„Ég meina að við eigum að aflétta sóttkví og meira að segja sleppa einangrun þeirra sem smitast,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Hafði Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans greint frá í gær að það þyrfti aðgerðaráætlun um afléttingar og tók Kári undir það.
Taldi Kári afléttingarnar það eina í stöðunni en bætti við að hægt væri að herða aftur á takmörkunum ef illa gengi í kjölfar afléttinga.
„Við eigum bara ekki annan kost. Þetta er orðinn svo langur tími og við getum raunverulega ekki haldið áfram að halda niðri í okkur andanum. Við tökumst á við þetta og sjáum hvernig gengur,“ sagði Kári.
Vert er að taka fram að um 95% þeirra sem greinst hafa smitaðir undanfarið eru með Ómíkron afbrigðið en rest með Delta.