„Við höfum ekki verið með Covid-sjúklinga vegna sérgreinar okkar en auðvitað finnur man fyrir faraldrinum. Við höfum til dæmis stundum tekið sjúklinga frá öðrum deildum þegar það þarf fleiri pláss fyrir sjúklinga með Covid. Það finna allir fyrir því gríðarlega mikla álagi sem er á spítalanum þessa dagana,“ segir hjúkrunarfræðingurinn Þuríður Skarphéðinsdóttir.
„Ég vinn á heila-, tauga- og bæklunarskurðdeildinni á Landspítalanum í Fossvogi,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.
Hjúkrunarfræðingurinn Þuríður Skarphéðinsdóttir leitast við að vera umhverfisvæn í fatakaupum og kaupir næstum öll sín föt notuð. Hún fylgist lítið með tísku en hefur gaman af því að velta klæðnaði fyrir sér og gengur einfaldlega í fötum sem henni finnst falleg og klæða hana vel.
Kaupir bara notuð og umhverfisvæn föt
„Nú til dags reyni ég að kaupa öll fötin mín í hringrásarverslunum og fötin sem ég kaupi notuð eru yfirleitt ekki mjög dýr. Uppáhalds verslanirnar mínar eru Extraloppan í Smáralindinni og Verzlanahöllin á Laugavegi. Svo er ég líka í mörgum hópum á Facebook þar sem fólk er að selja notuð föt og hef keypt mjög margar af bestu flíkunum mínum þar,“ segir Þuríður. „Það eina sem ég á erfitt með að kaupa notað eru buxur, en leggings kaupi ég oftast á ethic.is, sem selur umhverfisvænni flíkur.
Í uppeldi mínu var lögð mikil áhersla á umhverfisvernd, sem er aðalástæðan fyrir áhuga mínum á notuðum flíkum. „Fast-fashion“ bransinn er fáránlega óumhverfisvænn og mér hefur reynst ótrúlega auðvelt að finna fallegar flíkur á netinu og í hringrásarverslunum,“ segir Þuríður. „Ég er reyndar heppin að vera í mjög algengri skóstærð og nota stærðir sem oftast er eitthvað til af í verslununum, en það góða við hringrásarverslanir er að þar getur fólk af öllum stærðum og gerðum selt fötin sín og keypt föt.
Mér finnst það skipta miklu máli að nýta notuð föt. Ef ég kaupi eitthvað sem ég geng svo ekkert í þá gef ég það alltaf áfram í Rauða krossinn og oft hef ég keypt eitthvað sem er alveg ónotað í hringrásarverslunum. Ég hætti nánast alveg að kaupa föt á vefsíðum eins og Asos og svo framvegis árið 2018 til þess að reyna að vera umhverfisvænni og ég reyni að forðast „fast-fashion“ verslanir eins og heitan eldinn,“ útskýrir Þuríður. „Ég er líka með app í símanum sem heitir „Good on you“, þar sem fatamerkjum er gefin einkunn varðandi umhverfisvernd og annað og ég mæli með því.“
Skemmtilegt að pæla í fötum
Þuríður hefur verið að sækja meira í þægilegar peysur að undanförnu.
„Ég veit ekki hvort það tengist álaginu út af faraldrinum beint, en ég er farin að nota og kaupa þær meira. Þær eru hentugar bæði heima fyrir og í daglegu amstri,“ segir hún.
Þuríður segist ekki hafa mikinn áhuga á tískuheiminum í sjálfu sér, en að henni finnist mjög skemmtilegt að pæla í fötunum sem hún og aðrir klæða sig í.
„Ég horfi til dæmis mikið á í hvernig skóm fólk gengur þegar ég á að vera að læra á Þjóðarbókhlöðunni og fæ líka oft innblástur frá einhverjum sem gengur fram hjá mér á Laugaveginum,“ segir hún.
„Ég var mjög fókuseruð á vintage tísku frekar lengi en á sama tíma keypti ég aðra hverja flík í H&M og Primark eins og ekta kaupóður Íslendingur. En undanfarin ár er ég byrjuð að hallast frekar að of stórum peysum (helst notuðum) við leggings, eins og miðaldra konan sem ég er að verða.
Ég er yfirleitt í fötum sem mér finnst falleg og klæða mig vel (að mínu mati, ekki mömmu). Ég hef alltaf sagt að ég sé „trend-setter“ þegar kemur að klæðaburði en vinkona mín vill meina að ég sé bara í ljótum fötum sem eru svo óvænt í tísku sirka tveimur árum seinna,“ segir Þuríður létt.
Heimild:
Ritstjórn. 2022, 20. janúar. Auðvelt að finna fallegar notaðar flíkur. Fréttablaðið.