Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Verður tvítug tveggja barna móðir í sumar: „Rosalega mikið sjokk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér hefur oft fundist ég hafa misst af einhverju sem aðrir á mínum aldri eru að gera en ég hef allt lífið framundan og nægan tíma til þess að gera allskonar hluti,“ segir Karen Eva Þórarinsdóttir.

Karen var aðeins átján ára þegar hún eignaðist son sinn, Elmar Þór Róbertsson, með kærasta sínum Róbert Smára Haraldssyni. Í dag er Karen tvítug og Róbert 23ja ára og þau eiga von á sínu öðru barni þann 11. júní næstkomandi. Karen segir það hafa verið ákveðið áfall að komast að því að hún gengi með annað barn svo ung.

Karen og Elmar í kósíheitum.

„Þetta var rosalega mikið sjokk fyrst þar sem ég er svona ung og ég taldi mig engan veginn tilbúin í það að eignast annað barn, enda algjörlega að læra á lífið og allt um uppeldi á eldri stráknum mínum. Mamma mín, sem er mín stoð og stytta, studdi mig í gegnum sjokkið eins og hún gerði á fyrri meðgöngunni og er ég endalaust þakklát fyrir hana. Viðhorfið mitt var mjög fljótt að breytast enda er strákurinn minn það allra besta í lífinu mínu og ég er umvafin yndislegu fólki sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Karen.

Krefjandi að vera ung móðir

Elmar sonur hennar verður aðeins nítján mánaða gamall þegar að nýja barnið kemur í heiminn, en Karen segir það vissulega reyna á að verða móðir svona ung.

„Það er mjög krefjandi að vera ung móðir og ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið maður þarf að þroskast á stuttum tíma til þess að takast á við foreldrahlutverkið, nýskriðin í fullorðinsaldur. Þetta tekur mikið á oft á tímum og maður fær að kynnast hvað þreyta er,“ segir Karen og hlær. „En á sama tíma er þetta svo rosalega gefandi, að fá að elska sitt eigið barn, að lítill einstaklingur þarfnist manns.“

Karen segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð fyrir að byrja barneignir á þessum aldri.

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir fordómum, nema kannski þegar ég fæ svip frá fólki hér og þar. Sumir verða mjög hissa að ég af öllum skuli vera ung móðir þar sem ég var vandræðagemsinn í 10. bekk. Sumir hafa gert létt grín að þessu en alls ekkert á fordómafullan hátt. Ég fékk oft að heyra hvernig ég ætti að hafa hlutina og fékk uppeldisráð sem mér fannst persónulega úrelt og ákvað sjálf að taka ekki til mín,“ segir Karen.

- Auglýsing -

Gerólíkar meðgöngur

Elmar virðir fyrir sér litla systkinið.

Karen er búin að vera óvinnufær síðan í febrúar vegna meðgöngukvilla, en hún segir þessar tvær meðgöngur gerólíkar eins og oft vill verða.

„Fyrri meðgangan mín var algjör draumur og gekk frábærlega, engir fylgikvillar og allt gekk eins og í sögu. Það sama átti við um fæðinguna. Ég þurfti ekkert verkjastillandi nema baðið og glaðloft. Seinni meðgangan er hinsvegar allt önnur. Morgunógleðin byrjaði snemma og ég var með hana í þrjá mánuði. Þá tók við grindargliðnun, sem er orðin mjög slæm núna og fer versnandi með tímanum. Í kringum 20. vikuna byrjaði ég síðan að fá samdrætti með miklum verkjum sem að hræddi mig rosalega þar sem ég fékk aldrei neina fyrirvaraverki á fyrri meðgöngu. Ég er búin að vera í góðu eftirliti hjá yndislegu ljósmæðrunum mínum og það er passað vel uppá mig þar,“ segir Karen sem hefur líka þurft að passa uppá andlegu hliðina á þessari meðgöngu.

„Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn. En ég held í vonina að fæðingin verði góð í þetta skiptið líka.“

- Auglýsing -

Draumurinn að vinna við förðun

Karen og Róbert búa saman á Selfossi, þar sem Karen hefur búið meira og minna alla sína tíð. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Mask Academy í desember í fyrra og stefnir á frekari frama í þeim bransa.

„Draumurinn er að vinna við eitthvað förðunartengt, mögulega opna mitt eigið fyrirtæki eða eitthvað skemmtilegt. Mig langar rosalega að klára framhaldsskóla og mun ég sennilega vinna í því hægt og rólega,“ segir Karen, sem snappar um líf sitt og tilveru undir nafninu kareneva98.

Snappar um allt milli himins og jarðar.

„Ég snappa um allt sem mér dettur í hug; barnið mitt, meðgönguna, förðun, andlega heilsu, hvað ég geri á daginn og ýmislegt,“ segir Karen og bætir við að Snapchat hafi verið hennar leið til að vinna bug á feimni. „Ég ákvað að koma mér út úr þægindarammanum og feimninni sem ég glími við og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á daginn. Ég byrjaði á opnu snappi með öðrum frábærum mömmum, madres101, og er ég þar inni reglulega. Ég snappa líka á mínu eigin snappi á hverjum degi.“

Áður en ég kveð Karen verð ég að spyrja hvort hún hyggi á að fjölga enn frekar í barnahópnum í nánustu framtíð.

„Nei, allavega ekki næstu árin. Okkur langar að koma undir okkur fótum og kaupa húsnæði. Mig langar að finna mér góða atvinnu áður en við hugum að öðru barni á eftir þessu kríli.“

Myndir / Fyrirmyndir og úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -