Íslensk erfðagreining hefur sýnatöku á ný til þess að kanna raunverulega útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu. Þá segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar að rannsóknin verði sambærileg þeirri sem fór fram árið 2020.
Kári telur veiruna svo útbreidda að slembiúrtak 500-1000 manns ætti að nægja til þess að sjá útbreiðsluna. Mikilvægt sé að fólk sé viljugt til þess að mæta fái það boð en velgengni rannsóknar ræðst af mætingu fólks í sýnatökuna. Greindi Morgunblaðið frá þessu.
Þá sé hugmyndin að endurtaka skimun á sama fólki eftir einn mánuð. Verður þá hægt að sjá hvort útbreiðsla smitsins hafi breyst.
Kári segir útkomu rannsóknarinnar geta verið mikilvæga fyrir sóttvarnaryfirvöld.
„Ég held að það skipti sköpum fyrir okkur að vita hvort það sé raunverulega miklu stærri hundraðshluti fólks sem hefur smitast af veirunni en talið er. Ef svo er fer maður að velta því fyrir sér hvort þær aðgerðir sem við erum með í gangi núna séu réttar.“