Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Kári fer yfir faraldurinn „Samskipti okkar við hið opinbera í gegnum þennan tíma voru voða skrítin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þessi faraldur byrjaði í Wuhan í Kína og það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að þetta hafi ekki byrjað á sama máta og aðrir faraldrar. Það er ekkert sem bendir til þess að þessi veira hafi laumað sér út af rannsóknarstofu í Wuhan.“

Það má með sanni segja að Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafi lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hér á landi. Auk þess að vera uppspretta fróðleiks um faraldurinn.

Íslensk erfðagreining hefur ásamt veiru- og sýklafræðideild Landspítalans séð um greiningu sýna, fyrirtækið réðst einnig í að raðgreina jákvæð sýni svo hægt væri að sjá hverrar tegundar veiran væri og hvernig hún væri að smitast, ásamt því að vera búið að gera hinar ýmsu rannsóknir á faraldrinum hér á landi og gefa út vísindagreinar. Og þá er sú vinna sem fyrirtækið hefur lagt af mörkum þó enn ekki upptalin.

Mannlíf settist niður með Kára Stefánssyni og fór yfir faraldurinn á Íslandi, þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar og skoðun hans á því hvernig til hefur tekist hér á landi.

„Svo vitlaus að hún gæti ekki komið annars staðar frá en frá Bandaríkjunum“

Kári segir það einungis vera getgátur að faraldurinn hafi orðið til á rannsóknarstofu í Kína, getgátur sem ekki eru studdar nokkrum upplýsingum eða gögnum.
„Ef það er rétt að veiran hafi borist þannig út, að einhver hafi verið að vinna með kórónuveirur í leðurblökum og hafi smitast af því og síðan farið heim til sín og smitað einhvern annan, so what?“

- Auglýsing -

Segir hann ástæðuna fyrir því að fólk sé að velta þessari spurningu upp ósköp einfaldlega þá að nýr forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, telji þörf á að þvo af sér staðhæfingu Donald Trumps um að hann sé hallur undir Kínverja.

„Hann er ef til vill að reyna sannfæra þjóð sína um að hann sé það ekki með því að velta upp þessari fáránlegu spurningu. Sem er svo vitlaus að hún gæti ekki komið annars staðar frá en frá Bandaríkjunum, ósköp einfaldlega.“

Leit illa út

- Auglýsing -

Að sögn Kára leit faraldurinn býsna ógnvekjandi út í byrjun.

„Þegar fréttir fóru að berast af þessu þá hljómaði þetta pínulítið eins og fyrsti kaflinn í sögunni um útrýmingu mannkyns.“

Hann segir menn hafa þó byrjað frekar snemma að skima eftir veirunni hér á landi, þó það hafi verið gert á nokkuð máttleysislegan hátt, eins og hann orðar það sjálfur.

„Og þegar við fórum svona að skoða þetta hér fannst okkur eins og samfélagið væri ekki vel undir það búið að takast á við þetta.“

Kári segir fyrirtækið hafa náð sér í þau tæki og þann efnivið sem til þurfti og það hafi tekið um fimm daga að setja upp rannsóknarstofu til að hjálpa til.

Þannig að þið áttuð ekki allan búnað sem til þurfti fyrir slíka rannsóknarstofu?

„Við áttum sum tæki, við þurftum að bæta aðeins við og eins og ég segi það tók okkur svona fimm daga að koma þessu af stað og við fórum síðan að skima í samfélaginu almennt. Það er að segja að skima fólk sem var ekki með einkenni.“

Almenningi var boðið að mæta í sýnatöku í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna í turninum í Kópavogi, sem margir nýttu sér.

„Þann 15. febrúar á þessu ári vorum við búin að greina meirihluta þeirra sem voru skimaðir. Ætli það hafi ekki verið 80% af heildargreiningunni.“

Kári segir að fljótlega eftir að skimun hófst á Íslandi hafi rannsóknarstofa Landspítalans hálfpartinn gefist upp.

„Hún var illa tækjum búin og þegar þeir fóru að takast á við þetta þá pöntuðu þeir sér tæki sem var erfitt að ná í og var ekki komið í gagnið fyrr en upp úr miðjum febrúar í ár. Það er að segja að það tók þá upp undir ár að koma sér af stað, með því að nota þá aðferð sem þeir notuðu sem að markast sjálfsagt af því að það er allt miklu stífara í þessu ríkisbatterí heldur en hjá okkur.“

Þá bendir Kári á, eins og fram kom í fjölmiðlum, að tækið sem pantað var inn á Landspítalann hafi einnig bilað og segir hann að þar af leiðandi hafi deildin ekki náð að sinna því sem hún ætlaði sér.

„En ég held því fram að þetta eigi að einhverju leyti rætur sínar að rekja í öðrum og mannlegri þáttum heldur en getu eins tækis, það er eitthvað sem er ekki alveg að virka á þeirri rannsóknarstofu og þeir þurfa ósköp einfaldlega að endurskipuleggja hana,“ segir hann og heldur áfram. „Því að þetta er ekkert flókið og þú þarft ekkert að gera þetta með ofboðslega dýrum tækjum, þú getur gert þetta með miklu einfaldari tækjum.“

Þá sé þetta spurning um mannskap og skipulag.

„En þetta er allt saman fínasta fólk skilurðu og það eru allir fullir af vilja og löngun til að leggja af mörkum. En stundum innan svona kerfis eins og Landspítalans, hefur reynst erfitt að skipuleggja svona hluti.“

En er viðbragðstími Landspítalans ásættanlegur að þínu mati?

Nei þetta er ekki eðlilegt og ekki ásættanlegt en taktu eftir því það er ekki vegna þess að það sé ekki afburða fólk sem er að vinna uppi á Landspítala. Landspítalinn er stofnun sem hefur verið svelt fjárhagslega í dálítið langan tíma.“

Þá segir hann sömuleiðis hafa gengið illa að endurskipuleggja vinnuna þannig að spítalinn virki eins vel og hann ætti að gera.

Í faraldrinum hefur læknisþjónustan á Landspítalanum, samkvæmt Kára, hins vegar verið mjög góð.

„Landspítalinn sem klínísk stofnun virkaði mjög vel í faraldrinum, það er að segja það var alveg afburða þjónusta sem fólk fékk. Covid göngudeildin var til að mynda alveg stórkostleg.“

Segir hann aðeins eina undantekningu vera þar á sem hafi verið Landakotsslysið og vitnar þar í hópsmitið sem þar varð síðastliðið haust.

„Það átti rætur sínar í því að það voru ekki viðhafðar þær sóttvarnir á Landakoti sem skildi. Þar varð Landspítölunum á í messunni.“

Samskiptin við hið opinbera skrítin

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá neinum að samskipti ríkisstjórnarinnar og Kára hafa ekki verið hnökralaus í gegnum faraldurinn.

„Nú samskipti okkar við hið opinbera í gegnum þennan tíma voru voða skrítin. Við erum með heilbrigðismálaráðherra sem á í pínulitlum samskiptaörðugleikum við einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu.“

Sífellt var verið að skipuleggja frekara átak í skimun og í því ferli var aldrei leitað til Íslenskrar erfðagreiningar fyrr en búið var að setja saman skipulag og þá var fyrirtækið beðið að sinna því, að sögn Kára.

„Þetta var svona svolítið klaufalegt en það var ekkert illt í þessu og þetta gekk mjög vel.“

Segir hann þó að fokið hafi í þau af og til. „Okkur fannst skorta kannski pínulítið á virðingu fyrir verkinu því það lenti alltaf á okkur. En að því slepptu, þá gekk þetta mjög vel.“

Ef litið er til baka segi Kári baráttuna við faraldurinn hér á landi hafa gengið vonum framar, þrátt fyrir pínulitla hnökra hér og þar. Þótt það megi þakka það að einhverju leyti upplýsingum og gögnum sem komu frá Íslenskri erfðagreiningu, stafi velgengnin aðallega af því að fólkið í landinu fylgdi því sem heilbrigðisyfirvöld settu fram.

„Þjóðin stóð sig mjög vel í þessu.“

Mikilvægi raðgreininganna

Eitt af þeim verkefnum sem Íslensk erfðagreining réðst í voru raðgreiningar. Samkvæmt Kára varð það framtak mikilvægara og mikilvægara með hverjum mánuðinum sem leið.

„Við fórum að vernda landamærin, þá var mjög mikilvægt að átta sig á því, þegar greindust fjórir, fimm, sex, sjö, átta eða níu einstaklingar á einhverjum degi, að vita hvort það ætti rætur sínar í einu atviki. Það er að segja að það hafi einn einstaklingur komið með veiruna inn í landið, eða margir.“ En þær upplýsingar fást við raðgreiningu.

Var það ykkar framtak að ráðast í þessar raðgreiningar?

„Já það var bara okkar framtak. Ég er ekki einu sinni viss um að heilbrigðisyfirvöld hafi vitað hvernig maður átti að stafa raðgreining, að minnsta kosti höfðu þeir enga aðstöðu til að sinna slíku.“

Segir hann fyrirtækið einnig hafa séð um greiningu á öllum þessum gögnum og sömuleiðis aðstoðað sóttvarnaryfirvöld að finna út hvað þessar raðgreiningar þýða. En meðal annars er hægt að fá úr því skorið þegar tveir aðilar smitast á sama tíma af sömu veiru, hvor hafi smitað hinn.

En mun covid breyta okkur til frambúðar?

„Ég veit það ekki, ég hugsa nú að samfélagið leiti í sama far mjög fljótlega. Ég hugsa þó að reynslan af þessu skilji svolítið eftir.“

Kári telur að heimsfaraldurinn hljóti að koma til með að hafa áhrif á það hvernig við hugsum um heilbrigðiskerfið. Meira að segja var heilbrigðiskerfi vestrænna þjóða ekki undirbúið fyrir þetta.

Tekur hann Bandaríkin sem dæmi.

„Norður-Ameríka, þar sem að meirihluti nýjunga í heilbrigðisþjónustu hefur orðið til á síðustu fimmtíu árum. Bandaríkin gátu ekki einu sinni brugðist við þessu almennilega vegna þess að heilbrigðiskerfin voru svo hólfuð niður.“

Kári segir að hvergi í heiminum séu til betri háskólar, meiri tæknigeta eða meira fé til að sinna þessu.

„En háskólarnir fengu ekki að vera með af því þeir voru ekki með leyfi sem klínískar rannsóknarstofur þannig að þeir drógust aftur úr þegar kom að því að skima eftir veirunni.“

Telur hann að betra skipulag verði sett á þannig að hægt verði að bregðast miklu hraðar við og miklu effektívar, eins og hann orðar það.

„Ég hugsa að menn komi til með að skipuleggja ekki bara heilbrigðisþjónustu einstakra landa á miklu heildstæðari hátt, heldur verði gerð tilraun til þess að samhæfa aðgerðir um allan heim fyrir faraldur af þessari gerð.“

Hvað með bóluefnin?

„Ég held að það sé mjög lítill munur á þessum bóluefnum. Ég held að ástæðan fyrir því að bóluefni AstraZeneca hefur svona slæmt orð á sér sé að miklu leyti útaf klaufaskap. Þó ber þess að geta að mjög fágætar auakverkanir eru örugglega algengari af AstraZeneca og Janssen bóluefnunum heldur en þessum RNA bóluefnum.“

Segir hann að eins og fram hafi komið séu þessar fágætu aukaverkanir aðallega hjá ungum konum sem bendi til þess að bóluefnið veki kraftmeiri ónæmisvarnir heldur en RNA bóluefni.

„En þegar þú ert farinn að bólusetja tugir milljóna manna sem að hefur aldrei gerst í sögunni áður, þá ertu farinn að fikta í algjörum ytri mörkum mannlegrar fjölbreytni,“ segir Kári og heldur áfram.

„Þegar kemur að ónæmiskerfinu ertu farinn að skoða fólk sem býr til alveg ótrúlega kraftmikil ónæmisviðbrögð gegn svona bóluefni og í þessu tilfelli þá er kannski einn af milljón konum sem eru bólusettar sem mynda mótefni gegn blóðflögum og við það myndast ofnæmi gegn þessum blóðflögum, þá verða til blóðtappar í bláæðum upp í heila og það er það sem hefur verið að leiða til dauða einstakra ungra kvenna sem eru bólusettar með þessu bóluefni.“

Er verið að þagga niður aukaverkanirnar hér á landi?

„Nei. Þagga það niður? Ég veit ekki um eitt einasta dæmi þar sem það hefur verið þaggað niður. Það er verið að lesa í allskonar vitleysu. Til dæmis þegar var verið að bólusetja elstu einstaklingana þá fórnuðu menn höndum til himins vegna þess að fólk var að deyja sem hafði verið bólusett. Það eina sem bóluefnið gerir er að verja þig gegn veirunni, það kemur ekki í veg fyrir að þú deyir þegar þú ert kominn að fótum fram.“

Þetta er ekkert töfralyf?

„Nei. En þetta er alveg ofboðslega effektív leið til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu af svona faraldri. Og meira að segja með þessa bólusetningu sem við erum komin með núna þá er þetta farið að hafa meiriháttar áhrif. Við erum alltaf að sjá af og til að það koma upp litlar hópsýkingar, það eru einn eða tveir eða þrír eða fjórir einstaklingar sem sýkjast og þetta breiðist ekki út. Það er meðal annars út af því að við erum búin að bólusetja ansi stóran hóp og náttúrulega hins vegar líka út af þessum sóttvarnaraðgerðum sem við höfum gripið til.“

Unnu myrkranna á milli

Aðspurður um aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að faraldurinn segist hann vera glaður og kátur með að þau hafi haft eitthvað fram að færa.

„Og ekki stóð á fólki hér,“ segir Kári og heldur áfram. „Sérstaklega í byrjun faraldursins þá vann fólk hér myrkranna á milli, sjö daga vikunnar og það var enginn að kvarta undan vinnuálagi. Og það hefur enginn kvartað undan vinnuálagi síðan þetta byrjaði. Nú eru menn hér aftur byrjaðir að vinna á vöktum og ég hef ekki heyrt eitt einasta múkk þar sem nokkur maður hafi kvartað undan nokkrum sköpuðum hlut.“

Segir hann nauðsynlegt í svo litlu samfélagi að menn snúi bökum saman.

„Við erum lítið samfélag og til þess að takast á við þetta þurftu allir að koma að þessu og allt sem samfélagið átti. Annars vegar spítalinn, þessi ríkisrekni spítali, rannsóknarstofan þar og sóttvarnaryfirvöld og svo hins vegar einkafyrirtækið.“

Að hans mati hefur Ísland sem samfélag komið vel út úr faraldrinum.

„Það unnu allir saman og það var þörf fyrir alla. Og ef við horfum til baka getum við öll verið montin af því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -