Gamli naglbíturinn Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður, skrifar grein á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni Tvískinnungur – þar sem meðal annars þetta kemur fram:
„Við lagasetningu um útlendinga var samstaða í þinginu um að láta stjórnsýslustofnanir fjalla um óskir um landvist hér en ekki ráðherra. Ein af ástæðum fyrir þessu var sú að ekki þótti heppilegt að ákvarðanir um þetta væru í höndum pólitískra ráðherra. Þær væru betur komnar í höndum hlutlausra aðila sem létu afstöðu til stjórnmála ekki villa sér sýn“ ritar Jón Steinar og heldur áfram:
„Í árásum á dómsmálaráðherra nú hefur því m.a. heyrst fleygt að hann hafi vald til að setja nýjar reglugerðir á grundvelli heimilda í lögunum, sem myndu leysa mál þeirra sem nú á að senda úr landi. M.a. heyrði ég ummæli lögmanns fólksins í þessa átt. Þetta er undarlegur málflutningur.
Er verið að óska eftir að ráðherra setji sérstaka reglugerð fyrir þennan afmarkaða hóp? Allir ættu að sjá að það er ekki unnt að gera. Reglugerðir verða að vera almenns eðlis en mega ekki beinast sérstaklega að hagsmunum tiltekinna manna sem vilja fá aðra afgreiðslu mála en aðrir hafa fengið.“
Og segir að „allt ber þetta að sama brunni. Dómsmálaráðherra hefur ekki vald til að taka yfir ákvarðanir um mál þessa fólks, nema breytt lög komi til. Heimild til að leggja fram lagafrumvörp er í höndum alþingismanna, meðal annarra þeirra sem hæst láta um þessar mundir.“
Jón Steinar nefnir nú engin nöfn heldur segir að „er það ekki dálítið dæmigert að sumir stjórnmálamenn séu fyrst, meðan fjallað er almennt um skipan þessara mála, sammála um að ráðherra skuli ekki hafa þetta vald í höndum, en ráðast síðan á hann við fyrsta tækifæri fyrir að beita ekki því valdi sem hann hefur ekki? Eru þeir stjórnmálamenn trúverðugir sem haga sér svona? Svari nú hver fyrir sig.“