Sunnudagur 12. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Karlmenn veigra sér við að leita aðstoðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í umræðu um átröskun hefur athyglin fyrst og fremst beinst að konum en í umfjöllun í nýjasta hefti Læknablaðsins er rætt við Guðlaugu Þorsteinsdóttur geðlækni sem segist telja að átröskun sé algengari meðal karla en tölur segja til um þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en konur. María Þóra Þorgeirsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri í átröskunarteymi Landspítalans, tekur undir þessi orð Guðlaugar. „Það er sú tilfinning sem við höfum að átröskun sem lýsir sér í togstreitu gagnvart mat og eigin líkama, sé vangreindur vandi hjá karlmönnum. Það er ákveðið stigma hjá körlum því fólk tengir átröskunarvanda fyrst og fremst við konur og það skilar sér í því að karlar þora ekki eða átta sig ekki á því að þeir eigi mögulega við átröskunarvanda að stríða,“ segir María.

 

Getur birst í vöðvafíkn

Hjá körlum getur átröskun tengst svokallaðri líkamsskynjunarröskun, en í slíkum tilfellum upplifir fólk líkama sinn ekki eins og hann er. Þetta getur meðal annars birst í vöðvafíkn. „Þá átta menn sig ekki á því hvað þeir eru í raun og veru orðnir stórir, og geta ekki hætt að lyfta lóðum og stjórna mataræði á óheilbrigðan hátt til að breyta líkama sínum. Svo er það hinn hópurinn sem er ekki að reyna að auka við vöðva en flakkar talsvert  í þyngd og á í mikilli tilfinningalegri togstreitu gagnvart mat.“

Rétt eins og hjá konunum segir María Þóra að karlar verði fyrir áhrifum frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þar birtist ákveðnar glansmyndir af því hvernig karlar eiga að líta út og engin ástæða sé til þess að þessar glansmyndir hafa minni áhrif á karla en konur.

 

- Auglýsing -

Íþróttafólk í áhættuhópi

Einnig hefur verið sýnt fram á samspil íþrótta og átröskunar en nýleg íslensk rannsókn leiddi í ljós að íþróttafólk er í sérstökum áhættuhópi við að fá átröskunarsjúkdóma. Þannig höfðu 25% kvenna neikvæða líkamsímynd og átröskunareinkenni og 14% karla. Gunnhildur Gunnarsdóttir, sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild, kannast við tilfelli þar sem ofþjálfun og átröskun haldast í hendur. „Við vitum að unglingar sem stunda mikla líkamsrækt fá stundum misgáfuleg ráð frá þjálfurum.“

Í ofangreindu viðtali við Guðlaugu er sérstaklega komið inn á neyslu orkudrykkja og fæðubótarefna og hún leggur mikla áherslu á að neysla slíkra efna geti aldrei komið í stað matar. Þetta eigi sérstaklega við um börn. „Orkudrykkir og fæðubótarefni eru of einhæf orkuinntaka og geta haft slæm áhrif á þroska barna og unglinga. Fyrir fullorðna einstaklinga er mikilvægt að átta sig á því að orkudrykkir og fæðubótarefni geta aldrei komið í staðinn fyrir mat. Það er ekki hægt að lifa á slíku.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -