Íslensk erfðagreining hættir að skima og slítur samskiptum við embætti landlæknis.
„Frá og með deginum í dag 6. júlí munum við hætta öllum samskiptum við sóttvarnarlækni og landlækni út af SARS-CoV-2. Síðustu sýnin sem við munum afgreiða eru þau sem berast til okkar á mánudaginn 13. júlí,“ skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE, í opnu bréfi til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, sem birtist á Vísi fyrir skemmstu.
Þar fjallar Kári meðal annars um þátt Íslenskrar erfðagreiningar í baráttunni við COVID-19 faraldurinn og hvernig fyrirtækið hafi lagt sitt af mörkum til að hefta úbreiðslu veirunnar. Til dæmis boðist til þess að skima eftir veirunni almennt meðan heilbrigðiskerfið skimaði eftir henni í þeim sem voru lasnir eða komu frá svæðum þar sem talin var mikil hætta á smiti. Eina veirurannsóknarstofa heilbrigðiskerfisins hafi lent í veseni þegar leið á faraldurinn, því miður, þannig að Íslensk erfðagreining hafi endað á því að höndla nær alla skimun í landinu um nokkurra vikna skeið hvort sem um var að ræða lasna eða heilbrigða. Það sé því ekki ólíklegt að sóttvarnir hefðu reynst erfiðar án aðkomu fyrirtækisins, sem hafi ekki bara tekið sýni og greint þau heldur hjálpað sóttvarnarlækni og „öðrum sem stóðu í baráttunni að sækja skilning í niðurstöður sem urðu til,“ skrifar Kári.
„Þú gengur út frá því sem vísu að við ætlum að halda áfram að sinna skimuninni án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut með það að gera hvernig að henni er staðið sem heild í hugsun og verki.“
Þegar opna hafi átt landamærin hafi Íslensk erfðagreining hins vegar ekki verið höfð með í ráðum. „Þótt það þætti ekki gagnlegt að hafa okkur með í skipulagningu var gengið út frá því sem vísu í því skipulagi sem var sett saman að ÍE myndi bjóðast til þess að höndla alls konar þætti skimunarinnar,“ skrifar Kári. „Við féllumst á að taka þátt í byrjun (ekki til eilífðarnóns), en þegar við urðum ekki vör við neinar raunverulegar áætlanir um að einhver tæki við af okkur sem hefði til þess burði urðum við óróleg, vegna þess að án þess að sjá fyrir endann á okkar framlagi gátum við ekki réttlætt að halda þessu áfram vegna þess að okkar dagvinna felst í allt öðru.“
Birtir Kári með þessu skrifleg samskipti sín og forsætisráðherra, þar sem hann kemur því meðal annars á framfæri þeirri skoðun í tölvupóst frá 1. júlí að búa þurfi til nýtt afl innan íslensks heilbrigðiskerfis til þess að höndla svona mál, Faraldsfræðistofnun Íslands, eins og hann orðar það, sem ætti að vera undir stjórn sóttvarnalænis, innan landlæknisembættisins, og býðst Kári bæði til að koma að uppbygingu þeirrar stofnunar og hýsa hana, til að byrja með, innan veggja ÍE. Fallist ríkisstjórnin ekki á að stofna apparat af þessu tagi fljótlega muni ÍE „hætta allri aðkomu að skimun og öðrum þáttum sóttvarna, vegna þess að án þess verðum við að halda áfram að vanrækja þá vinnu sem okkur er ætluð“.
Í tölvupósti sem er dagsettur 4. júlí þakkar forsætisráðherra forstjóranum fyrir starf Íslenskrar erfðagreiningar og segir að verið sé að skoða þessa hugmynd, sérstökum verkefnastjóra verði falið að fara yfir málið og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar eins og fljótt og auðið er, þó ekki síðar en 15. september.
Svarið virðist fara þvert í geðið á Kára.
„Það er ljóst á þessu svari þínu að þér er þetta vandamál ekki eins brátt og okkur,“ skrifar hann í opna bréfinu til Katrínar. „Þú gengur út frá því sem vísu að við ætlum að halda áfram að sinna skimuninni án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut með það að gera hvernig að henni er staðið sem heild í hugsun og verki. Og það sem meira er þér liggur ekkert á að setja saman apparat til þess að taka við af okkur. Þetta gengur einfaldlega ekki.“
Niðurstaðan er sú að Íslensk erfðagreining ætli að hætta skimunum og slíta samstarfi við landlæknisembættið.