„Hrefna er ánægð á Kjalarnesi, segir mannlíf blómlegt nú eins og fyrr á öldum.
Náttúran býður upp á mikla útivistarmöguleika, við höfum fjöruna og fjallið Esju. Hér er eitthvað fyrir alla, merkileg saga, útivistarsvæði fyrir börnin og allt áhugasamt útivistarfólk. Félagslíf blómstrar. Hér er elsti grunnskóli Reykjavíkur, vígður 1929. Á Kjalarnesi er fjölbreytt mannlíf og hér búa margir íbúar sem koma frá ýmsum löndum. Þegar Covid gengur yfir höfum við í sögufélaginu áhuga á að kynna okkur betur menningu og siði þessara þjóða.“
Samkvæmt rituðum heimildum, Landnámu og Kjalnesinga sögu, voru landnámsmenn hér á suðvesturhorni landsins, af keltneskum uppruna og komu frá Bretlandseyjum. Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, þjóðfræðingur og formaður Sögufélagsins Steina segir að þar séu margar áhugaverðar fornminjar sem vert sé að skoða.
Kjalarnesið á sér nefnilega heilmikla sögu, allt frá landnámi og fram á okkar daga. Má þar nefna örnefni í landi Hofs sem gefa til kynna að þar hafi verið heiðið hof en minjar um það hafa enn ekki fundist. Samkvæmt ofangreindum heimildum bjó þar Helgi bjóla landnámsmaður á Kjalarnesi.“
Minjar gamalla verbúða eru á nokkrum stöðum hér, sem því miður eru í hættu vegna sjávarágangs. Minjar eru um gömul býli, hjáleigur og gripahús. Í Blikdal eru minjar um selstöðu frá kirkjusetrunum Saurbæ og Brautarholti. Það má nefna hjáleiguna Grund, í landi Esjubergs, sem fór í eyði 1886 vegna skriðufalla. Samnefnt býli reis snemma á sl. öld þar sem Grundarhverfi stendur og hverfið dregur nafn sitt af. Eitt þekktasta býlið er Ártún. Það var notað sem vettvangur sumra af elstu kvikmyndum Íslands, t.d. „Síðasti bærinn í dalnum“ og „Gilitrutt“. Búskapur lagðist af í Ártúni á 6. áratug sl. aldar. Þá er einnig talsvert um minjar frá seinni stríðsárunum. Breski herinn hafði hér hersetu og síðar Bandaríkjamenn. Bækistöðvar þeirra voru einkum í Brautarholti, Arnarholti og Saurbæ,“ segir Hrefna.
Sögufélagið hefur staðið fyrir ýmsum uppákomum og fengið fræðimenn til að halda erindi um efni tengt Kjalarnesi. „Við höfum t.d. haldið „Keltneskt kvöld” þar sem áherslan er á menningu tengda Keltum, þ.e. Írum og Skotum. Við tökum þátt í Kjalarnesdögum sem haldnir eru síðustu helgina í júní. Þá er haldin guðsþjónusta í útialtarinu sem sóknarpresturinn okkar sér um og er samvinnuverkefni sögufélagsins og sóknarnefndar Brautarholtskirkju. Á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, þann 10. desember, er haldin samkoma í útialtarinu þar sem hvatt er til réttlætis og friðar í heiminum“.
Sögufélagið Steini hefur á undanförnum árum unnið við að byggja útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi og er verkinu senn að ljúka. „Útialtarið er minnisvarði um fyrstu kristnu kirkju landsins samkvæmt íslenskum ritheimildum. Kirkjan er kennd við Örlyg gamla sem sagt er að hafi siglt hingað frá Suðureyjum við vestanvert Bretland og reist kirkju á Esjubergi, í keltnesk-kristnum sið, um 900. Nú er unnið að fræðsluskilti með upplýsingum um altarið og tilurð þess. Hugmyndin um að reisa minnismerki um fyrstu kristnu kirkju Íslands, er áratuga gömul og gömul og lítið varð úr framkvæmdum fyrr en Sögufélagið Steini tók verkefnið upp á sína arma.