Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir áform ríkisstjórnarinnar um að fara eftir litakóðunarkerfi við móttöku fólks á landamærunum út í hött: „Sú tillaga er einhvers staðar á milli þess að vera fáránleg, hlægileg og glæpsamleg. Það er alveg gjörsamlega út í hött,“ sagði Kári í þættinum Sprengisandi í morgun.
Kári hrósaði ríkisstjórninni og sagði hana hafa staðið sig mjög vel í faraldrinum og farið að ráðum sóttvarnayfirvalda. Þessi tillaga hafi hins vegar ekki komið frá sóttvarnayfirvöldum og segir hann hana byggða á óskhyggju. Jafn framt sagðist Kári vera handviss um að ekki yrði farið eftir þessari tillögu: „Ég hef enga trú á að menn haldi í þetta, þetta er svo heimskulegt.“
Í þættinum ræddi Kári einnig um hið breska afbrigði kórónuveirunnar sem nú er ríkjandi hér á landi: „Þessi veira er búin að dreifa sér svo mikið að hún hefur haft tækifæri til að stökkbreytast alveg gífurlega mikið. Það er eðli svona veiru að stökkbreytast þannig að hún geti flust á milli fólks, auðveldar. Það endar þannig að sú stökkbreyting sem leiðir til veiru sem flyst auðveldast á milli, hún blífur. Hún fer að ríkja í þeim sem sýkjast … ef maður horfir til mjög langs tíma, þá er líklegt að veiran verði skaðminni og skaðminni, en flytjist hraðar á milli,“sagði Kári.
Í gær greindust sjö með kórónuveiruna, þar af var einn utan sóttkvíar og annar á landamærunum.
Nú eru um 1.5000 manns í sóttkví og líklegast mun sú tala hækka þegar líður á daginn.