Heimsmeistaramótið í ár verður sögulegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti sem keppnin er haldin í tveimur löndum, Danmörku og Þýskalandi. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi.
Ákvörðun um að halda keppnina í tveimur löndum var tekin í október 2013 en önnur lönd sem sóttust eftir að fá að halda keppnina voru Pólland og Slóvakía/Ungverjaland. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland (þ.m.t. Austur- og Vestur-Þýskaland) hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi. HM 2021 verður haldið í Egyptalandi og Pólland og Svíþjóð verða sameiginlegir gestgjafar árið 2023. Íslendingar hafa einu sinni brugðið sér í hlutverk gestgjafa, árið 1995 sælla minninga.
Keppnisstaðirnir verða sex talsins og verða fjórir þeirra í Þýskalandi – Berlín, Köln, München og Hamborg. Í Danmörku verður keppt í Kaupmannahöfn og Herning og fer úrslitaleikurinn fram í Jyske Box í Herning. Lanxess Arena í Þýskalandi rúmar flesta áhorfendur, alls 19.250, en Ólympíuhöllin í München fæsta, 12.000 áhorfendur.
Sex sinnum hefur það gerst að gestgjafar fari með sigur af hólmi á HM, nú síðast í Frakklandi árið 2017. Frakkar eru reyndar sigursælasta lið keppninnar frá upphafi því þeir hafa sex sinnum orðið heimsmeistarar. Svíþjóð og Rúmenía hafa fjórum sinnum hampað sigri og Þýskaland þrisvar. Ekkert lið utan Evrópu hefur orðið heimsmeistari. Katar komst næst því árið 2015 en liðið tapaði þá í úrslitaleik fyrir Frakklandi, í Katar.