Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Ketill Hafdal og pabbi hans lentu í sjávarháska á gúmmíbát: „Það var hálftvísýnt á köflum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er reimt á mörgum stöðum hérna upp frá. Það á að vera draugur við Álftavatn, Benni blauti heitir hann. Hann var bóndi sem kom hingað upp eftir í gamla daga með dóttur sinni að veiða og það fór ekki betur en svo að hann drukknaði í vatninu og sagan segir að hann gangi hér enn um og trufli fólk. Ég hef ekki orðið var við hann sjálfur. En ég hef nú orðið var við umgang í skálum þar sem enginn á að vera sem ég hef fundið fyrir en ég hef ekki orðið var við neina illa anda; það hefur enginn verið að trufla mig mikið,“ segir Ketill Hafdal Halldórsson, nemi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og í sumar skálavörður í skála Ferðafélags Íslands við Álftavatn.

 

Búið að stela bílnum?

Ketill segist í rauninn hafa verið alinn upp að hluta til á Fjallabaki og „út um allt á fjöllum og í óbyggðum. Ég kom fyrst hingað á Fjallabak þegar ég var fjögurra ára en foreldrar mínir voru skálaverðir í Hvannagili á vegum Ferðafélags Íslands og ég var þar í nokkur sumur í æsku. Eftir það fórum við á svolítið flakk á Kili og víðar. Svo hef ég lengi verið í Hornbjargsvita á Vestfjörðum með honum karli föður mínum, Halldóri Hafdal. Við byrjuðum þar 2010 ef ég man rétt og ég hef verið þar öll sumur síðan fyrir utan tvö síðustu sumur sem ég hef verið hér á Fjallabaki.“

„Pabbi; þú veist að þetta heita Þjófadalir.“

Ketill var um átta ára. „Ég var í Þjófadölum á Kjalvegi með pabba. Skálinn þar er niðri í dal og þarf að labba að honum. Það var komið rökkur þegar við gengum til baka til að fara í bílinn og fórum upp á hól en við töldum að bíllinn væri þar hinum megin. Það er sagt vera reimt á Kili og Þjófadalir er svolítið hræðilegt nafn í huga ungs drengs. Þjófar; það er nú ekki gott. Við sáum hins vegar ekki bílinn þar sem við töldum hann vera. Ég varð svolítið skelkaður og spurði pabba hvar bíllinn væri. Hann sagði við hlytum að hafa gengið upp á rangan hól. Ég var þögull í smástund, horfði svo í augun á pabba og sagði: „Pabbi; þú veist að þetta heita Þjófadalir.“ Ég var hálfskelkaður af því að ég hélt það væri búið að stela bílnum og við værum fastir þarna í óbyggðunum. En svo kom í ljós að við höfðum gengið upp á rangan hól og fundum við svo bílinn.“

Ketill Hafdal Halldórsson

- Auglýsing -

Tvísýnt

Feðgarnir voru eitt sumarið í Hornbjargsvita og veiddu stundum í soðið fyrir ferðamenn sem gistu þar. „Við fórum út á lítilli gúmmítuðru, svokallaðri Zodiac. Það var hálfgerð bræla; ekki gott í sjóinn. En það vantaði fisk. Það var nú ekki mikil veiði og við þurftum að leggja net til að ná í einhvern fisk en það gekk ekki neitt. Við vorum svo komnir með nokkra fiska í matinn fyrir hópinn og ákváðum að stíma í land nema hvað að þá fór mótorinn ekki í gang. Við vorum einir þarna úti á ballarhafi á litlum gúmmíbáti. Það var reynt og reynt. Pabbi er gamall vélstjóri og hann kann á svona græjur og hann fór eitthvað að rífa þetta í sundur en mótorinn vildi ekki fara í gang. Þá voru góð ráð dýr. Nema hvað að við vorum með tvær árar og þá var bara að róa í land. Ég held við höfum verið í um kortér til 20 mínútur að komast út en það tók okkur fjóra til fimm tíma að róa í land. Það var hálftvísýnt á köflum þegar við vorum að koma að innsiglingunni þar sem er mikið grjót og brim og vanir menn margir hverjir neita að sigla þarna á gúmmíbáti. En fyrir eitthvert kraftaverk tókst okkur að komast í land og það voru fiskibollur í kvöldmatinn fyrir fólkið.“

 

- Auglýsing -

Karlinn á bílþakinu

Ketill er spurður um eftirminnilega reynslu á fjöllum. Hálendinu.

Þeir sögðu bara „emergency“.

„Það er svo margt. Það sem mér dettur í hug er þegar ég var skálavörður í Hvanngili hérna á Laugaveginum fyrir tveimur eða þremur árum. Það var spáð svolitlum vindi og var mikið af tjaldbúum hjá mér og fullur skáli. Svo vaknaði ég um miðja nótt við það að talstöðin var alveg að fara að springa; það var alltaf verið að kalla á mig. Ég fór fram með stírurnar í augunum og svaraði og var spurður hvort ég gæti aðstoðað við að taka niður tjöldin. Ég hélt nú ekki; það væri bara fínt veður. En fyrst ég var kominn fram úr þá fór ég í regnjakkann og kíkti út og þegar ég kom á tjaldstæðið þá sá ég að öll tjöldin voru að hrynja og allir vakandi þar og grátandi fólk hér og þar. Ég fór aftur inn og bað um aðstoð og komu landverðir frá Álftavatni og við fórum að rífa niður tjöld. Við vorum að því fram á morgun sem væri ekki í frásögur færandi nema það að morguninn eftir var ég aftur vakinn eldsnemma en þá var það ferðafólk sem var kalt og blautt og vildi komast heim. Svo komu tveir ferðamenn hlaupandi og var mikið fát á þeim. Þeir sögðu bara „emergency“. Ég spurði hvað væri að og þá kom í ljós að óbreyttur Land Rover var fastur í kolófærri á og maður á toppnum. Það endaði með því að það komu björgunarsveitir alls staðar að til að kippa honum upp úr eftir margra tíma bið með karlinn á þakinu.“

Ketill Hafdal Halldórsson

Í sumar er Ketill, sem er 21 árs, staðarhaldari á Álftavatni sem er á Laugaveginum.

„Ég sé bara um staðinn hér. Starfið er tvíþætt. Maður er annars bara ræstitæknir – bara þrífa, þrífa og þrífa. Svo er það hins vegar að vera til staðar ef eitthvað kemur upp á. Það er ýmislegt sem kemur upp á; í gær var veikur maður á svæðinu sem þurfti að fara í bæinn og komu björgunarsveitarbíll til að sækja hann.“

 

Öllu er bara reddað

Ketill segist ekki hafa eytt sumri í bænum frá því hann man eftir sér.

„Þegar fer að vora og sól að hækka á lofti þá kemur alltaf smáfjallaspenna í mann og maður þarf að fara að komast upp eftir. Svo enda öll sumur á því að ég segist aldrei koma aftur; þetta sé búið. Þá er ég kominn með alveg upp í kok. En svo kemur maður alltaf aftur.“

Svo fylgir þessu góður félagsskapur og almenn stemmning.

Hvers vegna?

„Þetta bara kallar á mann. Það er eitthvað. Fjöllin kalla. Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim. Ætli það sé ekki bara frelsið og náttúran; það er mikið frelsi hérna upp frá. Það er annar tími. Það er ekkert stress. Hlutirnir bara gerast. Það virkar alltaf. Hvort sem það gerist núna eða eftir 10 mínútur, hálftíma, klukkutíma eða á morgun eða jafnvel í næstu viku. Öllu er bara reddað. Og það reddast alltaf. Svo fylgir þessu góður félagsskapur og almenn stemmning. “

Hann talar líka um friðinn. Ferska loftið. „Það verður ekki mikið betra.

Ætli maður sé ekki með fallegasta útsýni af skrifstofu sem fyrirfinnst þegar maður horfir út á vatnið og sér fjallasýnina. Maður hugsar stundum með sér að það sé ótrúlegt að maður vinni við þetta; að fá greitt fyrir að vera hérna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -