Eftir að erindi barst frá N4 á Akureyri til Meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, ákvað nefndin að hækka styrkveitingar til einkarekinna fjölmiðla sem nemur 100 milljónum króna.
Fram kemur á ruv.is að í tillögu sem meirihlutinn sendi frá sér síðastliðinn miðvikudag, er tekið fram sérstaklega að hækkunin sé vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni; sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð – en N4 er eina sjónvarpsstöðin á landsbyggðinni.
Þingmaður Framsóknarflokksins, Stefán Vagn Stefánsson, á sæti í fjárlaganefnd – en mágkona hans er framkvæmdastjóri N4.
Segist Stefán ekki hafa tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um styrkinn.
Umræða var um tillöguna á Alþingi í morgun; Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði tillöguna ekkert annað en hneykslanlega; flokksbróðir hennar, Sigmar Guðmundsson, nefndi að Víkurfréttir í Reykjanesbæ gætu líka fallið undir skilgreiningu fjárlaganefndar.
RÚV náði tali af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins eftir ríkisstjórnarfund í morgun:
„Ég held að mönnum hafi gengið gott til með því að koma til móts við erfiða stöðu einkarekinna fjölmiðla. Ríkisútvarpið er að fá verulega uppbót í fjárlögunum. Það eru yfir 300 milljónir sem fara í gegnum lögboðið útvarpsgjald frá heimilunum til Ríkisútvarpsins og mér finnst ekkert skrýtið að þingið sé á sama tíma að velta fyrir sér stöðu einkarekinna miðla. Kannski gerðist þetta fullhratt og menn voru ekki búnir að hnýta alla lausa en við bara björgum því,“ sagði Bjarni og bætti við aðspurður að ekki hafi verið um að ræða vanhæfni:
„Ég sé það ekki. Ég held að umræðan almennt um vanhæfi þingmanna sé á ákveðnum villigötum. Þingmenn eru ekki að taka stjórnsýsluákvarðanir eins og umræðan um vanhæfi almennt snýst um.“