt Helga Seljan mánuðum saman eða allt frá því umfjöllun Kveiks og Stundarinnar birtist þann 12. Nóvember. Kjarninn greindi frá þessu fyrstur.
Jón Óttar er sagður hafa setið fyrir Helga sem og hafa sent honum ítrekað skilaboð, bæði í síma og Facebook. Í sumum tilvikum fékk Helgi skilaboðin úr símanúmeri sem er skráð á eiginkonu Jóns Óttars.
Í yfirlýsingunni segist Jón Óttar hafa verið undir miklu álagi undanfarið sem skýri skilaboðasendingarnar en réttlæti þær ekki. Hann tekur það fram að hann hafi ekki verið að eltihrella Helga og að stjórnendur Samherja hafi ekki vitað um SMS-samskiiptin. „Nær öll skilaboðin voru send fyrr í þessum mánuði þegar umrædd fjölmiðlaumfjöllun var hvað mest áberandi með tilheyrandi óþægindum fyrir mig og fjölskyldu mína. Það var rangt af mér að senda umrædd skilaboð, þau endurspegla dómgreindarbrest af minni hálfu og ég sé mikið eftir því að hafa sent þau. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðja Helga Seljan afsökunar á þessum sendingum,“ segir Jón Óttar.
Hér má finna yfirlýsingu Jóns Óttars í heild sinni:
Yfirlýsing frá Jóni Óttari Ólafssyni Vefritið Kjarninn fjallar í dag um SMS-skilaboð sem ég sendi Helga Seljan, fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu. Það var rangt af mér að senda umrædd skilaboð, þau endurspegla dómgreindarbrest af minni hálfu og ég sé mikið eftir því að hafa sent þau. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðja Helga Seljan afsökunar á þessum sendingum. Án þess að ég vilji reyna að réttlæta skilaboðin og efni þeirra finnst mér mikilvægt að fram komi að ég hef undanfarið verið undir miklu álagi. Einkum vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum um mig persónulega. Nær öll skilaboðin voru send fyrr í þessum mánuði þegar umrædd fjölmiðlaumfjöllun var hvað mest áberandi með tilheyrandi óþægindum fyrir mig og fjölskyldu mína. Þá finnst mér rétt að undirstrika að heimsóknir mínar á kaffihúsið Kaffifélagið við Skólavörðustíg voru ekki til þess að elta Helga Seljan, eins og kemur fram í umfjöllun Kjarnans, enda hef ég verið viðskiptavinur kaffihússins í mörg ár. Hafa heimsóknir mínar þangað ekkert með Helga að gera og er því umfjöllun Kjarnans röng hvað þetta snertir. Ég get hins vegar ekki stýrt því hvernig Helgi Seljan upplifir samskipti okkar í gegnum árin. Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hef ég sinnt ráðgjöf fyrir Samherja hf. sem verktaki. Tekið skal fram að stjórnendur félagsins höfðu ekki vitneskju um skilaboð mín til Helga. Mér finnst miður ef þessi gagnrýniverða háttsemi mín verði á einhvern hátt bendluð við félagið og starfsfólk þess því hún er alfarið á mína ábyrgð. Virðingarfyllst, Jón Óttar Ólafsson