„Mér finnst þetta að mörgu leyti vera tímabær athugasemd,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar um ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að það komi til greina að íslensk stjórnvöld veiti bráðaleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna gegn COVID-19. Kári segir í samtali við Fréttablaðið að þetta ætti að kanna, annað væri óskynsamlegt.
„Og í sjálfu sér er allt í lagi að velta því fyrir sér hvort við eigum að veita svona bráðaleyfi fyrir bóluefnum sem til dæmis Bretar hafa gert og hreyfa okkur hraðar heldur en Evrópusambandið,“ sagði Kári.
„Ég er ekki að segja að við eigum að gera það en við eigum að minnsta kosti að skoða þetta alvarlega. Ég sé ekki annað en að það sé neitt annað en jákvætt að reyna að finna leið.“
Þá bætti Kári við að Íslendingar væru á hættulegum stað í faraldrinum og að honum hafi þótt vænt um yfirlýsingar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um að meirihluti landsmanna yrði bólusettur um mitt ár. Kári sagði einnig:
„Og það eina sem við vitum að við fáum fyrir byrjun apríl, eða lok mars eru 50 þúsund skammtar sem duga til þess að bólusetja 25 þúsund manns, sem eru 6,5 prósent af íslenskri þjóð. Sumarið byrjar 22. apríl svo mér finnst það heldur mikil bjartsýni að reikna með því að á þeim 22 dögum verðum við búin að bólusetja yfir 50 prósent af þjóðinni í viðbót.“
Á forsíðu Morgunblaðsins er viðtal við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni þar sem hann lýsir yfir efasemdum um að til sé sérfræðiþekking hér á landi til að veita slík bráðaleyfi.
„Ég er algjörlega ósammála Þórólfi. Venjulega fáum við plögg frá Evrópusambandinu sem við látum meta hjá okkur en ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri hægt til dæmis að fá frá Bretum forsendur þess að þeir veita bráðabirgðaleyfi fyrir ýmsum bóluefnum,“ segir Kári og blæs algjörlega á þær áhyggjur og bættir við:
„Þetta er bara uppgjafarafstaða. Við eigum alveg að geta eins og hver önnur þjóð skoðað niðurstöður klínískra rannsókna. Í því felst enginn galdur heldur bara vilji til að rýna í gögn.“