Forsætisráðherra fagnar fjölbreytileikanum og mannréttindabaráttu hinsegin fólks.
„Höfum það hugfast að allir dagar eiga að vera Hinsegin dagar, sama hvernig viðrar, dagar þar sem við fögnum fjölbreytileikanum og minnumst mannréttindabaráttu hinsegin fólks,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, í nýjustu færslu sinni á Facebook.
Tilefni skrifanna eru Hinsegin dagar sem áttu að hefjast með formlegum hætti í gær og standa fram á mánudag með þéttri dagskrá, en flestum skipulögðum viðburðum hefur verið aflýst vegna hertra samkomutakmarkana í tengslum við COVID-19. Þrátt fyrir þau áhrif sem veiran hefur haft á hátíðina og samfélagið allt undanfarna daga og vikur minnir Katrín á að landsmenn eigi rétt á að búa við frelsi, öryggi og hamingju.
„Við getum ekki notið hinna ýmsu viðburða í ár vegna COVID-19,“ skrifar Katrín, „en munum það í dag og alla daga, að við eigum öll rétt á að búa við frelsi, öryggi og hamingju. Öll eins og við erum.“
Endar forsætisráðherra færsluna á að óska landsmönnum öllum gleðilegra Hinsegin daga. „Til hamingju og gleðilega Hinsegin daga!“
Með færslunni birtir ráðherra mynd af sér með armband í regnbogans litum sem eru táknrænir fyrir fjölbreytileikann og samstöðu hinsegin fólks á Íslandi og um heim allan.