Fjölmiðlamaðurinn reyndi Karl Garðarsson segir að „þetta er sorgardagur fyrir íslenska fjölmiðlun – Fréttablaðið hættir endanlega útgáfu og 100 manns missa vinnuna.“
Bætir þessu við:
„Þetta var hins vegar fyrirsjáanlegt. Blaðaútgáfa hefur ekki staðið undir sér á Íslandi í áraraðir, bæði hafa tekjur af auglýsingum hrunið og kostnaður við prentun og dreifingu rokið upp úr öllu valdi.“
Heldur áfram:
„Það er orðið fátt eftir af einkareknum fjölmiðlum, nema þeir sem reknir eru undir merkjum Árvakurs og Sýnar. Aðrir eiga í vök að verjast.“
Karl segir að „því miður hefur stjórnmálamönnum ekki borið gæfa til að taka á ægivaldi RÚV á þessum markaði, vonandi verður nú breyting á.
Eftir stendur veikburða og einsleit upplýsingamiðlun sem getur skapað hættu í lýðræðisþjóðfélagi. Við þurfum ólík sjónarmið til að mynda okkur skoðanir. Það er smáhuggun að dv.is haldi áfram starfsemi. Það er vel markaður miðill, mjög vel hannaður og hefur sterkan lesendahóp. Við þurfum fjölbreytta miðla.“