Kateryna Tkachuk er tvítug og á ættir að rekja til bæði Úkraínu og Rússlands. Móðir Katerynu er frá Úkraínu en faðir hennar er rússneskur.
Foreldrar Katerynu skildu þegar hún var barn og flutti hún með móður sinni til Íslands þegar hún var tíu ára gömul.
Kateryna, sem býr í Breiðholti, fylgist áhyggjufull með fréttum frá Úkraínu. Hún segist halda að faðir hennar geti farið til Rússlands vegna uppruna síns, en þær mæðgur hafa verið í sambandi við aðra ættingja og vini í Úkraínu síðustu daga.
„Það er ekki rosalega mikið í gangi inni í Kherson, borginni minni, en fyrir utan hana eru herstöðvar og þar er verið að sprengja. Nú er búið að sprengja upp brú sem tengir úthverfin við miðborgina og skriðdrekar eru við borgarmörkin,“ segir Kateryna og bætir við að móðir hennar hafi verið í sambandi við vinkonur sínar sem hafi ákveðið að vera um kyrrt.
„Það eru mjög margir sem eru að reyna að flýja, en þær eru ekki með nógu mikið af bensíni og komast ekki mjög langt vegna mikillar umferðar.“ Þær hafi því ákveðið að búa sig frekar undir það sem gæti gerst í framhaldinu, ef ástandið versnar á svæðinu.
„Flest minni svæði voru alls ekki búin undir þetta, fólk leitaði til þeirra sem fóru fyrir húsfélögum og bað þau um að opna kjallara í byggingum, þar sem hægt yrði að leita skjóls,“ segir Kateryna og bætir við að byggingarnar séu ekki byggðar fyrir viðlíka átök og vofa yfir og því óttast fólk að þær hrynji og engin undankomuleið verði fær ef þær yrðu fyrir sprengju.
ég myndi telja Ísland vera „heima“ núna
Kateryna segir þær mæðgur heppnar að hafa flutt til Íslands áður en átök hófust í landinu.
„Við fluttum árið 2011 og síðan hófust átök árið 2014, þannig að við erum bara rosalega heppnar að hafa komist út áður en allt þetta byrjaði.“
Faðir Katerynu varð eftir í Úkraínu, en þær mæðgur hafa ekki verið í miklu sambandi við hann. Amma Katerynu er einnig í Úkraínu og er veik núna og óvissa ríkir um hvernig allt fer.
„Það er mjög erfitt að hugsa um þetta allt og hvort amma komist frá landinu, þá hvert og hvernig.“
Frændi Katerynu og vinir hennar eru óhultir eins og staðan er í dag og einn vina hennar er sjómaður og blessunarlega langt frá átökunum. Ein vinkvenna Katerynu stundar nám í Odessa og er hún á öruggum stað. Hún hefur lítið orðið vör við sprengjugný eða annan hávaða sem fylgir stríðsátökum.
„Ég hef ekki farið heim síðan ég flutti, en mamma mín hefur farið tvisvar sinnum,“ segir Kateryna.
Þá voru aðstæður tiltölulega rólegar þrátt fyrir mikla fátækt að hennar sögn, en eru þær mæðgur eru nú með íslensk vegabréf. Það sé öryggisatriði því þá sé ekki hægt að banna þeim að fara úr landi, ákveði þær að heimsækja heimalandið einhvern daginn. Mæðgurnar hafi ætlað að fara þangað til þess að selja íbúð sem þær eiga, en nú er erfitt að segja til um hvort nokkurn tímann verði af því.
„Ég var tíu ára þegar ég flutti og er tuttugu núna, ég myndi telja Ísland vera „heima“ núna. Úkraína er samt stór hluti af mér; þar á ég vini og upplifanir og minningar og var í skóla þar,“ segir hún og lýsir upplifun sinni af æskuárunum í Úkraínu.
„Ég er alltaf að hugsa um hversu gott var að búa þar þegar ég var lítil. Við höfðum kannski ekki eins mikið og við höfum hér á Íslandi, sem við erum mjög þakklát fyrir, en það er bara samt eitthvað við heimalandið sem maður saknar alltaf. Þótt lífið hafi kannski ekki verið það besta á þeim tíma var það samt æðislegt, einhvern veginn,“ segir Kateryna, en bætir við að hún sakni alltaf rótanna þrátt fyrir að hún sé fegin að vera búsett á Íslandi.
Kateryna segist hafa verið glöð sem barn og að mamma hennar hafi veitt henni allt sem hún þurfti.
„Ég veit alveg að það var erfitt fyrir mömmu mína, en hún gaf mér allt sem ég þurfti og ég var alltaf mjög glaður krakki.“
Það er erfitt fyrir mæðgurnar að horfa upp á ástandið í heimalandinu.
„Þetta er náttúrlega mjög erfitt, en við reynum bara að halda ró okkar eftir fremsta megni. Við vitum að það er lítið sem við getum gert, nema hugsanlega að veita fjárhagslega hjálp, ef svo ber undir, og fræða fólk.
Maður verður bara að vera rólegur
Ég hvet fólk til þess að hjálpa, hver einasta þjóð í þeim aðstæðum sem Úkraína er í núna myndi vilja fá hjálp. Ef fólk getur ekki aðstoðað fjárhagslega, þá er bara að deila upplýsingum og í slíku eru mikil hjálp fólgin,“ segir hún vongóð.
„Úkraína er mjög fallegt land. Það er svo falleg náttúra og menning og allt slíkt og maður óttast að allt slíkt verði bara horfið eftir nokkur ár eða bara mánuði,“ segir Kateryna.
Mæðgurnar taka einn dag í einu.
„Já, við erum að reyna að gera það, en við getum náttúrlega ekki sett tilveru okkar á pásu. Ég er á lokaönn í menntaskóla, þannig að það er líka mjög erfitt. En við erum að reyna að vera í eins miklu sambandi við ættingja og vini úti og við getum, en reynum að sama skapi að dvelja ekki of djúpt í þessu öllu, því þá gæti maður bara misst vitið. Maður verður bara að vera rólegur, sýna styrk og ró.“
Þá vill Kateryna benda öllum á að hægt sé að styrkja Rauða krossinn og deila upplýsingum um það.