Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Jónas nágranni sendiráðs Kína á svörtum lista: „Ég var að fárast yfir því hvernig umgengnin væri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jónas Haraldsson lögmaður er kominn á svartan lista hjá kínverskum stjórnvöldum. Hann hefur ekki fengið skýringu á ástæðunni en telur næsta víst að það sé vegna nokkurra greina sem hann hefur skrifað þar sem hann hefur gagnrýnt Kínverja. Jónas segir að þarna hafi Kínverjar gengið of langt þar sem mál- og tjáningarfrelsi gildi á Íslandi og að þeir séu að skipta sér af innanlandsmálum. Í yfirlýsingu sendiráðisns kemur fram að það að Jónas hafi verið settur á svarta listann tengist þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gagn­vart kín­versk­um ein­stak­ling­um og lögaðilum sem taka þátt í mann­rétt­inda­brot­um í Xinjiang-héraði gagn­vart úíg­úra-múslim­um.

Jónas Haraldsson lögmaður býr við Reynimel rétt hjá húsnæðinu sem áður fyrr hýsti kínverska sendiráðið og snúa bakhliðir húsanna saman. Eftir að kínverska sendiráðið flutti í núverandi húsnæði við Bríetartún stóð húsið við Víðimel autt í nokkur ár og grotnaði niður auk þess sem garðurinn var í órækt. Margir Vesturbæingar lýstu yfir óánægju sinnu vegna ástandsins og þar á meðal Jónas sem skrifaði um þetta þrjár greinar sem birtust í Morgunblaðinu árin 2013, 2016 og 2019.

Óþrifnaður Kínverja

„Ég var að fárast yfir því hvernig umgengnin væri þarna og þetta var áskorun til kínverska sendiráðsins,“ segir Jónas. „Ég hef í gegnum tíðina skrifað greinar um hitt og þetta en skrifaði fyrst grein sem tengdist Kínverjum árið 2013. Ég skrifaði síðan 2019 grein sem birtist í Morgunblaðinu um umgengni kínverskra ferðamanna á Íslandi; um þann óþrifnað sem fylgir sumum þeirra svo sem á hótelum og minntist ég meðal annars á kvartanir fólks í ferðaþjónustunni í þeirra garð. Það hefur iðulega verið kvartað undan þeim. Starfsmenn gististaða gætu lýst því nánar.“

Jónas er spurður hvers vegna hann hafi viljað skrifa um þetta.

„Ég var að benda á hvernig þeir væru; hvernig stæðan væri af því að maður hefur orðið var við þetta sjálfur. Það er kvartað yfir þeim. Það hafa margir kvartað yfir því að þeir láti illa, Kínverjarnir, í skipulögðum ferðum og geri oft og tíðum nákvæmlega það sem þeim sýnist og oft með frekju og yfirgangi í stað þess að hlýða fararstjórunum. Einnig hefur verið kvartað undan slæmri umgengni þeirra og meðferð á bílaleigubílum.

Oft má satt kyrrt liggja. Það getur vel verið.

- Auglýsing -

Ég skrifaði svo í fyrra grein um „kínversku veiruna“ eða Covid-19 og að Covid hafi fyrst komið upp í Wuhan í Kína; á fiskmörkuðunum út af sóðaskap fyrst og fremst eins og er á þessum blautmörkuðum svokölluðum. Það fór held ég mest í taugarnar á Kínverjunum en ég skrifaði meðal annars að ég vildi að Kínverjarnir borguðu bætur. Það væri hægt með diplómatískum leiðum að semja um einhverjar bætur. Þetta er bara spurning um sanngirni. Þessi pest er búin að valda það miklu tjóni og dauðsföllum. Þeir vilja ekki viðurkenna að þetta stafi frá þeim og bera það fyrir sig að það hafi áður komið upp pestir og enginn borgað fyrir það svo sem spænsku veikina sem enginn vissi hver átti sök á“.

 

Í fyrsta skipti á Íslandi

- Auglýsing -

Starfsmaður utanríkisráðuneytisins hringdi í Jónas að morgni 15. apríl og var hann beðinn um að mæta í ráðuneytið fyrir hádegi.

„Ég var aðeins búinn að hlera hvers vegna. Ég mætti svo þangað og þá kom í ljós að það væri þetta. Að ég væri kominn á svartan lista hjá Kínverjum. Það kom aldrei fram hvers vegna. Það virðist enginn hafa spurt kínverska sendiherrann um ástæðuna en ég tel hana vera þessar greinar sem ég skrifaði.“

Jónas varð sem von var mjög hissa. En þó ekki.

„Menn eru settir á svartan lista sem hafa skrifað eitthvað ljótt um Kínverja. Þetta er í fyrsta skipti sem þetta gerist á Íslandi en þetta er þekkt svo sem í öðrum Evrópulöndum. Þarna er stórríki að setja Íslending á svartan lista til að hefna sín á honum. Fyrir mína parta kemur þetta hins vegar ekkert við mig. Þetta bítur ekkert á mig. Þetta er táknrænt. Refsingin er fólgin í því að ég má ekki fara til Kína eða vera í viðskiptum við kínverska banka. Ég ætla hvort sem er ekkert að fara til Kína og mun aldrei vera í viðskiptum við kínverska banka. Þannig að ég er hálfmóðgaður yfir því að þeir skuli ekki finna eitthvað bitastæðara til að hnekkja á manni svo maður fyndi eitthvað fyrir þessu.“

Einræðisríki

Jónas bendir á fáránleika þess að erlent stórríki sé að setja menn á bannlista hjá sér út af tjáningu í innlendum fjölmiðli.

„Þarna er verið að amast við tjáningar- og málfrelsi. Maður nýtur þess á Íslandi að geta tjáð sig. Menn taka til allra handa orða og allavegana og menn geta móðgað einhvern en það er ekki hægt að meina þeim að tjá sig. Þetta er ekki Kína. Það gildir ekki það sama á Íslandi og í Kína. Kína er eins og allir vita einræðisríki og kínverska heimsveldissinnanum líkar þetta ekki sem ég gerði og þeir vilja hafa sömu stjórn á hlutunum og sem gildir um málfrelsið hjá þeim. Þeir átta sig ekki á því að það er tjáningar- og málfrelsi í Evrópu og víðar. Þetta er voða einfalt. Og það er það sem fólki líkar illa en viðbrögðin við þessu hafa verið mér mjög í hag. Menn hafa tjáð sig um að það sé ekki forsvaranlegt að Kínverjar hagi sér svona.“

 

Skemmir fyrir Kínverjum

Jónas telur að þetta útspil varðandi svarta listann muni skemma fyrir Kínverjum hér á landi.„Þarna gengu þeir of langt. Ekki bara gagnvart mér heldur öðrum Íslendingum. Það er bara allt annað hugarfar í Kína heldur en á Íslandi og öðrum Evrópulöndum varðandi tjáningarfrelsi, málfrelsi og gagnrýni á stjórnvöld.“

Jónas segist halda að þetta muni hafa áhrif á skoðun Íslendinga á kínverskum stjórnarháttum.

„Það hafa til dæmis margir verið að gagnrýna hvernig Kínverjar eru að Kínavæða Úígúra og bæla niður Tíbeta og Nepala og eru að reyna að hafa áhrif á múslíma í Kína. Þetta er einræðisríki með kapítalísku ívafi“.

Ná áhrifum með auðmagni

Innviða- og fjárfestingaverkefnið Belti og braut og norðurslóðastefna Kínverja berst í tal. Markmið Belti og brautar er að auka samskipti um stefnumótun á milli ríkja, auðvelda viðskipti og verslun, styrkja samgöngur, auka gjaldeyrisviðskipti og styrkja samskipti milli þjóða. Aukin hnattvæðing og samþætting er því hornsteinninn. Þarna má nefna hafnir, járnbrautir og lestir og allt sem tengist netkerfum. Þá á Kína mikilvægra hagsmuna að gæta í málefnum norðurslóða. Þess má geta að Kína er áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu.

„Þeir eru að reyna að ná áhrifum út um allt. Ekki með hervaldi heldur kínversku auðmagni.“

Blaðamaður hafði samband við kínverska sendiráðið og óskaði eftir að kínverski sendiherrann myndi tjá sig um mál Jónasar. Í svari frá sendiráðinu var bent á yfirlýsingu á heimasíðu þess þar sem þess er krafist að Ísland hætti öll­um af­skipt­um af kín­versk­um innanríkismálum­ und­ir yf­ir­skini mann­rétt­inda­mála. Þar kemur meðal annars fram að það að Jónas hafi verið settur á svarta listann tengist þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gagn­vart kín­versk­um ein­stak­ling­um og lögaðilum sem taka þátt í mann­rétt­inda­brot­um í Xinjiang-héraði gagn­vart úíg­úra-múslim­um. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að þvingungaraðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í byggist ekki á neinu nema lyg­um og falsfréttum. Þá segir að ákvörðunin brjóti alþjóðleg lög og óskrifaðar regl­ur um alþjóðasam­skipti. Því er haldið fram að þátt­taka Íslands í þving­uaraðgerðunum grafi und­an sam­skipt­um Íslands og Kína.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -