Kona ók á lögreglubifreið í Hlíðahverfi skömmu fyrir miðnætti í gær. Lögregla hugðist stöðva konuna sem var akandi á vespu en sinnti hún ekki stöðvunarmerkjum og ók á bifreiðina. Konan var fyrst flutt til aðhlynningar á bráðadeild en gisti hún í fangaklefa í nótt. Er hún grunuð um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk þess að hafa ekið ítrekað svipt ökuréttindum.
Tveir ungir menn, í annarlegu ástandi, voru handteknir um klukkan hálf fjögur í nótt í miðbæ Reykjavíkur. Fóru þeir ekki eftir fyrirmælum lögreglu og gistu í fangaklefa.
Lögregla stöðvaði bifreið á 141 km/klst. á Reykjanesbraut skömmu fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Ökumaðurinn reyndist vera 17 ára gömul stúlka og var málið unnið með aðkomu foreldra og tilkynnt til Barnaverndar.
Þá var par handtekið í Kópavogi í nótt. Eru þau grunuð um innbrot og vörslu fíkniefna. Gistu þau bak við lás og slá.
Alls voru sjö manns stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Einn þeirra framvísaði fölsuðu ökuskírteini.