Hann fæddist 7. ágúst 1944 á Akureyri, einn fjögurra sona Jónasar Þóris Björnssonar vélfræðings og Huldu Stefánsdóttur húsfreyju. Morgunblaðið segir frá andlátinu og rekur æviferil hans.
Jónas tók kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands 1971 og stundaði nám við Biblíu- og kristniboðsskólann Fjellhaug í Osló árin 1966-67. Hann starfaði sem kristniboði í Eþíópíu ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ingvarsdóttur, á árunum 1973-1987.
Sinnti hann þar m.a. neyðarstarfi í Konsó og fjármálastjórnun á skrifstofu kirkjunnar, Mekane Yesu. „Aðstæður voru oft erfiðar vegna hungursneyðar og byltingar sem gerð var þegar keisaranum var steypt af stóli og marxískri hugmyndafræði komið á. Á sama tíma óx starfið og efldist,“ segir m.a. á vef SÍK.
Á Íslandi gegndi Jónas starfi skrifstofustjóra hjá KFUM og KFUK í nokkur ár en var síðan ráðinn framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, sem hann sinnti til ársins 2013.