Karlmaður var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfelldar ærumeiðingar og hótandir í garð fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Maðurinn birti vændisauglýsingar í nafni konunnar en þar kom fram símanúmer og heimilisfang hennar. Hann hótaði henni ítrekað lífláti.
Dómurinn yfir manninum féll í gær en hann var ákærður í tveimur liðum. Annars vegar fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að útbúa Facebook aðgang og vændisauglýsingu í hennar nafni. Í auglýsingunni var mynd af konunni, heimilsfang hennar og símanúmer. Þetta var gert gegn vilja konunnar. Maðurinn birti auglýsinguna víðsvegar um netið á tímabilinu nóvember 2019 til desember 2020.
Í seinni liðnum er fjallað um ítrekaðar hótanir mannsins í garð konunnar. Þar segir hann hana hafa eyðlagt líf sitt, kallar hana illum nöfnum og hótar henni lífláti. „Þú eyðilagði mitt lyf og ég mun rústa þínu lyfi,“ stóð í skilaboðum frá manninum til konunnar.
Einnig kom fram í dómnum ýmsar hótanir sem fóru fram í gegnum síma: „Láttu þér ekki dreyma um að þú haldir jólin. Mundu það. Mundu þessi orð. Þú skalt ekki láta þig dreyma um það og hvað þá áramótin.”
Samkvæmt sakavottorði hefur maðurinn ekki áður setið refsingu. Hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Verjandi ákærða, Ólafur Rúnar Ólafsson lögmaður, gerði ekki kröfu til málsvarnarlauna