Föstudagur 17. janúar, 2025
2.7 C
Reykjavik

Kári flissar að Guðrúnu Bergmann – Tengdi bólusetningar við Nasista: „Hef engin tengsl við Pfizer“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrúnu Bergmann, heilsu- og lífsstílsráðgjafa, líst illa á bóluefni Pfizer, hvað þá heldur á þá hugmynd að nota Íslendinga sem tilraunadýr í rannsóknum fyrirtækisins. Hún spyr hvort Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og aðrir sem að bólusetningum koma hafi alveg gleymt hrottalegum tilraunum Nasista á fólki í síðari heimstyrjöldinni. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gerir hins vegar lítið úr málflutningi Guðrúnar og flissar að vangaveltum hennar. Þá kveðst Kári ekki tengjast Pfizer og segir að Bill Gates hafi komið honum fyrir sjónir sem pirrandi nörd, í þau tvö skipt sem þeir hittust.

Þetta kemur fram í pistli Guðrúnar sem hefur síðastliðna þrjá áratugi verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Hún hefur gefið út tugi bóka, haldið fyrirlestra og námskeið og verið virt í sínu fagi. Guðrún bendir á að bóluefni Pfizer hafi ekki verið fullprófað á dýrum áður en prófanir voru færðar yfir á fólk. Þá segir hún að tilraunum lyfjarisans á bóluefninu í fólki ljúki í raun ekki fyrr en árið 2023 og lyfið sé því enn á tilraunastigi. „Hafa sóttvarnalæknir og aðrir sem að málinu koma alveg gleymt Nurnberg siðareglunum sem samþykktar voru árið 1947, eftir að upp komst um hrottalegar tilraunir á fólki í fangabúðum Nasista?,“ spyr Guðrún.

„Kári og félagar hans í AMGEN eða BioNTech eru því litaðir af hagsmunatengslum þegar kemur að farsóttarvörnum og bólusetningum vegna Covid-19.“

Þá bendir Guðrún á að bóluefni Pfizer sé ekki bóluefni í eiginlegum skilningi því það eigi frekar að flokka sem genabreytandi efni, það er efni sem breytir erfðaefni líkamans. Hún veltir því fyrir sér hvort efnið sé mögulega úlfur í sauðagæru. „Það er eðlilegt að spyrja svo, vegna þess að afar takmarkaðar upplýsingar hafa í raun fengist um það hvaða innihaldsefni eru í því og hvernig þau muni virka. Það liggur fyrir að bóluefnið frá Pfizer hefur að geyma ýmis efni sem valdið geta ófyrirsjáanlegu tjóni á líkama manna,“ segir Guðrún.

Líkt og Mannlíf greindi fyrst frá hafa þrír Íslendingar sem nýlega voru bólusettir vegna Covid-19 látist og hafa tilvikin verið tilkynnt til Lyfjastofnunar sem alvarlegar aukaverkanir bóluefnis Pfizer. Bæði Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri og Alma Möller landlæknir og segja þó allsendis óvíst að viðkomandi hafi látist vegna bóluefnisins því um sé að ræða aldraða einstaklinga með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma.

Kári segir illa skilja hvernig Lyfjastofnun og sóttvarnaryfirvöld hafa tekið á þessum andlátum eftir bólusetningarnar því þau hafi ekkert að gera með bóluefnið. Það verji fólk gegn Covid-19 en engum öðrum sjúkdómum. „Ég er rosalega hissa. Að meðaltali deyja í viku hverri svona 15-20 einstaklingar af dvalar- og hjúkrunarheimilum. Það er fólkið í þessum hópi sem dó eftir að það var bólusett. Það var algjörlega fyrirsjáanlegt og engin leið að komast hjá því að nokkrir úr þeim hópi myndi deyja fyrstu vikuna, tölfræðin er þannig. Mér finnst þetta hafa verið höndlað illa og verið að gefa því byr undir báða vængi að þetta sé að einhverju leyti tengt,“ segir Kári.

Guðrún gagnrýnir hins vegar aðkomu Kára að farsóttavörnum hérlendis og bólusetningum. Það er vegna þess hversu litaður hann sé af hagsmunatengslum. „Munið þið þegar DeCode fór í gjaldþrot? Þá kom bandarískur fjárfestir og keypti brunarústirnar. Árið 2015 var það svo vinur Kára, sjálfur Bill Gates sem keypti DeCode, sem er nú dótturfyrirtæki AMGEN, sem Bill Gates á líka. Um tíma var AMGEN í samstarfi við Pfizer um framleiðslu á bóluefni, en svo virtist BioNTech hafa stokkið framfyrir AMGEN. Reyndar hafa sjóðir Bill & Melinda Gates verið stórir styrktaraðilar BioNTech, svo og styrktarsjóður AMGEN,“ segir Guðrún og bætir við:

- Auglýsing -

„Upplýsingar um okkur Íslendinga sem safnað hefur verið af DeCode í gegnum tíðina, svo og niðurstöður úr skimunum hér á landi hafa því að öllum líkindum farið beint til móðurfyrirtækisins í Bandaríkjunum, þar sem menn telja sig geta læknað sjúkdóma með genabreytingum eða náð stjórn á líkama fólks með því að bólusetja það með bóluefni með öreindum (nanoparticles). Kári og félagar hans í AMGEN eða BioNTech eru því litaðir af hagsmunatengslum þegar kemur að farsóttarvörnum og bólusetningum vegna Covid-19.“

Kári flissar að vangaveltum Guðrúnar um hagmunatengsl sín við Bill Gates og vísar tengslum sínum við Pfizer jafnframt alfarið á bug. Á sama tíma viðurkennir hann ákveðna þröngsýni sína því hann geti einfaldlega ekki hlustað á þann þjóðfélagshóp sem mælir gegn bólusetningum. „Þegar ég rekst á pistla eftir Guðrúnu Bergmann þá hef ég forðast þá. Samkvæmt henni er þetta bóluefni væntanlega uppspretta alls ills. Ég hef bara ekki áhuga á því sem hún og það fólk sem er á móti bólusetningum segir. Ég verð að viðurkenna að í því felst ákveðin þröngsýni en ég er alveg sáttur við hana,“ segir Kári.

Aðspurður um meint hagsmunatengsl sín við lyfjarisann Pfizer í gegnum Bill Gates hafði Kári þetta að segja: „Ég hef akkúrat engin tengsl við Pfizer og á þar engra hagsmuna að gæta. Þar hefur hins vegar verið búið til besta bóluefni sögunnar og Guðrún lítur sjálfsagt á það sem ógn. Svona getur lífið stundum verið skringilegt. Fyrirtækið sem ég vinn fyrir er keppinautur og það er svakaleg samkeppni þarna á milli. Þar er einmitt ástæðan fyrir því hversu litlar líkur eru á því að ég nái að sannfæra menn þar um að gera tilraunir á Íslandi. Af því ég vinn fyrir annað fyrirtæki hugsa þeir jafnvel frekar að hagsmunir liggi frekar í því að hundsa það sem ég segi,“ segir Kári og bætir við.

- Auglýsing -

„Þessar vangaveltur eru með ólíkindum. Ég hef aftur á móti tvisvar setið í pallborðsumræðum með Bill Gates en ég hef engin tengsl við hann og þekki manninn ekki neit. Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig hann notar fé sitt að berjast fyrir bólusetningum í þriðja heiminum gegn allskonar sjúkdómum. Í þau tvö skipti sem ég hitti hann fannst mér hann samt vera frekar pirrandi nörd.“

Pistil Guðrúnar má finna í heilu lagi hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -