Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari, sendir frá sér tvær barnabækur fyrir jólin. Annars vegar bókina Langelstur í leynifélaginu sem er framhald af Langelstur í bekknum. Hins vegar bókina Næturdýrin sem hún vann með söngkonunni Ragnheiði Gröndal.
Bókin Næturdýrin fjallar um systkinin Lúnu og Nóa sem sofa lítið á nóttunni og örmagna foreldrarnir hafa samband við prófessor Dagbjart, svefnráðgjafa. Bókinni fylgir geisladiskur með fallegum lögum Ragnheiðar. „Okkur Röggu hafði lengi langað að vinna saman. Ég elska tónlistina hennar og við náum afskaplega vel saman. Sem mæður lítilla barna þekktum við báðar vandamálið að sofa illa eða lítið á nóttunni. Þess vegna langaði okkur að skapa fallegt ævintýri með lögum sem fjalla um draumaveröld systkinanna Lúnu og Nóa. Við fórum til dæmis saman í sumarbústað með fjölskyldurnar okkar, hljóðfæri, liti og blöð og létum ímyndunaraflið leiða okkur áfram,“ segir Bergrún.
Hún vonar að bókin verði hjálpleg fyrir börn sem glíma við svefnvandamál. „Svefnvandamálin geta verið mjög mismunandi. Sum börn fá martraðir og vakna hrædd, önnur eru full af orku og glaðvakna jafnvel um miðja nætur. Hugmyndin er að diskurinn og bókin kenni krökkum jákvæða kosti svefns og mikilvægi hvíldar fyrir líkamann, heilsuna, orkuna og ímyndunaraflið, eða eins og segir í bókinni: „Börn sem sofa vel verða sjaldnar lasin og fá fleiri skemmtilegar hugmyndir.“ Í bókinni eru ævintýralegar myndir úr draumalandi Nóa og Lúnu þar sem þau leika sér og stjórna öllu. Þar getur Nói til dæmis látið martraðakóngulóna minnka. Lögin hennar Röggu eru fullkomin og gullfalleg og mynda fallega heild. Þar eru rólegar vögguvísur í bland við hressari lög, eins og Kóngulóarlagið sem mörg leikskólabörn þekkja síðan það var flutt á Barnamenningarhátíð í Hörpu.“
Tónlistin fylgir bókinni, bæði sem geisladiskur en einnig er hægt að sækja hana á Netið. „Bókin er því veglegur gripur og falleg gjöf fyrir alla sem elska fallegar sögur og tónlist.“
Mynd: Bergrún Íris og Ragnheiður Gröndal.