Kanadískur karlmaður skaut og myrti minnst 16 manns í árás sem stóð yfir í 12 tíma víða um Nova Scotia, fylki í suðausturhluta Kanada. Kanadíska lögreglan á enn eftir að staðfesta hversu margir féllu í árás mannsins en þetta er talið vera mannskæðasta fjöldamorð í sögu Kanada.
Byssumaðurinn mun hafa keyrt um á bíl sem var dulbúinn sem lögreglubíll á meðan á árásinni stóð.
Maðurinn hóf að skjóta á fólk á laugardaginn en var stöðvaður í nótt eftir bílaeltingaleik sem endaði við bensínstöð við fjölfarnasta þjóðveg Nova Scotia, um 35 kílómetra norður af Halifax. Þar féll hann fyrir skotum lögreglu.
Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur af lögreglu en hét hann Gabriel Wortman og var 51 árs gamall.
Lögreglan segir manninn hafa skotið og myrt fólk á minnst fjórum stöðum víða um fylkið og er talið að hann hafi skotið fólk af handahófi. Meðal fórnalamba hans er lögreglukona, tveggja barna móðir, sem sinnti eftirför.