„Það að fyrirtæki sé að beita sér annarsvegar í kjöri hjá Blaðamannfélaginu og hins vegar hugsanlega gagnvart því hvernig stjórnmálaflokkar eru að stilla upp á lista finnst mér með með öllu óásættanlegt og farið langt yfir þau mörk sem við teljum eðlileg í samfélaginu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þá framgöngu Samherjamanna sem fram kom í leynigögnum úr tölvu Páls Steingrímssonar skipstjóra sem Kjarninn og Stundin hafa vitnað til.
Upplýst var að Skæruliðadeild Samherja, undir stjórn Þorbjörns Þórðarsonar, vildi hafa áhrif á kjör í Blaðamannafélagi Íslands til að fyrirbyggja að Sigríður Dögg Auðunsdóttir yrði kjörin. Þá vildu umræddir skæruliðar ekki að Njáll Trausti Friðbertsson yrði arftaki Kristjáns Þórs Júlíussonar sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Fjölmargir hafa fordæmt framgöngu Samherja og einelti fyrirtækisins í garð einstaklinga.
Bjarni Benediktsson, fjárfmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir þessi sjónarmið í samtali við RÚV.
„Mér finnst auðvitað óeðlilegt almennt ef að fyrirtæki vilja hafa áhrif á framboðsmál stjórnmálaflokka. En ég get ekki sagt það að ég hafi haft spurnir af því að það hafi haft einhver áhrif. Liggur það ekki fyrir samkvæmt lista yfir frambjóðendur að það virðist ekki hafa gengið eftir sem menn voru að véla um;“ sagði Bjarni við RÚV.
Aðspurður sagðist hann ekki hafa gert athugasemdir við Þorstein Má Baldursson vegna þessa máls.
Ekkert þremenninganna sem skipa Skæruliðasveit Samherja hafa þorað að tjá sig opinberlega. Upplýst hefur þó verið að Páll skipstjóri kæri þjófnað á einkagögnum sínum.