Jürgen Klopp, þjálfari knattspyrnuliðs Liverpool, var ekki hress með að vera spurður um sitt álit á kórónaveirunni á blaðamannafundi eftir tap liðsins gegn Chelsea í enska bikarnum á dögunum. „Pólitík, kórónaveira, hvers vegna ertu að spyrja mig um það?“ sagði stjórinn pirraður þegar blaðamaður varpaði fram þeirri spurningu hvort liðið hefði áhyggjur af útbreiðslu veirunnar. „Ég er með derhúfu og illa rakaður. Hvað mér finnst skiptir engu máli.“
„Sko, það sem mér líkar illa í lífinu er að skoðun fótboltaþjálfara á alvarlegum málefnum skuli skipta máli,“ sagði Klopp. „Ég skil það ekki. Ég skil það bara alls ekki. Það skiptir engu máli hvað fræga fólkið segir. Við verðum að tala um hlutina á réttan hátt, ekki að fólk eins og ég sem veit ekki neitt sé að tjá sig um málin.“
„Hvaða skoðun ég hef kemur málinu ekkert við.“
Klopp benti á að það væri hlutverk þeirra sem vit hefðu á málinu að leggja línurnar.
„Fólk sem hefur þekkingu á þessu mun tala um þetta mál og segja fólki að gera hitt og þetta og þá mun allt fara vel. Eða ekki.“ sagði stjórinn. „Hvaða skoðun ég hef kemur málinu ekkert við.“