Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Kapphlaupið hafið fyrir alvöru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pete Buttigieg fór með sigur af hólmi í forkosningum demókrata í Iowa en fæstir telja meðbyrinn nægan til að skila honum í Hvíta húsið. Baráttan hefur staðið um hugmyndir en nú spyrja menn sig: hver er líklegastur til að fella drekann?

Hann nam við Harvard og síðar Oxford sem Rhodes-styrkþegi. Hann starfaði fyrir forsetaframboð John Kerry árið 2004 og síðar hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company í þrjú ár. Aðeins 29 ára var hann kjörinn borgarstjóri í heimabæ sínum South Bend en var í varaliði sjóhersins á sama tíma og sendur til Afganistan árið 2014.

„Hann“ er Pete Buttigieg, sem fór með sigur af hólmi í forvali demókrata í Iowa á mánudag. Í ársbyrjun 2015 var hann borgarstjóri smábæjar í Indiana, einhleypur og „inni í skápnum“. Sama ár kom hann út og var skömmu síðar endurkjörinn með 80% atkvæða. Nú, fjórum árum síðar, er hann meðal fremstu manna í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar 2020 og ferðast um landið í fylgd eiginmanns síns, Chasten Buttigieg, áður Glezman.

Þegar 97% umdæma höfðu skilað niðurstöðum í forkosningunum í Iowa í gær skiptist fylgið þannig: Buttigieg 26,2%, Bernie Sanders 26,1%, Elizabeth Warren 18,2%, Joseph R. Biden Jr. 15,8% og Amy Klobuchar 12,2%. Niðurstöður voru lengi að skila sér vegna galla í smáforriti sem notað var í kosningunum og þykir hið mesta klúður og hin vandræðalegasta uppákoma fyrir demókrata.

Langur og grýttur vegur

- Auglýsing -

„Að segja honum að daginn sem hann tilkynnir um framboð sitt til forseta, þá fylgist eiginmaður hans með … hefði hann trúað mér?“ sagði Buttigieg eitt sinn um ímyndað samtal við sjálfan sig á táningsaldri. Hann átti sér snemma drauma um pólitískan frama en átti í innri baráttu vegna kynhneigðar sinnar, sem hann bældi raunar svo vel niðri að lengi vel átti hann erfitt með að samsama sig réttindabaráttu hinsegin fólks og fór á stefnumót með konum til að villa um fyrir fólkinu í kringum sig.

Þegar Buttigieg steig fyrst fram á sjónarsviðið sem forsetaefni samanstóð framboð hans af fjórum starfsmönnum og tómum kosningakistum. Honum tókst hins vegar að komast í hóp fremstu manna með því að leggja áherslu á sérstöðu sína; hann er meðalhófsmaður, langyngstur meðal forsetaefnanna og þykir, a.m.k. meðal stuðningsmanna sinna, ferskur blær sem á möguleika á því að sameina demókrata og koma Donald Trump úr Hvíta húsinu. Barack Obama ársins 2020, segja sumir um manninn með erfiða eftirnafnið.

Hvað varðar sigurinn í Iowa ber hins vegar að hafa í huga að Buttigieg lagði mikið upp úr því að ganga vel í ríkinu en vegurinn til Washington er langur og grýttur. Skoðanakannanir benda t.d. til þess að aðeins um helmingur Bandaríkjamanna sé reiðubúinn til að kjósa samkynhneigðan forseta. Þá nýtur Buttigieg takmarkaðra vinsælda meðal svartra en kjörsókn þeirra og atkvæði munu skipta sköpum í forsetakosningunum í nóvember.

- Auglýsing -
Mynd / Hvíta húsið

Bentu á þann sem að þér þykir … líklegastur til að sigra Trump

Stuðningur svartra kjósenda er raunar ein ástæða þess að margir telja víst að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, verði sá sem demókratar velji til að taka slaginn við Trump, þrátt fyrir slakt gengi í Iowa. Biden og milljarðamæringurinn Michael Bloomberg eru á svipaðri línu og Buttigieg þegar kemur að málefnunum; þeir eru sammála um að taka upp bakgrunnsskoðun við kaup á skotvopnum, fæðingarorlof, hátekjuskatt og gera endurbætur á dómskerfinu. Þeir vilja hins vegar ekki ganga jafnlangt og Sanders og Warren þegar kemur að almanntryggingakerfinu og yfirhalningu fjármálakerfisins, svo dæmi séu tekin.

Þeirri spurningu hvort framboð Pete Buttigieg náði hápunktinum í Iowa verður mögulega svarað í New Hampshire. Þar fer fram prófkjör 11. febrúar nk. og þar munu spekúlantar fylgjast með því hvor hefur betur, Biden eða Buttigieg. Ef Buttigieg kemur betur út, verður hann mögulega hinn valkosturinn við hliðina á Bernie Sanders en það verður þó að teljast ólíklegt. Samkvæmt New York Times leiðir Biden á landsvísu með 27% fylgi á meðan Sanders mælist með 24%, Warren með 14%, Bloomberg með 8% og Buttigieg með 7%.

„Ég held að kjósendur séu sífellt meira að hugsa til þess,“ sagði Buttigieg í viðtali á dögunum um möguleika forsetaefnanna á móti Donald Trump. Forkosningarnar snúast nefnilega ekki bara um að velja á milli ólíkra hugmynda heldur einnig að veðja á þann sem getur mögulega fellt drekann. Og þar eru menn ekki endilega sammála. Einn maður var þó ekki í nokkrum vafa um yfirburði sína á mánudag: „Ég er sigurvegarinn,“ sagði Trump eftir forvalið í Iowa og vísaði þar bæði til kosningafíaskós demókrata og þess 97% fylgis sem hann hlaut í forkosningum repúblikana í ríkinu. Hann kann að hafa haft rétt fyrir sér en tíminn mun leiða í ljós hvort það verður niðurstaðan í nóvember.

Fjallað er um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -