„Það höfðu margir rosalegar áhyggjur af þessu og ég líka. Það er gaman að segja frá því. Ég hugsaði með mér hvernig ég ætti að gera þetta. Nú væri hann búinn að vera aðalkarlinn og ætlaði svo bara að vera í velferðarnefnd Alþingis,“ segir Katrín Jakobsdóttir í Helgarviðtali Mannlífs um þau valdaskipti sem urðu þegar hún varð arftaki Steingríms J. Sigfússonar sem formaður VG. Steingrímur stofnaði VG á sínum tíma og var lengst af óumdeildur leiðtogi. En þótt hann hætti sem formaður þá sat hann áfram á þingi. Hvernig var að hafa fyrrverandi formann í aftursætinu?
„Hann gerði þetta ótrúlega vel og samstarf okkar var gott sem fyrr”.
Steingrímur og Katrín eru gjörólíkir stjórnmálamenn. Hann var oft kjaftfor í þinginu svo eftir var tekið. Katrín er aftur á móti prúðmennskan uppmáluð. Hún er spurð um ólíkan stíl þeirra.
„Jú, hann átti það til að vera stóryrtur. Ég er bara alin þannig upp að ég á erfitt með stóryrði. En við erum góðir vinir og ég fór meira að segja og heimsótti hann í sumar. Það var hápunkturinn á sumarleyfi drengjanna minna að fá að vera með honum í sveitinni. Hann er skemmtilegur og það er gaman að fara með honum um landið”.
Þú getur lesið viðtalið við Katrínu forsætisráðherra í heild sinni hér í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs eða flett því hér fyrir neðan: