Laugardagur 28. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hvetur fólk til að hugsa í umhverfisvænum lausnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í kvöld mun myndlistarkonan Edda Ýr Garðarsdóttir leiða opna smiðju á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Hún mun skoða leiðir til að nýta gamlar bækur, tímarit og jólakort til að pakka inn gjöfum og gera kort og skraut. Einnig verður farið í það hvernig hægt er að nota nánast allt sem til fellur af heimilinu og nýta í eitthvað fallegt fyrir jólin.

Edda Ýr hefur lengi verið mikil áhugamanneskja um endurnýtingu. „Ég hef verið kennari í  leik- og grunnskólum síðan ég útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og hef alla tíð verið meðvituð um að endurnýta sem mest í listsköpun minni með börnunum. Börn horfa á flest allan efnivið með opnum hug og gefa honum nýjan tilgang í leik sínum og sköpun,“ segir Edda.

Gömul dagblöð nýtast vel sem gjafapappír.

Edda á stóra fjölskyldu og aðfangadagur er fjörugur á hennar heimili. „Pakkaflóðið er gríðarlegt og pappírsrusl, slaufur og skraut út um allt. Okkur blöskrar þetta alltaf jafnmikið og höfum reynt að geyma sem mest af endurnýtanlegum efnivið til innpökkunar eða kortagerðar til næstu jóla. Ein vinkona mín hefur svo verið dugleg að nota falleg bómullarefni sem má nota endalaust og frænka mín hefur notað þykkan handgerðan pappír sem við höfum notað aftur og aftur í örugglega fimm ár,“ segir Edda. Hún vandar valið þegar kemur að því að gefa jólagjafir.

„Við gefum aðeins nánustu ættingjum gjafir og reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert. En það er auðvelt að gleyma sér í neyslumenningunni og oft erfitt að standast freistingarnar.“

Reynum að gefa aðeins það sem hefur notagildi, gefum upplifanir og stundum eitthvað heimagert.

Spurð út í hvort umhverfisvænu lausnirnar sem hún notar til að pakka inn gjöfum veki ekki lukku segir Edda: „Ég vona að flestir sjái fegurðina í þessu. Þetta þarf hvorki að taka mikinn tíma né vera ofurflókið föndur eða hreinasta listaverk. Þótt tíminn vinni ekki alltaf með manni og sumar gjafir séu óumhverfisvænni en aðrar og jafnvel pakkað inn af verslunarfólki úti í bæ þá skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta. Eitt skref í einu er betra en ekkert og um að gera að hvetja sem flesta í kringum sig að hugsa í umhverfisvænum lausnum.“

Skiptir mestu máli að vera meðvitaður og gera sitt besta

Sífellt fleiri afþakka gjafir

Edda tekur fram að hún verði vör við að fólk sé í auknum mæli farið að hugsa út í umhverfisvænar lausnir í kringum allt jólahald. „Ég heyri æ oftar af því að fólk er að afþakka gjafir og gera með sér samkomulag um að fara frekar saman í leikhús eða út að borða. Ég hef heyrt um fjölskyldur sem ákveða að sleppa gjöfunum og eyða kvöldinu frekar í að spila og eiga notalega samverustund. Það er svo margt sem við getum gert umhverfisvænt sem er í anda jólanna, búa okkur öllum til betri heim.“

- Auglýsing -

Þess má geta að viðburðurinn er haldinn frá klukkan 20.00-22.00 í kvöld á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Þátttakendum er bent á að taka með sér gömul jólakort og fallegar bækur til að nýta í tilraunir. Á staðnum verða bækur, tímarit, gömul jólakort, skæri, lím, heftarar, skapalón, og fleira.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -