„Þetta er svolítið ógnvekjandi. Fólk gæti því verið að dreifa veirunni án þess að vita af því.“
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við vefútgáfu bandaríska tímaritsins USA Today, þar sem fjallað er um aðgerðir stjórnvalda hérlendis til að takmarka útbreiðslu veirunnar og rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á henni.
Í greininni, sem mbl.is vekur athygli á, segir Kári m.a. frá því að um það bil helmingur þeirra sem hafi greinst með veiruna á Íslandi séu einkennalausir. Það sé dálítið óhugnalegt. Þá segir forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar að svo virðist sem tilraunir yfirvalda til að hamla útbreiðslu veirunnar séu farnar að bera árangur, með tilliti til þess að lítið samfélagslegt smit standi annað hvort í stað eða fari minnkandi.