Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ofbeldisframkomu ungmenna í garð hinsegin jafnaldra sýna svart á hvítu að grunnt sé á fordómum á Íslandi.
Hún segist vera slegin yfir fréttum af slíkum málum og verið sé að grípa til aðgerða stjórnvalda til að uppræta slíka ómenningu.
Komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið að hópur hinsegin unglinga á höfuðborgarsvæðinu segist verða fyrir aðkasti daglega; sem eigi sér meðal annars rætur sínar að rekja til samfélagsmiðilsins TikTok.
Ungmennin segjast jafnvel forðast að fara ein úr húsi og að foreldrar þeirra lifi í stöðugum ótta; biðla til annarra foreldra að fræða börn sín um skaðsemi eineltis og áreitni.
Dæmi eru um að hinsegin unglingar hafi verið grýttir og þeim veitt eftirför; gelt að þeim og þeim hótað lífláti: Sögðu ungmenni sem rætt var við að vinur þeirra sem orðið hafði fyrir mjög miklu aðkasti hafi svipt sig lífi í fyrra.
Katrín forsætisráðherra er líka ráðherra jafnréttismála, og þessi staða vekur upp ugg hjá henni:
„Þetta slær mig auðvitað bara hræðilega. Það er mjög dapurlegt að einhvern veginn svona orðræða líðist í samfélaginu,“ segir hún og nefnir að verið sé að setja saman starfshóp sem á að leggja til leiðir um hvernig hægt sé að takast á við fordóma og hatursorðræðu í íslensku samfélagi; að í hópnum verði fulltrúar vinnumarkaðar, dómstóla, skóla og hagsmunahópa.
Katrín segir Ísland hafa þokast ofar í alþjóðlegum samanburði um réttindi hinsegin fólks; sérstaklega vegna lagasetninga að undanförnu sem ætlað er að tryggja að ástandið batni; en þó sé það þannig að oft taki langan tíma fyrir menninguna að breytast í samræmi við lagabreytingar:
„Það er einmitt meðal annars verkefni þessa hóps um hatursorðræðu. Það er ekki bara að horfa á löggjöfina heldur hvernig getum við unnið að því að uppræta þessa ómenningu.“
Katrín er þó á því að nokkuð langt virðist vera í land með að hægt verði að uppræta þennan óhugnað. Hún var spurð hvort það komi henni á óvart að fordómar gegn hinsegin fólki skuli koma frá ungu fólki, sem ætti að hafa alist upp við nýrri og breytt viðhorf:
„Ég held að þetta sýni okkur bara að það er grunnt á fordómunum, þannig er það nú bara.“