Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið áberandi síðan Covid-19 faraldurinn kom upp. Hann talar hér meðal annars um veiruna skæðu, Íslenska erfðagreiningu, stjórnmál, ljóð, kjaftasögur, hönnun og nágrannann sem kom með tvær klósettrúllur heim til hans, dauðann og guð.
Stór skúlptúr í líki DNA stendur á 3. hæð í húsi Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) en skrifstofa forstjórans, Kára Sefánssonar, er á þeirri hæð. Hann er á fundi og fljótlega koma nokkrir starfsmenn út af skrifstofu hans.
Kári býður til sætis gegnt sér við skrifborðið. Hvít skyrta. Gríma.
Stór sprittbrúsi á skrifborðinu. Nokkrar skáldsögur. Og hitt og þetta.
Öskjuhlíð blasir við út um gluggana. Reykjavíkurflugvöllur.
Grá ský.
Covid-19-heimsfaraldurinn skekur heimsbyggðina og byrjað er að tala um veiruna skæðu og aðkomu ÍE til að berjast gegn henni. Nýlegar fréttir herma að Íslendingar muni ekki taka þátt í rannsókn lyfjafyrirtækisins Pfizer hér á landi á bóluefni þess gegn Covid-19.
Þetta er ósköp einfalt. Allur heimurinn er að reyna að verða sér úti um bóluefni og við ákváðum á sínum tíma að fylgja hinum Norðurlöndunum í samvinnu við Evrópusambandið sem var að mörgu leyti algerlega sjálfsagt vegna þess að það var verið að semja við mjög mikinn fjölda af lyfjafyrirtækjum og Íslendingar hefðu að öllum líkindum ekki haft burði til þess að gera það vel. Nú kemur í ljós að Evrópusambandið var svolítið klaufalegt við þetta en það þýðir hins vegar ekki að það hafi verið óskynsamlegt að fara þessa leið heldur bara að það vill svo til að þetta mikla skriffinnaveldi sem Evrópusambandið er gerði þetta ekkert sérstaklega lipurlega. Nú, svo þegar kemur að því að reyna að útvega bóluefni annars staðar þá eigum við engan sérstakan rétt á því að fara fram fyrir aðrar þjóðir í röðinni. Þannig að það sem við gerðum var að stinga upp á því að Pfizer gerði hér tilraun – kæmi hingað og bólusetti stóran hóp manna til þess að sækja nýja þekkingu sem mætti nýtast öllum heiminum. Það leit út fyrir að það yrði hægt en nú erum við með svo fá tilfelli að sú tilraun sem þeir hugsuðu sér myndi ekki ganga upp. Og það er bara eins og það er. Og ég sé enga ástæðu til að vera að agnúast út í það. Við verðum ósköp einfaldlega að sætta okkur við það að bíða þangað til okkar tími kemur. Það má meira að segja leiða að því rök að við eigum síður skilið að fá bóluefni snemma heldur en aðrir af því að okkur gengur vel að takast á við Covid. Það var ekkert tilfelli greint í fyrradag og ekkert í gær, miðvikudag. Þannig að við erum á býsna góðum stað þar sem okkur virðist hafa tekist að hefta þennan faraldur með því að stjórna umferð á landamærum.“
Kári er spurður hvort honum finnist að kalla ætti yfirmenn Landspítala til ábyrgðar vegna þess fjölda sem smitaðist á Landakoti og lét lífið af völdum Covid-19.
„Þetta er spurning sem ég vildi ekki endilega fá vegna þess að mér finnst þetta vera mjög flókið mál. Það er alveg ljóst að það áttu sér stað mistök. Þau áttu sér stað á þeirri stofnun sem stóð sig alveg einstaklega vel í þessum faraldri. Árangur Landspítalamanna í að hlúa að sjúklingum, að sinna sjúklingum á gjörgæsludeild og svo framvegis er alveg ótrúlegur. Og þeir settu saman göngudeild sem á enga sína líka í þessu samfélagi; göngudeild sem hringdi í menn daglega, hlúði að mönnum, hvatti menn og hjálpaði mönnum að komast í gegnum erfiðan sjúkdóm. En það er alveg ljóst að það fór eitthvað úr lagi á Landakoti. Það gleymdist að viðhafa þær sóttvarnir sem þetta ástand kallaði á og ég held að við eigum fyrst og fremst að læra af því. Og ég er alveg handviss um að Landspítalamenn hafi lært mikið af þessu. En það er allt annað mál hvort það eigi að setja menn í gapastokk á almannafæri. Ég hef enga refsigleði þegar að því kemur. En ég vil helst að menn viðurkenni þegar þeim verða á mistök. Og það má kannski kalla eftir því að stjórnendur Landspítalans séu kannski opnari um það að þeim hafi orðið á mistök. Þetta er gott fólk sem hefur þjónað þessu samfélagi alveg ótrúlega vel í þessum faraldri. Og þetta er náttúrlega sorgaratburður fyrir okkur öll og ekki síst fyrir stjórnendur Landspítalans. Mér finnst að við eigum að hjálpa þeim við að komast yfir þessar afleiðingar af þessu slysi í stað þess að vera að refsa þeim.“
Hafa snúið bökum saman
Kári og aðrir starfsmenn ÍE hafa gert mikið fyrir íslenska þjóð í faraldrinum. Sumum finnst það fólk ekki hafa fengið nógu miklar þakkir frá hinu opinbera.
„Þetta er flókið mál. Við erum með hið opinbera kerfi þar sem er fullt af fólki sem lítur svo á að þau verkefni sem við höfum verið að vinna hefðu átt að vera á þeirra höndum og það er í sjálfu sér ekkert út á það að setja. Við hjá ÍE vorum hins vegar betur í stakk búin til að sinna þessum verkefnum. Við vorum með meira af tækjum, erum með fleira fólk og með betra húsnæði og miklu betur til þess fallin að greina gögnin sem koma út úr þessu og svo framvegis. Þannig að við vorum að fara yfir á umráðasvið annarra vegna þess að það var þörf á því. En ég skil að það hafi pirrað þá sem á venjulegum tímum sjá um þessi verkefni.
En svo endaði það á því að þetta var gert eins og við vildum. Það var farið að okkar ráðum.
Síðan er þetta ekki spurning um þakklæti. Þetta er bara spurning um að vinna sína vinnu og ljúka þessu og sjá til þess að samfélagið geti notið þessa eins mikið og hægt er. Við höfum lent í því að eftirlitsstofnanir eins og Vísindasiðanefnd og Persónuvernd hafa verið að agnúast út í okkur í miðju þessu kófi. Það er líka skiljanlegt að mörgu leyti vegna þess að að þegar svona farsótt kemur er hætta á að menn fari að beygja reglur vegna þess að það er svo mikið sem gengur á og mönnum finnst svo mikið í hættu og þá verða náttúrlega eftirlitsstofnanir að standa upp og segja hingað og ekki lengra. Og auðvitað hefur það pirrað okkur og gert líf okkar svolítið erfitt á köflum en það er eðli þessara stofnana eins og Vísindasiðanefndar og Persónuverndar að fylgjast með því sem er að gerast og þegar svona faraldur geysar þá fá þessar stofnanir ekki mikinn stuðning í samfélaginu. Fólk lítur svo á að það sé að trufla nauðsynlega vinnu. Og að vissu leyti þá eru þær að gera það en þær eru að gera það til þess að ná þessu jafnvægi sem verður að vera í samfélaginu. En samfélagið almennt hefur verið ósköp þáttklátt fyrir það sem við höfum gert. Við getum ekki kvartað undan því. Og þegar ég horfi til baka til þessara síðustu 11 mánaða þá finnst mér almennt séð þetta hafa gengið gífurlega vel. Alls konar aðilar í samfélaginu hafa snúið bökum saman og unnið að heilum hug saman og tekist að ná utan um þetta að vissu leyti betur heldur en nokkur staðar annars staðar í þessum heimi. Það er að segja eftir að mönnum varð ljóst að landamærin væru sá staður sem skipti mestu máli þá hefur það gengið gífurlega vel.“
Fóru að okkar ráðum
Segja má að Kári sé nokkurs konar þjóðhetja í huga sumra Íslendinga vegna þess hve ÍE hefur gert fyrir þjóðina í faraldrinum. Hann segir að þetta hafi lítil áhrif á sig.
„Ég hef bara mætt í mína vinnu ásamt því fólki hér innanhúss sem hefur raunverulega séð um alla þessa vinnu. Hér innanhúss er fólk eins og Jóna Sæm, sem var alltaf til staðar til að reka rannsóknastofnuna sem sér um að skima, Ásgeir Sigurðsson, sem hefur verið hér nótt sem nýtan dag, Páll Melsteð, sem hefur séð um að greina raðgreiningargögnin frá veirunni, Ólafur Magnússon, sem sér um þessar raðgreiningar, og Daníel Guðbjartsson, sem er okkar lókal séní sem hefur verið að vinna með greiningar á gögnum, og Unnur Þorsteins sem passar okkur öll. Það er heill her af mönnum hér innanhúss sem hefur verið að sinna þessu. Það var bara ósköp eðlilegt að gera eitthvað ef menn hefðu eitthvað fram að færa og það höfum við gert. Og ég hef ekki orðið var við það að nokkur stofnun í íslensku samfélagi hafi haldið að sér höndum. Ég held að allir hafi gert sitt besta.“
Athygli vakti í fyrra þegar Kári sagði að ÍE myndi ekki skima fleiri sýni en svo tók hann orð sín aftur og ÍE hélt áfram.
„Það var ýmislegt í skipulaginu á þessu sem var torskiljanlegt á því augnabliki. Hið opinbera setti til dæmis saman alls konar nefndir til þess að skipuleggja skimun og aðgerðir á landamærum og við vorum ekki fengin til þess að taka þátt í því þótt þetta lenti svo endanlega í okkar fangi. Og þetta pirraði mig á tímabili þannig að ég var ekki viss um að það væri æskilegt að við héldum áfram vegna þess að við vildum gera þetta öðruvísi. En svo endaði það á því að þetta var gert eins og við vildum. Það var farið að okkar ráðum. Það má ekki gleyma því að þetta var í miðjum hvirfilbylnum og ekkert óeðlilegt að menn rækjust pínulítið á. En á endanum þá unnu allir á friðsaman og mjög árangursríkan hátt. Það er ekkert óeðlilegt að það þyrlist upp svolítið ryk þegar mikið er að gerast.“
Kári segist telja að öll bóluefnin sem rætt hefur verið um að Íslendingar verði bólusettir með séu mjög góð og hann segist hafa fulla trú á því að bólusetning komi til með að kveða þessa pest í kútinn.
Hann segir að það sé líklegt að það komi í framtíðinni aðrar veirur sem muni valda svipuðum usla. „Það eru um 100 ár síðan svona slæmur faraldur kom síðast upp og ég sé enga ástæðu til að ætla að önnur veira komi aftur fyrr en eftir svipaðan tíma. En sá möguleiki er fyrir hendi. Við höfum hins vegar lært töluvert mikið af þessari veiru og hvernig á að takast á við hana. Það hefur verið sýnt fram á að það er hægt að hemja hana með því að hemja hegðun fólks og það sem er kannski svolítið interessant er að okkur, þessi þjóð sem er yfirleitt dálítið erfið og dálítið stjórnlítil, hefur gengið vel að takast á við þessa veiru. Þegar á reynir þá virðumst við geta snúið bökum saman og unnið tiltölulega vel úr svona vanda.“
Vísindasandkassi
Starfsemi ÍE er ævintýraleg eða eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins: „Með rannsóknum á erfðaefni Íslendinga leitar Íslensk erfðagreining orsaka margra alvarlegustu sjúkdóma sem hrjá mannkynið, svo sem krabbameina, hjartasjúkdóma og sykursýki. Þegar erfðavísar finnast, sem tengjast sjúkdómum, opnast möguleikar til að bæta líf og heilsu. Við rannsökum fleira en sjúkdóma. Erfðamengi mannsins getur varpað ljósi á ýmsar ráðgátur lífsins. Hvernig hugsum við? Hvernig eldumst við? Hvaðan komum við? Við þessum spurningum og fleiri leitar Íslensk erfðagreining svara. Þannig öflum við þekkingar sem getur skilað næstu kynslóðum betra lífi.“
Ég verð ekki mikið var við það sem fólk segir um mig. En það sem ég hef séð úr fjarlægð af notkun samfélagsmiðla og í athugasemdakerfum fjölmiðla þá finnst mér nú að menn hagi sér stundum óheft.
Kári segir að vinnan tengd Covid-19 sé ekki partur af dagvinnu ÍE. „Hlutverk okkar er að vinna að rannsóknum á alls konar sjúkdómum af öllum gerðum og stærðum. Og þessi pest er að vísu interessant og við höfum eytt töluverðum tíma í að reyna að sækja nýja þekkingu um hana en við höfum svo mörg önnur verkefni sem í sjálfu sér eru brýnni fyrir okkur en ekki eins brýn fyrir okkar samfélag þannig að við höfum eytt töluverðri orku á síðustu 11 mánuðum í að vinna að því að sækja nýja þekkingu um þessa veiru.“
Kári er spurður út í nýjustu verkefnin og vinnudaginn.
„Það fer dálítið mikill tími í að rýna í vísindagreinar sem er verið að semja hér í húsinu. Það fer dálítið mikill tími í að ræða verkefni sem við erum að vinna. Það fer dálítið mikill tími þessa dagana í Zoom-fundi þar sem maður er með fólki út um allan heim. Áður en þú komst sat ég fund með hópi héðan úr fyrirtækinu sem var að lýsa fyrir mér hvernig þau eru að rýna í raða niturbasa í erfðamengi mannsins með alls konar nýstárlegum aðferðum; leita að mynstrum í erfðamengingu sem er mjög spennandi.
Ég sat í gær fund með fólki sem er að skoða hvernig hugsanir – sú aðferð sem við notum við að hugsa hefur áhrif á samsetningu líkamans sem mér finnst alveg feikilega spennandi. Heilinn er stjórntækið og það sem þau eru að sýna fram á er að starfsemi stjórntækisins, meira að segja æðsta verkefni stjórntækisins sem er hugsun mannsins, hefur áhrif á svo margt meðal annars hversu þungir menn eru, hvort menn verða of feitir eða ekki, hvort menn fái sykursýki, hjartabilun, lifrarskemmdir og svo framvegis. Það markast að hluta til af því hvernig við hugsum. Þannig að það er eins gott að vanda sig við að hugsa bara fallegar, tærar og hreinar hugsanir.
Það er ótrúlega margt sem er að gerast hérna innanhúss sem mér finnst vera spennandi. Hér eru menn í dag að reyna að skilja frumubundið ónæmi gegn Covid-19, menn eru að rýna í langtíma afleiðingar af Covid-19, menn eru að skoða alls konar sjúkdóma í miðtaugakerfi, geðsjúkdóma og Alzheimarsjúkdóminn svo dæmi séu nefnd. Menn eru að skoða alls konar horn á því hvernig hjartaáföll verða til. Og þetta er í höndunum á hæfileikaríku fólki sem kemur og segir manni svo skemmtilegar sögur. Þannig að ég bý við ótrúlegan lúxus að fá að leika mér í þessum vísindasandkassa fram á gamals aldur.“
Hræðilega algengur sjúkdómur
Kári lék sér í sandkassa á æskuárunum í Reykjavík en hann fæddist vorið 1949 en það var árið sem Íslendingar gengu í NATO og sama ár fæddust til dæmis Meryl Streep, Billy Joel, Lionel Richie og Bruce Springsteen. Hann er sonur Sólveigar Halldórsdóttur og Stefáns Jónssonar, fréttamanns, alþingismanns og rithöfundar, sem skrifaði nokkrar bækur svo sem „Að breyta fjalli“. Kári er næstyngstur fjögurra bræðra í fimm systkina hópi.
Hann ólst upp í Norðurmýrinni og síðar Vesturbænum og gekk í Hagaskóla. Leiðin lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík og svo í læknisfræði við Háskóla Íslands.
„Ég ætlaði aldrei að verða læknir. Það var slys. Það var Stefán Karlsson, vinur minn og bekkjarfélagi í menntakóla, sem var einn morguninn á leið upp í háskóla til að skrá sig í læknadeildina og stakk upp á því að ég kæmi með honum. Og ég gerði það.“ Kári skráði sig líka í læknisfræði. „Það var aldrei ætlunin. Ég hafði enga löngun til að fara í læknisfræði. Ég held að mig hafi langað til þess að verða rithöfundur frekar en eitthvað annað. En ég endaði í læknadeild, lauk henni og er búinn að vera að vesenast í þessu síðan.“
Kári fór síðan í sérnám í taugalækningum, taugameinafræði, í Chicago en hann vann síðar hjá læknadeildinni. Var prófessor þar. Hann varð síðan prófessor við Harvard-háskóla og yfirlæknir taugameinafræði við sjúkrahús í Boston. Svo flutti hann til Íslands eftir rúmlega 20 ára búsetu vestra og stofnaði Íslenska erfðagreiningu sem núna er komin í hendur erlendra eigenda.
Ég held því fram að bankar í íslensku samfélagi eigi að vera í eigu ríkisins. Einu fyrirtækin á Íslandi sem eiga að vera í eigu ríkisins.
Ævintýrið í vísindasandkassanum heldur áfram og boltinn rúllar á fleygiferð.
Verkefnin eru mörg eins og þegar hefur komið fram og flestir vita. Margur vill fá sér í glas og hefur ÍE meðal annars rannsakað erfðafræði fíknar í mörg ár og hefur komið í ljós að alkóhólismi er mjög arfgengur sjúkdómur.
„Hann erfist sterklega. Allir algengir sjúkdómar mannsins hafa bæði erfða- og umhverfisþætti í áhættunni. Alkóhólismi eða áfengissýki er einn af sjúkdómum þar sem maður sér hvort tveggja mjög sterklega. Þetta er sjúkdómur sem er algengasta dánarorsök fólks á milli 15 ára og fertugs á Íslandi; það er að segja fíknisjúkdómar og þá set ég saman í eina og sömu fötuna fíkn í hvaða efni sem er sem breytir meðvitundarástandi hvort sem það er alkóhól, amfetamín, kókaín eða morfín. Þetta eru afskaplega erfiðir og hættulegir sjúkdómar. Það er skringilegt að heilbrigðiskerfi okkar hefur að vissu leyti hundsað þessa sjúkdóma. Allt í einu er raunverulega öll sú meðferð sem máli skiptir á þessum sjúkdómum komin í hendur einkaaðila – SÁÁ. SÁÁ eru góð samtök sem hafa hlúð að fólki með fíknivanda, alveg ótrúlega vel. Þórarinn Tyrfingsson lyfti grettistaki. Hann hefur verið hetja í þessari baráttu. Hann raunverulega bjó til þetta kerfi sem SÁÁ hefur verið að nota til þess að hlúa að sjúklingum með áfengissýki og önnur fíknivandamál og nú er það í höndum Valgerðar Rúnarsdóttur sem rekur það af bæði miklum myndarskap og mýkt. Það er gaman að sjá til dæmis stofnun eins og Vog þróast þegar það hefur flust úr höndunum á þessari miklu hetju sem Þórarinn var yfir í hendurnar á manneskju sem nálgast þetta svolítið öðruvísi. Það er ósköp eðlilegt að það eigi sér stað breytingar. En þetta er mikilvægur sjúkdómaflokkur en við höfum öll tilhneigingu til þess að líta á fíknivandamál sem hegðunarvanda en ekki sjúkdóm. En þetta er allavega hegðunarvandi sem leiðir til dauða hjá allt of mörgum í okkar samfélagi. Og hefur síðan áhrif á allt nærumhverfi þeirra sem lenda í þessu.“
Kári segir að sér finnist alkóhólismi vera hræðilega algengur sjúkdómur á Íslandi. „Mér finnst Íslendingar vera opnari fyrir því að menn fari í meðferð heldur en flestar aðrar þjóðir sem ég hef kynnst. Mér finnst það ekki lengur vera svartur blettur á mannorði einstaklings sem fer í meðferð og það finnst mér vera ansi mikil framför. Maður verður aldrei var við að fólk gretti sig yfir því að einhver hafi farið í meðferð. Mér finnst það vera flott. Það er ýmislegt við þessa þjóð sem er flott.“
Bankar séu í eigu ríkisins
Kári hefur lengi verið áberandi í íslensku viðskiptalífi og umræðu eins og stjórnmálamenn sem stjórna landinu. Hann stjórnar fyrirtæki. Stórfyrirtæki. Kári er spurður út í stjórnmál og þjóðmál.
„Ég hef aldrei aðhyllst stjórnmálaflokk. Mér finnst stjórnmálaflokkum ganga afskaplega illa að framfylgja stefnum sínum þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn. Þeir eiga auðvelt með að orða stefnu sína þegar þeir eru í stjórnarandstöðu en þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn þá reynist þeim erfitt að halda í þá stefnu sem þeir segjast hafa. Hins vegar er fullt af fínu fólki í hinum og þessum stjórnmálaflokkum sem mér þykir afskaplega vænt um. Og væntumþykja mín fylgir engum sérstökum flokkslínum.“
Efnahagsástand og bankar koma til tals.
„Mér finnst að ríkið eigi fyrst og fremst að hlúa að þeim sem minna mega sín og eigi að sjá til þess að hér sé gott skólakerfi sem geri allt sem hægt er til þess að veita öllum börnum sömu tækifæri. Mér finnst að við eigum að vera með sterkt heilbrigðiskerfi sem standist samjöfnuð við heilbrigðiskerfi þessara þjóða sem hafa það best. Mér finnst að við eigum að búa til þannig kerfi að ungt fólk geti komið yfir sig húsnæði og við eigum ekki að sætta okkur við það að fólk svelti á Íslandi. Að því slepptu þá finnst mér að einkaframtakið eigi að búa til verðmæti í íslensku samfélagi. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að byggja á því að ríkið reki atvinnufyrirtæki. Ég held því fram að bankar í íslensku samfélagi eigi að vera í eigu ríkisins. Einu fyrirtækin á Íslandi sem eiga að vera í eigu ríkisins. Og ástæðan fyrir því að ég held að það sé rétt er sú að ef áhætta sem bankar taka í rekstri sínum gengur ekki upp þá lendir þetta allt í fanginu á fólkinu í landinu eins og við höfum séð. Þess utan eru bankar góð hagstjórnartæki. Það er að segja að þegar lítið er um fé og lítið um framkvæmdir eiga bankar að lána eins mikið og hægt er. En það gera ekki bankar í einkaeign vegna þess að á slíkum tímum fá þeir mjög lítið fyrir sinn snúð þegar þeir eru að lána. Þegar það er mikil þensla í samfélaginu þá eiga bankar að halda að sér höndum til þess að koma í veg fyrir þensluna en það gera þeir ekki vegna þess að þá fá þeir mikið fyrir sinn snúð þegar þeir lána. Þannig að ég held að það sé mikilvægt að hagsmunir banka og hagsmunir samfélagsins séu algjörlega samsíða.“
Ljóðskáldin
Kára hefur gengið vel í starfi og kvartar ekki yfir blankheitum. Hann er spurður hvort peningar og hamingja fari saman.
„Það held ég ekki. Ég held að það sé mjög ólíklegt. Ég held að það sem skipti mann mestu máli sé að börnunum manns líði vel og að maður sé í svolítilli sátt við sjálfan sig. Þetta er mjög einföld lýsing á því sem ég held að skipti máli – að börnunum og svo barnabörnum manns líði vel og síðan að manni líði vel í sjálfum sér og sé í nokkurri sátt. Hafi góða bók að lesa. Það skiptir máli. Án þess að hafa góða bók að lesa þá held ég að það sé erfitt að láta sér líða vel.“
Kár er spurður hvaða bók hann sé að lesa þessa dagana.
„Ég er að lesa bók sem fjallar um eðlisfræði og er eftir bandarískan Nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, Frank Wilczek að nafni, sem er mjög lagið að lýsa fræðigrein sinni fyrir þeim sem eru leikmenn. Annars les ég að mestu leyti bara skjáldsögur og ljóð.“
Kári er spurður um uppáhaldsljóðið.
„Ég á uppáhaldsljóðskáld. Mér finnst bandarískt ljóðskáld sem hét Franz Wright hafa verið besta ljóðskáld allra tíma. Annað bandarískt ljóðskáld, Mary Jane Oliver, samdi fallegustu ljóð í heimi. Þannig að jú, jú, ég á fullt af uppáhaldshöfundum. Svo skiptir maður um uppáhaldshöfunda eins og maður skiptir um sokka. Það er svo mikið af góðum rithöfundum. Það er svo mikið af góðum ljóðskáldum í heiminum. Þetta er heimur sneisafullur af hæfileikaríku fólki.“
Kári er spurður hvaða íslenska ljóð komi upp í hugann.
„Þú spyrð mig um íslenskt ljóð.“ Hann hugsar sig um. „Mér finnst svo margt af því sem Jón Helgason skildi eftir sig vera alveg stórkostlegt. Fallegasta erindi í nokkru ljóði í Íslandssögunni er úr ljóðinu Á Rauðsgili eftir Jón Helgason.
Enn ég um Fellaflóann geng,
finn eins og titring í gömlum streng,
hugann grunar hjá grassins rót
gamalt spor eftir lítinn fót.
Hann var alveg ævintýralega gott ljóðskáld sem hálfpartinn gaf frat í eigin hæfileika og gaf ekki út nema eina ljóðabók.
Svo finnst mér Sigfús Daðason vera mjög gott ljóðskáld. Mér finnst Ingunn Snædal vera gott ljóðskáld. Mér finnst hún vera ofboðslega flott. Og það er interessant að það er mjög mikið af góðum ljóðskáldum á Íslandi í dag og næstum öll eru konur. Ég var að lesa nýja bók eftir Þórdísi Gísladóttur sem er góð bók. Mér finnst Jón Kalmann vera rithöfundur okkar tíma á Íslandi. Það er tíska hjá menningarelítunni að vera í einhverri fílu út í Jón. Hann er feikilega góður rithöfundur. Mér finnst Sölvi Björn Sigurðsson vera góður rithöfundur og mér finnst Bergvseinn Birgisson vera mjög góður rithöfundur; Svar Við Bréfi Helgu er algjört rothögg. Það er fullt af fólki sem kann að segja sögur og skemmta manni.“
Kári hefur gaman af góðri tónlist. „Við eigum mikið af góðu tónlistarfólki og það er mikil breyting frá því ég var ungur maður. Við erum allt í einu orðið samfélag sem er sneisafullt af tónlist sem við áttum varla til. Við eigum einn albesta píanóleikara heims í Víkingi Heiðari.
Þar sem enginn þekkir mann
Jú, kjaftasögur fylgja stjórnmálamönnum og áberandi mönnum eins og Kára Stefánssyni. Hann segir að það sé misjafnt hvaða áhrif kjaftasögur hafi á sig en að það sé vont þegar þær hafa áhrif á fjölskyldu hans. „Ég heyri ekkert mikið af þessum kjaftasögum. Fólk er að skemmta sér. Og það má það. Og línan er þunn á milli heiðarlegrar, eðlilegrar sögu sem er svolítið skreytt til þess að gera hana betri og svo hins vegar leiðinlegrar kjaftasögu.
Ég er ósköp lítið innan um fólk. Ég kem í vinnuna og er hér í mislangan tíma en gjarnan töluvert langan tíma. Svo fer ég heim til mín og les og hreyfi mig svolítið. Það eina sem ég geri raunverulega fyrir utan þetta er að ég fer á sinfóníutónleika eins oft og ég get. Ég verð ekki mikið var við það sem fólk segir um mig. En það sem ég hef séð úr fjarlægð af notkun samfélagsmiðla og í athugasemdakerfum fjölmiðla þá finnst mér nú að menn hagi sér stundum óheft. Menn haga sér eins og enginn þekki þá þar,“ segir Kári og fer með vísukorn:
Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera
því að allan andskotann
er þar hægt að gera.
Þetta orti Þorsteinn Erlingsson. Jón Þorkelsson botnaði.
„Ég held að menn séu almennt góðir. Og ég held að menn hafi þá tilfinningu að það snerti engan mikið það sem þeir segja á þessum stað,“ segir Kári og á við netið. „Ég hef enga trú á því að menn séu að hrauna yfir aðra í þeim tilgangi að meiða þá. Ég held að það sé ekki hvötin. Ég held að menn átti sig raunverulega ekki á því hvað það er sem þeir eru að gera af því að þeir sjá ekki manninn. Þeir raunverulega heyra ekki í honum. Þetta er gert úti í horni. Svo er það líka að það er svo stutt í þetta. Það er að segja; menn sitja heima hjá sér síðla kvölds kannski kenndir og fara að tjá sig á þessum samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum án þess að þeir raunverulega vilji það. Þetta er óheppilegt en ég lít ekki á þetta sem stóran glæp.“
Að hafa fallegt í kringum sig
Byggingin sem hýsir ÍE er einstaklega glæsileg og hana einkennir stílhrein nútímahönnun. „Mér finnst þetta vera gott hús, segir Kári en Ingimundur Sveinsson arkitekt á heiðurinn af hönnuninni.
Kári og eiginkona hans búa svo í glæsilegu og nútímalegu einbýlishúsi sem Hlédís Sveinsdóttir arkitekt hannaði og hefur það fengið alþjóðleg hönnunarverðlaun. „Það er fallega hannað hús. Það er voða gaman af því. Það er er dálítið skringilegt.“
Kári er spurður hvaða máli það skipti fyrir hann að vera í fallegu umhverfi.
„Ekkert meira heldur en flestum öðrum. Auðvitað vill maður hafa fallegt í kringum sig ef það er hægt. Ég bý kannski í húsi sem er dálítið; hvernig get ég orðað það: Það er kannski of mikið í það látið. Það er dálítið stórt og að vissu leyti íburðarmikið og kannski felst í því dálítið smekkleysi að leyfa sér að búa í þannig húsi á meðan fullt af fólki á Íslandi á ekki raunverulega í hús að venda.“
Kári er spurður hvort hann fái jafnvel samviskubit vegna þess.
„Já, kannski ég sé með svolítið samviskubit yfir því.“
Kári á góðan nágranna.
„Nágranni minn hringdi dyrabjöllunni um síðustu helgi og stóð fyrir utan með tvær klósettrúllur í hendinni. Ég spurði hvern djöfulinn hann væri að gera þarna. Hann spurði hvort ég hafi ekki verið að biðja um klósettrúllurnar en ég sagði „nei“ og lokaði dyrunum og skildi ekkert í þessu fyrr en kunningi minn, Karl Örvarson sem er góð eftirherma, hringdi í mig í gærkvöldi og sagði mér að hann hafi hringt í nágranna minn. Hann þóttist vera ég og sagði honum að mig vantaði klósettpappír. Þetta finnst mér allt í lagi. Menn mega skemmta sér. Og menn mega fara yfir alls konar línur í þeim tilgangi.“
Glæsilegur grænn og þekktur „hönnunarsófi“ er á rúmróðri skrifstofu Kára sem er spurður hvort hann hafi áhuga á hönnun.
„Nei, engan sérstakan. Ég á bróður sem er arkitekt, Hjörleifur heitir hann, og hann er mikill smekkmaður og flinkur á sínu sviði. Ég er alveg viss um að hann myndi hlæja að mér ef ég segðist hafa áhuga á hönnun.“ Kári hlær. „Og ég vil helst ekki að Hjörleifur bróðir minn hlæi að mér. Nei, ég hef engan sérstakan áhuga á hönnun.“
Gjörsamlega skaplaus
ÍE reynir í rannsóknum sínum að skilja manninn; að reyna að búa til skilning á því hvernig við erum sett saman og hvernig hinir ýmsu eiginleikar okkar eru í samspili hver við annan eins og Kári orðar það.
Vísindamaðurinn er spurður um hugmynd hans að tilganginum með þessu lífi. „Það er ekki lítið spurt. Ég hef ekki hugmynd um það. Það er ýmislegt sem bendir til þess að tilgangur alls lífs á jörðu, ekki bara manna heldur alls lífs á jörðu, sé að sjá til þess að DNA sé til. Að markmiðið sé að sjá til þess að það sé eitthvað form af DNA til á jörðunni. Og það er ekkert rómantískur tilgangur. En ég held að fyrir okkur sem einsaklinga sé bara markmiðið að láta okkur líða vel á eins mörgum augnablikum og hægt er.“
Dauðinn tekur við af þessu lífi sem vísindamennnirnir eru að reyna að skilja samsetninguna á.
Kári er spurður hvað dauðinn sé í huga hans.
„Það er bara lok á lífi. Það er endalok á einstaklingi. Og það er ekkert ljótt við það.“
Hann er spurður hvort hann hræðist dauðann.
„Eins og stendur þá finnst mér dauðinn ekki vera æskilegur. Ég vil ekkert fara lengra en það. Akkúrat á þessu augnabliki þá finnst mér hann ekki vera æskilegur.“
Hann hefur ekki trú á lífi eftir dauðann. Lífi að handan.
„Það er ekkert sem ég kann, skil eða hef séð sem bendir til þess að það sé eitthvað í lok þessa lífs. Við höldum áfram að vera til, endurholdgumst eða endurfæðumst í börnunum okkar. Og það er alveg nóg. Börnin okkar eru með helming erfðamengis okkar, barnabörnin með 1/4 og svo framvegis. Og ég held að við eigum bara að sætta okkur við það.“
Kári er spurður hvað fái hann helst til þess að líða vel.
„Að lesa góða bók. Að hlusta á góða tónlist. Að sofa vel. Og vera innan um afkvæmin mín.“
Að sofa vel. Hann er spurður hvað hann dreymdi síðustu nótt.
„Mig dreymdi ekki nokkurn skapaðan hlut í nótt. Ég er alveg viss um það.“
Hvað með eftirminnilegan draum?
„Mig dreymdi einhvern tímann ekki alls fyrir löngu að ég sat og var að borða hádegismat með guði almáttugum. Við vorum að borða súpu. Svo allt í einu kom fluga og settist ofan í súpuna hjá guði og við það vaknaði ég með eftirfarandi vísu tilbúna í kollinum:
Hvað er að sjá til þín guð minn góður
guð með þitt brenglaða sinni
á þínu ráði er ei lítill ljóður
það liggur fluga í súpunni þinni.
Það er sá draumur sem ég man eftir helst. Þetta er ferskeytla. Ég vaknaði með hana á vörunum. Annars man ég ekki mikið drauma.“
Vísindamaðurinn er spurður hvort hann trúi á guð.
„Það fer eftir því hvernig þú skilgreinir guð.“ Þögn. „Ég held því fram að við eigum að reyna að leggja okkur fram við að vera góð hvert við annað og við það umhverfi sem við búum í. Það má segja að ég hafi ekkert verið sérstaklega flinkur við það. Ég get alveg fallist á það. En sú trúarsetning sem ég kemst næst því að fallast á er í vísu Steingríms Þorsteinssonar:
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem hæsta ber:
Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.
En það er sjálfsagt ekki hægt að kalla það trú í eiginlegri merkingu þess.“
Guð í sjálfum þér; Kári er spurður hvort guð sé í honum.
„Ég held að þeir sem ég umgengst mest komi til með að halda því fram að það fari lítið fyrir honum. “
Það er skemmtilegt að tala við Kára. Hann er húmoristi.
„Það eru þín orð en ekki mín. Ég ætla ekki að bera neina ábyrgð á því.“
Hann þykir líka vera skapmaður.
„Það er alger þvæla. Ég er gjörsamlega skaplaus. Ég hef einstaka sinnum hækkað í mér röddina en það er bara þegar ég er að þykjast.“
Hann er beðinn um að lýsa sjálfum sér.
„Ég myndi ekki lýsa sjálfum mér. Það er ósköp einfalt. Það er hætt við að það yrði dálítið beyglað.“
Kári hefur átt drauma sem hafa ræst og þótt hann sé rúmlega sjötugur hefur hann engan áhuga á að setjast í helgan stein. „Mér finnst gaman í vinnunni. Mig langar ekki til að hætta að vinna. Ekki á næstunni.“
Hann er spurður um drauma sína í dag.
„Bara að lifa friðsömu, fallegu lífi. Það er ósköp einfalt.“
Hann er spurður í hverju það felist nákvæmlega.
„Ég vildi að ég vissi það. Þá væri ég búinn að skrifa einhvers konar boðorð. Ég hef ekki hugmynd um í hverju það felst.“